Það var einn maður sem var alltaf í strætó þegar ég kom upp í vagninn á morgnanna. Hann sat alltaf í sætinu fyrir aftan hurðina í miðjunni, þarna fyrir aftan glerið sem kom í veg fyrir að þeir sem sætu í sætinu myndu kastast fram á ganginn þegar strætó stoppaði snögglega. Gamli maðurinn sat alltaf þarna, á sama staðnum, og málaði á glerið. Málaði eins og líf hans væri að veði, fjöll, akra, borgir og fólk. Svo stóð hann alltaf upp á sömu stoppistöðinni og gekk út, geymdi málverkin í vagninum fram til næsta morguns.
Auðvitað var hann ekki að mála í alvöru, þið vitið. Hann var bara að þykjast mála, hélt hendinni svona uppi eins og það væri pensill í henni og hreyfði hana eins og hann væri að mála. En ég hafði gaman að því að horfa á hann. Brátt varð ég gagntekin. Ég ímyndaði mér að hann hefði verið frægur listmálari þegar hann var yngri, svona létt klikkaður eins og listamenn eru oft. Svo hafi geðveikin heltekið hann og nú væri hann fátækur öryrki sem minntist liðinna daga. Kannski gerði hann þetta ósjálfrátt, kannski hafði hann lifað fyrir list sína. Hann varð fastur liður í ferð minni á morgnanna. Að fylgjast með manninum og ímynda mér líf hans áður en hann endaði hér. Hvað það hlaut að hafa verið glæst miðað við það sem nú var. Stundum ímyndaði ég mér að svona yrði ég í framtíðinni; aleinn, gamall og klikkaður. Skuggamynd af fyrri frama.
Síðan einn daginn var hann ekki á sínum venjulega stað. Í stað hans sat nú ung kona í sætinu fyrir aftan miðhurðina. Ég leit óttasleginn í kringum mig, hann hlaut að vera í einhverju öðru sæti, konan hafði greinilega komið inn á undan honum og ekki vitað að þetta væri hans sæti. Hann hlyti að sitja einhversstaðar annarsstaðar í vagninum með teikniblokkina sína að hugsa út málverk morgundagsins fyrst hann gæti ekki málað í dag. Ég leit á hvert einasta andlit í vagninum, starði á þau örvængingarfull, vonaði að þau breyttust í hans andlit á meðan ég horfði á þau. En hann var ekki þarna. Ég skildi þetta ekki, það gat ekki verið að hann væri ekki þarna. Mér leið eins og það væri verið að skilja mig frá sálufélaga mínum.
Svo áttaði ég mig. Af hverju hafði ég svona miklar áhyggjur af þessu? Ég þekkti þennan mann ekki neitt. Hann tók bara sama strætó og ég á morgnanna. Kannski hafði hann bara fengið far hvert sem hann var að fara í morgun. Eða kannski var hann dáinn. Kannski hafði einhver keyrt á hann á leiðinni í strætóskýlið í morgun… Aumingja maðurinn. Þá stoppaði ég aftur. Af hverju var mér ekki sama? Fólk var farið að stara á mig, af hverju horfði ég svona skelkaður í kringum mig, af hverju settist ég ekki niður? Hvað var eiginlega að mér? Ég settist rólega niður aftarlega í vagninum.
Svo fór ég að hugsa. Ég hafði aldrei pælt í því hvert maðurinn væri að fara á hverjum morgni. Aldrei hugsað um líf hans í nútímanum. Af hverju hafði ég aldrei hugsað um það? Svo hrökk ég við. Strætóinn hafði numið staðar á stoppistöðinni þar sem gamli maðurinn hafði venjulega farið út. Án þess að hugsa mig um stökk ég út úr vagninum. Ég lenti frekar harkalega á gangstéttinni og fann sársauka stíga upp vinstri fótlegginn á mér. Af hverju hafði ég meitt mig á smá hoppi? Ég var ungur og hraustur. Ég hristi sársaukan af mér og leit í kringum mig. Svo byrjaði ég að labba. Ég vissi ekki hvert ég væri að fara en það var eins og eitthvað væri að toga í mig, eitthvað ósýnilegt aðdráttarafl. Ég reyndi að horfa í kringum mig á meðan fæturnir báru mig nær uppruna segulmagnsins. Hvar var ég? Hvert var ég að fara? Það var eins og fæturnir vissu hvert þeir væru að fara, eins og þeir hefðu gengið hérna oft áður.
Loks kom ég að húsi. Það var stórt og hvítt með mörgum gluggum á nokkrum hæðum. Ég gekk að hurðinni og laggði höndina á húninn. Um leið og ég togaði sá ég skilti sem á stóð “Ýtið”. Hurðin opnaðist. Af hverju hafði ég togað? Mér leið eins og þetta væri draumur sem mig hafði dreymt áður. Ég gekk inn. Og þarna var hann! Gamli maðurinn. Hann stóð og horfði beint á mig, steinhissa á svip. Mér létti. Ég hafði fundið hann, hann var sprellifandi, það var ekkert að honum. Hann hafði sennilega bara fengið far eins og mér hafði dottið í hug áður. Ég brosti til hans og hann brosti á móti. Eins og hann þekkti mig, eins og hann væri jafn glaður að sjá mig og ég var að sjá hann. Ég tók nokkur skref í áttina að honum, mig langaði að sjá hann betur, mig langaði að snerta hann, faðma hann, ég var svo glaður að sjá hann aftur. Hann gekk á móti mér. Ég rétti út höndina til að snerta hann, varð að finna að hann væri raunverulegur, og hann rétti sína út á móti eins og hann væri jafn spenntur og ég. Fingur mínir voru aðeins sentímetrum frá hans. Ég teygði mig áfram, ég var alveg að ná takmarkinu. Bráðum væri ég að koma við hann, manninn sem ég hafði fylgst með svo lengi, ímyndað mér svo margt um. Bráðum yrði hann raunverulegur. Fingurnir lentu á köldum og hörðum fleti. Ég hrökk við. Svo leit ég á höndina sem ég hafði rétt út. Hún var þrútin og hrukkótt, eins og hana ætti gamall maður. Ég leit upp og sá sjálfan mig stara á mig í speglinum.
Innan úr móttökunni heyrðist ung konurödd. Högni minn, ert þetta þú?
Ég leit aftur í spegilinn. Vonbrigðin leyndu sér ekki í svip gamla mannsins. Svo haltraði ég inn í móttökuna. Já Stína mín, ég er kominn.