Ja, ég er nú ekki vanur að skrifa á hinu ylhýra íslenska, en nú þegar maður er kominn með smásögu á íslensku, þá verður maður að setj'ana upp hér, er það ekki?

Allavega, þetta er saga sem ég skrifaði fyrir systir mína, eiginlega bara af því ég dýrka nafnið hennar XD Vona að það sé jafn gaman að lesa hana og það var að skrifa hana :D


Ester gekk stóreygð um Draugaskóg, hissa á fegurðinni sem svæðið bauð upp á þrátt fyrir nafngiftina sem staðurinn hafði fengið vegna sagna.

Á öllum þeim níu árum sem hún hafði lifað hafði Ester aldrei þorað inn í skóginn við hliðina á bænum hennar, hrædd við villidýr og drauga sem foreldrar hennar höfðu sagt að drægust að svæðinu einsog flugur að eldi, en af einhverjum ástæðum var hún ekki hrædd lengur. Henni leið eins og einhver væri að fylgjast með henni. Hún fann ekki til hræðslu við það; henni létti frekar. Henni fannst hún örugg. Henni fannst hún vernduð.

Birki- og –aspartré voru allt í kringum hana, haustlitirnir næstum alveg búnir að setjast að á laufum trjánna. Síðustu geislar sólar voru að berjast við að reyna að komast í gegnum þykknið, en laufin voru svo þétt saman að niðurstaðan varð ekki ljós heldur mikil ljósasýning. Stórkostlega rautt og gult og stöku grænt ljós féll á jörðina í kringum hana, og úr varð mynd sem hvaða málari sem væri hefði mátt tárast úr stolti yfir að gera.

„Allt er svo fallegt hérna,“ hugsaði hún, hissa á eigin ótta við skóginn. „Af hverju hef ég aldrei komið hingað fyrr? Það er ekkert hræðilegt í skóginum. Hann er bara…dásamlegur.“

Ester hafði ráfað stefnulaust um skóginn, heltekin af fegurð hans, í rúman hálftíma þegar hún áttaði sig á að hún vissi ekkert hvar hún væri. En jafnvel þá, rammvillt í margra mílna skógi, vissi hún að hún væri örugg. Hvað sem það var sem fylgdist með henni, þá komst hún ekki hjá því að líða eins og ekkert gæti skaðað hana. Hún var vernduð.

Tíminn hætti að vera til fyrir Ester. Hún hafði ekki lengur hugmynd um hve lengi hún hafði verið í skóginum, en fannst það ekki skipta máli lengur. Þegar heimurinn er svona fallegur, hvernig gæti tíminn skipt máli?

Skógurinn dró hana til sín, einhvern veginn. En samt fannst henni ekki einsog það væri skógurinn, þótt hann væri fallegur, heldur eitthvað sem hún þurfti að gera. Eitthvað sem hún gæti bara gert í skóginum.

Hún vissi ekki hve langur tími hafði liðið þegar þorstinn varð yfirsterkari lönguninni til að horfa á fegurð trjánna. Kannski var það klukkutími; kannski meira. En hún vissi það að um leið og hana þyrsti, þá gekk hún fram á lítinn læk.

„Heppin ég!“ skríkti hún í barnslegri hrifningu, og hljóp svo að læknum. Hún lagðist á mosavaxinn bakkann og þambaði frískandi vatnið beint úr læknum. Þegar hún hafði svalað þorstanum settist hún með bakið í lækinn, horfandi útí loftið fyrir framan sig.

„Ég veit þú ert þarna. Ég sé þig ekki, en ég veit þú ert þarna,“ sagði hún skyndilega, lágt einsog hún væri hrædd um að brjóta eitthvað með röddinni. Stutt þögn fylgdi á eftir. „Af hverju fórstu frá okkur ef þú vildir koma aftur?“ spurði hún svo, röddin eilítið styrkari, en hún gat ekki leynt sársaukanum sem blundaði í henni.

Hún heyrði ekki svarið með eyrunum, en vissi samt hvað það var. „Ég vildi ekki fara, Ester mín,“ heyrðist rödd í huga hennar, gömul en styrk, og huggandi, „en ég mátti til. Ég vildi ekki fara frá þér, barnið mitt; ekki frekar en ég vildi bjóða bjöllu að sofa uppi í rúmi hjá mér.“ Ester flissaði að samlíkingunni, en þagnaði þegar hún heyrði rödd móður sinnar kalla á hana úr fjarlægð.

„Þú verður að fara bráðum,“ sagði röddin, á sama tíma hrygg og huggandi. „Við getum ekki talað saman svona aftur, barnið mitt, því að það var nógu erfitt að fá að tala við þig núna, svona unga, en mundu að ég verð alltaf með þér. Þú sérð mig kannski ekki, né heyrir í mér eða einu sinni finnur fyrir mér, en ég verð alltaf með þér.“

Ester svaraði ekki. Hún þurfti þess ekki. Hún sneri sér bara við, að læknum, og fór að teikna hringi í vatnið með vísifingri, örugg fyrir öllum villidýrum og draugum sem bjuggu í skóginum.

Verndartilfinningin var ennþá yfir henni þegar foreldrar hennar ruddust inn í rjóðrið með heilan leitarflokk á hælunum. “Guð minn almáttugur, barn, þú mátt ekki bara láta þig hverfa svona úr útför afa þíns tímunum saman! Og það inn í Draugaskóg af öllum stöðum! Almáttugur! Ef hann bróðir þinn hefði ekki séð þig fara inn hefðirðu örugglega týnst eða…eða…bara drukknað!” æpti móðir Esterar upp yfir sig og benti skelfingu lostin á tíu sentímetra djúpan lækinn.

Ester var hrifin upp af jörðinni af sterkum höndum föður hennar, sem lagði líka þó nokkur orð í belg til viðbótar við konu sína, og lagði hana yfir herðar sér. Allur hópurinn fór svo beinustu leið heim, en Ester var sú eina sem leit til baka.

Þar sá hún, eða hélt að minnsta kosti að hún sæi, afa sinn, standandi yfir læknum, brosandi hughreystandi til hennar. Hann benti til Esterar og lagði svo hönd á brjóst sér, einsog hann vildi segja “ég elska þig, barnið mitt” í síðasta sinn. Svo hvarf hann.

Ester varð ekki sorgmædd. Í staðinn þá brosti hún, og muldraði: “ég elska þig líka, Siggi afi. Bless.” Og hún vissi að hún var búin að gera það sem hún þurfti í skóginum.