„Þetta var örugglega ekki alvöru ást,“ skrifaði ég rétt áður en bankað var á hurðina. Ég lokaði dagbókinni og hljóp til dyra í von um að setningin sem ég var að enda við að skrifa væri röng…
Þriðjudagur 6.mars 2007:
Dagurinn byrjaði eins og hver annar þriðjudagur á leiðinlegum íslenskutíma með tilgangslausu upplýsingaflóði um bókmenntasögu. Það var svo í fyrstu frímínútunum sem ég sá hann. Ég sat bara með Beggu og Lindu inni í matsalnum þegar hann settist við borðið rétt hjá okkur. Hann var sætasti strákurinn sem ég hef nokkurn tímann séð (fyrir utan kannski Brad Pitt :) Strákarnir sem settust hjá honum kölluðu hann Adda. Ég eyddi restina af frímínútunum í að stara á hann og ég hugsaði um hann það sem eftir var af deginum. Ég var svo á leiðinni heim þegar svört Honda keyrði upp á gangstéttina rétt hjá mér með Adda undir stýrinu. Hann skrúfaði niður rúðunni og bauð mér far. Ég rétt gat komið upp aumu jái og settist inn. Hann var jafn vandræðalegur og ég á leiðinni en ég komst að því að hann hét Arnar og að hann byrjaði í skólanum þessa önnina. Hann stoppaði fyrir framan hjá mér og það varð vandræðaleg þögn. Ég bauð honum inn af því að mamma og pabbi voru bæði í vinnunni.
Hann settist á rúmið inni hjá mér og aftur kom þessi vandræðalega þögn. Ég sagði eitthvað um skólann til að spjalla en hann stóð bara upp, gekk að mér og kyssti mig. Svo rauk hann út…
Fimmtudagur 8.mars 2007:
…Ég hafði hvorki séð né talað við Adda síðan við kysstumst. Svo var það fyrir efnafræðitíma þegar ég sá hann fara inn á karlaklósettið þannig að ég elti hann. Hann var að þvo sér um hendurnar en hann sagði ekkert þegar hann sá mig þannig að ég spurði hann hvað við ættum að gera. Hann svaraði mér ekki beint en hann bauð mér í bíó á morgunn. Það sem hann sagði svo þaut í gegnum hugann á mér það sem eftir var af deginum þannig að ég man það orðrétt. Hann sagði; Þú mátt samt ekki segja neinum. Ég veit ekki hvað myndi gerast, ég gæti ekki höndlað það. Ég spurði hann hvort hann skammaðist sín fyrir að vera hrifinn af mér en aftur svaraði hann ekki. Hann sagðist bara ætla að sækja mig hálf átta daginn eftir…
Föstudagur 13.apríl 2007:
…Ég var kominn heim til Adda um níu. Hann var einn heima þessa helgina þannig að við ákváðum að nýta tækifærið. Í fyrstu vissi ég ekki til hvers en þetta kvöldið fórum við alla leið. Þetta var fyrsta skipti okkar beggja og það var hálfskrýtið. Samt gott skrýtið, held ég. Æ, ég veit ekki. Samband okkar er eitthvað svo flókið…
Laugardagur 7.júlí 2007:
…Ég held að ég elski Adda. Samband okkar er ennþá leyndarmál en í kvöld fannst mér eitthvað breytast. Kannski er hann tilbúinn að sýna heiminum hvernig honum líður…
Sunnudagur 8.júlí 2007:
…Ég get ekki haldið tárunum inni. Addi hringdi í mig í kvöld og sagði mér að láta sig vera. Að þetta væri búið. Ég trúði því ekki. Hann sagði að hann gæti þetta ekki lengur, lifað í lygi. Segðu þá sannleikann, sagði ég honum…
Föstudagur 13.júlí 2007:
…Ég fattaði það áðan að það var nákvæmlega fyrir þremur mánuðum í dag sem við Addi gerðum það fyrst. Eftir heila viku af ógleði og þunglyndi langar mig ekkert frekar en að gleyma honum. Komast yfir þetta. Hann er ekki þess virði að væla yfir fyrst hann gat ekki viðurkennt tilfinningar sínar fyrir öðrum en mér. Þetta var örugglega ekki alvöru ást…
Ég opnaði hurðina með spenningi. Addi stóð fyrir utan hjá mér sætari en nokkru sinni fyrr. Hann hélt mér þétt að sér, kyssti mig á kinnina og hvíslaði í eyrað á mér; „Ég er tilbúinn að segja frá okkur. Fyrirgefðu hvernig ég lét.“ Ég kyssti hann á móti og hvíslaði; „Ég elska þig, Addi.“ „Ég elska þig líka Reynir,“ svaraði hann.