Eitt kvöldið stóð ég við eldhúsvaskinn og vaskaði upp. Ég var djúpt sokkin í uppvaskið þegar ég leit annars hugar út um gluggann og kom auga á unglingsstúlku í nálægum garði. Þar sem ég var nýlega flutt í götuna kannaðist ég lítið við nágrannana.
Stúlkan var önnum kafin við að raka saman nýslegnu grasi og tók því ekki eftir að ég var að glápa yfir gardínurnar hjá mér. Hún krafsaði miskunnarlaust í jörðina með hrífunni þar til sást í mold. Annað veifið lagðist hún fram á hrífuskaftið og starði út á hafið, ég fékk það á tilfinninguna að eitthvað mikið hvíldi á stúlkunni.
Ég kallaði á elstu dóttur mína og spurði hvort hún kannaðist við þessa stúlku. Dóttir mín játaði, þessi stúlka var bekkjarsystir hennar. En þegar ég spurði hvort þær væru vinkonur hnussaði í minni. Auðvitað ekki, hélt hún fram, þetta væri mesti lúðinn í skólanum og við svoleiðis fólk neitaði dóttir mín að vingast við. Hneyksluð og stórmóðguð fyrir hönd stúlkunnar spurði ég; hví? Nú, vegna þess að hún lærði svo mikið, var alltaf hæst í öllu. Svo átti hún enga vini sem var ekki nema von, vildi dóttir mín meina. Ég stundi þungan yfir öllum þeim skiptum sem ég hafði reynt að telja henni trú um mikilvægi lærdómsins á þessum árum. Einhvern veginn neitaði það að síast inn hjá henni, þar sem hún var frekar vinsæl og mun meira fyrir skemmtun en skólabækur. Sama hvað ég reyndi að útskýra fyrir henni að þessi stúlka ætti einhverja framtíð, óháð þeim sem ekki nenntu að læra, neitaði hún. Jú, hún ætti sér kannski framtíð sem bókasafnsvörður en þar á móti ekkert félagslíf sem var öll framtíð í augum dóttur minnar. Í fússi rauk hún svo út, sagðist vera á leiðinni á ball. Pirruð á henni leit ég after út um gluggann. Ég vissi að þessi unga stúlka, sem stóð og rakaði garðinn sinn, ætti meira en bara bjarta framtíð framundan.
Örfáum dögum síðar, eða daginn sem skóla var slitið, kom dóttir mín hálfgrátandi heim. Ég tók utan um hana og spurði hvað væri að anga hana. Í sjokki hlustaði ég á dóttur mína greina frá einum hræðilegustu fréttum sem ég hef nokkurn tíman heyrt. Hún sagði að unga stúlkan , sem ég sá raka garðinn sinn, hefði í dag tilkynnt að hún væri með ólæknandi sjúkdóm sem gæti, og líklega myndi draga hana til dauða. Hún hafði tekið allt sitt dót í dag og kvatt bekkjarsystkini sín til níu ára, líklega í síðasta sinn. Nú héldi hún til höfuðborgarinnar og væri þar á spítala til að halda aftur af sjúkdómnum. Núna skildi ég allt og vissi að stúlkuna myndi ég aldrei sjá aftur. Dóttir mín leit á mig tárvotum augum og sagði: “Hver á núna enga framtíð mamma? Ekki er það ég, heldur lúðinn sem lagði allt á sig til þess að eignast hana.”
Ein af mínum fyrstu smásögum, endilega segja ykkar álit.