Ljósastaurarnir eru farnir. Rauða skíman sem litar andlitin er frá lestarteinunum, hinum meginn við múrvegginn. Muldur fyllir myrkrið. Portið er fullt af fólki, en engin þorir að sofa. Þegar þrír ungir menn ganga fyrir hornið hljóðnar það augnablik. Þeir eru ungir, vel klæddir og augljóslega ekki hermenn. Þeir sneyða hjá pollunum. Skyldu þeir eiga peninga? Hvað eru þeir að gera hér?
Meðfram veggjunum er malbikið þurrt. Fólkið hrjúfrar sig þar uppvið. Gömul tannlaus kona hrekkur í burtu þegar hún sér mennina nálgast. Hún er undarlega kvik í hreyfingum og vaggar hratt hratt þvert yfir planið í fangið á miðaldra subbulegum manni. Kannski maðurinn hennar. Kannski sonur hennar.
Mennirnir án umhugsunar leggja undir sig staðinn hennar við vegginn. Gömul augu píra á þá haturslega úr myrkrinu en þeir taka ekki eftir því. Þeir tylla sér og eru augljóslega þreyttir. Í því ástandi að líkaminn ætlar að reyna það til þrautar að koma þeim í draumaland áður en hann lætur eftir og dælir síðustu adrealínleifunum í æðarnar. Það fer ekki fram hjá neinum að þetta eru ekki menn sem eru vanir því að missa svefn.
Það eru ekki bara gamalt fólk sem á heima í þessu húsasundi. Líka yngri menn. Byttur. Heimilisleysingar. Fatlaðir. Miðaldra maður situr á ferðatösku og horfir athugull á þá. Hann er vanur að nálgast svona menn og betla smáaura. En hann er ekki vanur að svona menn nálgist hann og veit ekki hvort hann eigi að þora að spyrja. Hann er ekki eini betlarinn á svæðinu sem er ringlaður. Aðrir eru í öðrum hugleiðingum. Ræfilslegur unglingur hvíslar stöðugt að eldri ráðgjafa sínum. Hann vill ráðast á þá. Ræna þá. Hinum finnst það ekki ráðlagt.
„Þessir þrír nýgræðingar eru ráðgata,“ segir hann.
„Þeir komu hingað. Á okkar yfirráðasvæði. Þeir gætu sjálfum sér um kennt,“svarar sá ungi.
Fleiri eru að hlusta. Einstæðingur með hækjur hlustar. Hann er þekktur fyrir að vera vinalaus, málglaður og móðgunargjarn. En nú tottar hann sígarettustubb sem hann hefur einhverstaðar komist yfir og segir ekki neitt. Horfir bara á mennina þrjá. Loks stendur hann upp og labbar í áttina að þeim. Hann stefnir í áttina á þeim sem situr lengst til vinstri. Hann er í hlýjum frakka. Sjálfur var hann bara í vesti yfir bolnum og það var kalt. Hann er einfættur en ferðast samt jafn hratt og maður sem myndi skunda.
Strákurinn í frakkanum virðist ekki átta sig á neinni hættu. Óbanginn horfir hann beint aftur í augun á einfætta manninum. Hann er svo óhræddur og öruggur með sig að á síðustu stundu guggnar sá einfættir, og sveigir til hliðar.
Hér er enginn sem á erindi í þessa menn.
Brátt gleymir hópurinn í sundinu þessum nýliðum og allt fer í sama horf á ný. Menn sem höfðu verið að rífast áður en þeir komu fór nú að slást og vonlaus andlit misstu áhugann á ný og störðu upp í stjörnulausann himinninn.
Eftir smá stund nær gamla konan að telja í sig nægan kjark og skýst yfir portið á ný til nýliðanna sem sátu í stæðinu hennar. Þar hrifsaði hún til sín plastpoka sem lá við hliðin á þeim. Strákarnir höfðu ekki einu sinni tekið eftir pokanum en í honum var allt sem hún á. Frakkaklæddi stráksi horfir hugsandi á hana á meðan. Hún hvessir augun á móti en hann skilur það ekki. Þessi poki hafði verið þarna eftir að hún fór og það hefði átt að duga til þess að þeir hefðu átt að skilja að þetta stæði var frátekið. En hann skildi það ekki. Hún fer aftur.
Hinir tveir missa loksins takið og sofna. Grúfa ofan í hnéin á sér. Sá frakkaklæddi á eitthvað meira inni hins vegar. Hann hættir að vera þreyttur og horfir athugull á lífið í portinu. Augun hafa vanist myrkrinu og hann sér skrítið samfélag sem ekki margir vita af. Eins og þegar lyft er steini og beint að vasaljósi kemur í ljós iðandi veröld maura út úr myrkrinu.
Eins áberandi og þeir höfðu verið áðan voru þeir orðnir næsta ósýnilegir núna. Engin gefur þeim gaum lengur. Fólk heldur bara áfram sínu næturlífi. Þetta fólk veldur honum ekki ugg heldur í versta falli meðaumkun.
Honum lýst samt ekki á blikuna þegar inn á svæðið ráfa tveir fullvaxnir úlfhundar, augljóslega í einskis eigu. Þeir snuðra í ruslatunnunum og utan í sofandi flækingum en flækingarnir banda þeim frá sér og hundarnir hlýða. Þeir virðast því ekkert sérlega hættulegir en fyrir stráknum í frakkanum voru þeir óútreiknalegir og hann hélt vörðinn. Hann var vanur mönnum og hræddist þá ekki en dýr skyldi hann ekki.
Stúlka strunsar úr einu horninu og ætlar úr portinu. Hún er lagleg, en vel falinn í alltof stóra hettupeysu og pokabuxur. Hún gæti verið 16 ára eða þrítug. Annað hvort. Slánalegur strákkjáni hleypur á eftir henni. Það er eitthvað truflandi við það hvernig hann hreyfir sig. Hann grípur þéttingsfast í höndina á henni og þvingar hana til að horfa á sig. Svo segir hann eitthvað lágt, örugglega og í mútum og ætlar að draga hana í hornið aftur. En hún streyttist við og æpir stundar hátt nei, undarlega dimmum kvenmannsróm.
Hún er ákveðinn en lítur út fyrir að vera pínu vönkuð. Kannski svolítið greind en sinnulaus, eilítið drukkin og svefnþurfi. En að sama skapi lítur það út fyrir að það sé einfaldlega hefðbundið ástand hennar, að vera alltaf pínulítið drukkinn og svefnþurfi, svo annað hefði verið óeðlilegt.Þau rífast í smástund. Hann lágraddaður og hún tönglast sífellt á nei-inu og reynir að losa sig undan. En hann heldur fast.
Skyndilega flöktar athyglin aðeins þá þegar einhver í einu horninu fer að tala í hærri róm en sundið þolir. Þarna var einfætti maðurinn að öskra eitthvað á einhverjar miðaldra hórur og hleypur svo út í mitt portið á einum fæti og notar fótinn til að sparka í magann á einum úlfhundinum. Hundarnir verða meira undrandi en reiðir en þegar þeir gera sig líklega til að hvessa tennur á móti honum þá sparkar sá einfætti í annað sinn og þeir hlaupa ýlfrandi úr augsýn.
Eftir þetta tekur frakkaklæddi strákurinn eftir því að stelpan og strákurinn er horfinn. Kannski slapp hún. Líklegast er hún í fangi hans í skuggunum einhverstaðar.
Allt er hljótt.
Um fjögur leitið kemur flokkur af hermönnum og opnar lestarstöðina aftur. Eitthvað af borgurum eru mættir til að ná fyrstu lestunum og heimilisleysingjarnir blandast í þvöguna. Þegar fólkið þrengir sér inn eru dyraverðirnir fljótir að vingsa út rónana, góðkunningja frá hverri nóttu, og hálfpartinn kýla þeim út aftur. Strákarnir þrír eru einir af fáum sem fá að fara í gegn.
Fyrir þeim vakir þó ekkert skárra en rónunum. Þeir eru ekki á leiðinni í lest heldur vilja bara sofa. Þeir setjast á bekk, þykjast bíða og dotta. Þeir hafa vit á því að láta lítið á sér bera og leggjast alls ekki. Þá kæmi vörður, bæði um lestarmiða og henti mann svo öfugum út.
Inn um þakrúður mátti sjá fyrstu morgunskímuna og svo dagsbirtuna.