Hrólfur sefur óvært þessa nótt á gólfinu fyrir framan eldinn. Óþægilegir draumar ásækja hann, hann kófsvitnar og muldrar í svefni eitthvað sem enginn maður getur skilið.
Og snemma næsta dag er hann farinn líka, nú alveg peningalaus en líka áhyggjulaus því konan á kránni sagði honum að það væri ekki svo langt til næsta bæjar, sem væri mun stærri og vafalaust gæti hann fundið vinnu þar.
„Gangið rösklega, og þér munuð komast þangað nokkuð fyrir sólarlag. Fylgið bara steinunum og allt verður í lagi,“ segir hún og brosir skökkum og skemmdum tönnum.
Það er blíðviðrisdagur, heiðskýrt og logn. Hrólfur gengur rösklega, eins og konan mældi með, og þegar hann er orðinn viss um að hann sé einn tekur hann að syngja. Hann syngur ástarljóð, eftir sig sem aðra, hann syngur um forna stórkonunga og orustur þeirra, hann syngur um Tristan og Ísold.
Svo hættir hann að syngja og nýtur þagnarinnar, marrsins í snjónum, sólargeislunum á andliti sér.
Og allt verður svo þungt, hendurnar sveiflast hægar, og hann getur varla lyft fótunum. Jafnvel þessir örlitlu skýjabólstrar á himninum virðast hreyfast hægar, fuglar nema staðar í lausu lofti. Allt verður óskýrt og þokukennt.
Fyrir framan hann birtist skyndilega skínandi vera. Hún hefur mannsmynd, en af henni stafar svo skærri birtu að Hrólfur getur varla horft á hana.
„Hrólfur,“ segir veran, djúpri og drynjandi röddu, „veistu hver ég er?“
Hrólfur kemur ekki upp orði, en rétt nær að hrista höfuðið.
„Ég er Brendan. Minn dyggi þjónn Jóhannes sagði mér af þér í bænum sínum í morgun, og ég bara gat ekki annað en hreyfst við af sögu þinni. Ég vil gera þér tilboð.“
Hvaða tilboð getur guð gert manni? Guðirnir heimta og mennirnir gera, þannig virkar það.
„Viltu hitta Tinnu aftur?“
Hvaða svindl er þetta? Hvernig getur verndari sæfara og förumanna boðið nokkrum að hitta aftur hina dauðu?
„Ég hef gert samning við Azrael. Þú mátt hitta þessa Tinnu þína aftur eina kvöldstund, en aðeins eina kvöldstund.“
Núna getur Hrólfur þó stunið upp orði.
„Og til hvers er ætlast af mér? Þér guðir eruð nú ekki beint þekktir fyrir góðvild ykkar og hjartagæsku.“
„En sú ósvífni af dauðlegum manni! Ég ætti að ljósta þig þar sem þú stendur, ruddinn þinn! En þú hefur nú svo sem engu að tapa, er það … Þetta er rétt hjá þér, þetta verður ekki ókeypis eða ódýrt. Í skiptum fyrir nótt með hinni dýrmætu Tinnu skaltu eyða ævi þinni á litlu skeri úti á rúmsjó, og aldrei framar hitta aðra manneskju. Þar muntu dveljast í vitanum og viðhalda ljósinu þar svo sjómenn geti ratað sína leið.“
„Ég skal vera þessi vitavörður þinn, ef ég fæ bara að hitta hana aftur!“
Og Brendan brosir bara og veifar hendi.
Hrólfur rankar við sér í litlu og vel lýstu herbergi. Eldur logar í arni, ferskir ávextir eru í skál á fagurlega útskornu borði. Út um gluggan sér hann til sjávar, heyrir sjávarnið og garg máfa.
En það sem er mest um vert er beint fyrir framan hann, hin fagurlimaða Tinna með sítt svart hárið, klædd í dýrindis kjól. Þau faðmast, heitt og innilega. Þau dansa, kyssast, að lokum falla þau í rúmið.
(Nóttin varð löng og góð. Þeim fannst ekkert vera fullkomnara en þetta, þessi stutta stund sem þau áttu saman. Nú var heimurinn loksins fullkomnaður.)
Hrólfur vaknar einn daginn eftir. Hann fálmar allt í kringum sig, en rúmið er autt. Hann stekkur á fætur, og einhver ósýnileg hönd tekur utan um hann (varlega!) og dregur hann út um gluggan, út yfir hafið, uns lítið sker er sjáanlegt. Á skerinu stendur vitinn, hár og sterklegur. Nú er komið að Hrólfi að greiða sína skuld.
Þrjátíu og þrjú ár eru liðin, og ennþá gætir hann vitans. Hann er orðinn nokkuð eldri, boginn og síðskeggjaður öldungur. Guðirnir hafa séð honum fyrir mat og brenni, rekaviður, hvalreki og skjaldbökur. Oft saknar hann Tinnu sinnar, en minningarnar ylja honum svo um munar. Á kvöldin situr hann oft uppi á þakinu, spilar á hörpu sína og syngur um Tinnu. Stundum virðir hann fyrir sér stjörnurnar, og andlit hennar og líkami birtist honum. Þannig fær hann alla sína huggun og gleði.
Og nú er hann dáinn. Einhvers staðar er Brendan að gera Jóhönnu tilboð svipað og hann gerði Hrólfi þrjátíu og þrem árum fyrr. Og einhvers staðar, í óravíðum geim, kviknar ný stjarna. Jafnvel dauður vísar hann sjómönnum og farmönnum til leiðar.
ATHUGASEMDIR:
I.
Nöfn karlpersóna og útlit eru engin tilviljun, né heldur guðanöfn. Nafn kvenpersónunnar er það hinsvegar. Vonandi móðgast engin(n), en ef svo óheppilega skyldi vilja til þá er hægt að heimta afsökunarbeiðni.
II.
Sagan öll, en sérstaklega niðurlagið, er undir gífurlegum áhrifum eins lags, ‘The Light at the end of the World’ af samnefndri plötu My Dying Bride. Textahöfundur er Aaron (Stainthorpe ?).
All we need is just a little patience.