„Sigur!!!“ öskraði hann á ný og lyfti höndunum í átt til himins og fagnaði eins og boxari sem var að verða heimsmeistari. Fagnaði eins og Tyson þegar hann sigraði Ali í Eyðimerkurbardaganum í Suður-Kamerún 1973.
Þremur sólarhringum áður hafði meistari hans falið honum þetta verkefni, afhent honum fyrirmælin og vonað það besta. Hann fékk þrjá sólarhringa til að ljúka verkefninu. Ef honum mistækist að ljúka því á tilsettum tíma myndi hann lokast inní hellinum til næsta hausts.
Hann settist strax yfir fyrirmælin: „Skepnurnar sem hindra leið þína að frelsinu eru þrjár. En örvæntu ekki, þú þarft ekki að bana nema tveimur af þremur. Hvaða tveimur er þér í sjálfsvald sett. Allar skepnurnar hafa mismunandi eiginlega en ef þú nýtir þér allt sem ég hef kennt þér í vetur er ég sannfærður um að þú veljir réttar skepnur og farir auðveldlega með sigur af hólmi. Gangi þér sem best, og mundu, aðeins þrír sólarhringar til stefnu!“
„Þrír sólarhringar“ hugsaði hann, „eins gott að maður komi sér að verki.“
Í raun var áætlunin afar einföld. Legðu skepnurnar og frelsið er í höfn. Hann vissi mæta vel að hann hefði getað búið sig betur undir þessa þraut. Hann hafði með naumindum lokið undirbúningnum en þó með ágætum árangri í flestum þrautunum. Hann renndi því nokkurn veginn blint í sjóinn og ákvað því að ganga hreint til verks og kanna skepnurnar. Kanna veikleika þeirra og styrkleika og vega og meta hvar hann ætti mestan möguleika að komast sem best frá einvígunum. Hann sá strax að hann gæti auðveldlega lagt skepnu númer tvö. Svo væri það bara spurning hvort hann myndi betur ráða við skrímsli eitt eða þrjú. Eftir langa íhugun ákvað hann að leggja í fyrsta skrímslið ásamt því númer tvö. Hann íhugaði aðeins bardagaskipulagið en lagðist svo til hvílu. Hann þurfti að safna orku því næstu tveir dagar myndu taka á, þeir myndu skera úr um frelsi hans.
Dagur tvö rann upp. Skepnurnar voru báðar í seilingar fjarlægð en samt var hann ekki viss hvort að hann ætti að leggja strax til atlögu, var hann tilbúinn? Meistarinn hafði sagt honum að á hvora skepnu þyrfti um 1000-1200 högg. Það virtist á stundum vera ókleift fjall. Hann íhugaði því áætlunina aðeins lengur, hvar væri best að reiða til höggs, hvað myndi knésetja skepnuna? Dagur tvö var að renna frá honum, hann yrði að byrja á þessu áður en þetta yrði of seint. Það var að duga eða drepast svo hann lagði til atlögu. Hann lagði í báðar skepnurnar til skiptist. Sýndi þeim enga miskun og greiddi báðum þung högg. En það sá vart högg á vatni þó svo að hann hefði látið höggin dynja, rúm 200 á hvorri skepnu.
Hann var örmagna. Hann yrði að úthugsa þetta betur. Leggjast undir feld og velta þessu betur fyrir sér. Hann hafði ekki komist langt í átt að markinu, en hálfnað verk þá hafið er.
Lokadagurinn rann upp. Hann hafði sofið vel á þessu um nóttina, hann vissi uppá hár hvernig hann ætlaði að fella skepurnar. Hann fór snemma á fætur og lagði strax í fyrstu skepnuna. Höggin streymdu hratt og örugglega og lentu bilmingsfast á skepnunni. Sum hittu þó ekki beint í mark og þurfti að endurtaka en eftir um 2 tíma baráttu var björninn unninn. Fyrsta skepnan lá steindauð fyrir fótum hans og myndi ekki leggja frekari stein í götu hans.
Hann var þreyttur eftir þennan bardaga. En hann mátti ekki stoppa núna, tíminn var of naumur. Hann hugaði að sárum sínum, þau voru aðeins skeinur, hann gat vel haldið áfram og af hverju að hætta núna þegar hann var kominn í ham?
Hann hélt því förinni áfram. Skepna númer 2 varð fljótt á vegi hans. Hún var enn sár síðan þau áttust síðast við, og nú var hann líka miklu betur undirbúinn. En það var eitthvað sem hélt aftur að honum. Skyndilega fann hann fyrir mikilli lýju. Hann hafði ekki sofið mikið um nóttina og þreytan sótti að honum. Honum féll hreinlega allur ketill í eld. Staðan virtist allt í einu vonlaus. „Nei! Þetta er ekki að gerast! Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum þá neita ég að lúta í gras núna! Ég verð að ákalla stríðsguðinn Pantera, hann mun vísa mér veginn eins og svo oft áður á erfiðum tímum.“ Eftir smá hik lét hann til skarar skríða. Honum óx ásmegin er hann vissi að stríðsguðinn var við hlið hans. Hann gekk rösklega til verks og hafði hröð og örugg vinnubrögð. Skepnan kom engum vörnum við og lá fljótt í valnum.
Hann var frjáls! Öll þessi þjálfun hafði loks skilað sér. Skepnurnar lágu í blóði sínu að baki hans. Hann horfði stoltur yfir vel unnið verk og sendi það svo inn. Loksins var þetta heimapróf að baki.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _