Fyrst var ég hræddur.
Vissi ekki hvaða tilfinningar þetta voru sem bærðust innra með mér, virtust fylgja þessum undarlegu en undursamlegu hljóðum sem á einhvern undarlegan hátt bárust mér til eyrna. Á einhvern undarlegan hátt kveiktu þau tilfinningar, tilfinningar sem, eftir mikla íhugun, ég tel mig hafa fundið síðast þegar ég var barn, síðast þegar ég upplifði jólin sem barn, síðast þegar ég átti afmæli sem barn. Síðast þegar ég var barn og upplifði heiminn sem barn, á þenna yndislega, ævintýralega og undarlega hátt. Alls ekki svo ólíkt undarlegu tónlistinni, þó að hún væri fullorðins-tónlist og skapaði fullorðins-afbrigði af þessum tilfinningum.
Þessi undarlegu hljóð voru svo falleg, svo róandi. Svo yndislega skilningsrík. Þau skildu hvernig mér leið, hvað ég meinti og hvað ég var að hugsa, jafnvel betur en ég sjálfur.
En ég var hræddur. Þorði eiginlega ekki að láta undan. Þorði ekki að leggjast aftur og leyfa mér að fljóta með tónlistinni líkt og brimbrettakappi flýtur á öldunum sem brotna á ströndinni. Líkt og turn ofan í vatninu reyndi ég að sporna við, ég reyndi að halda mér í jörðina og gefa ekki eftir.
En ég gat það ekki. Ég gat ekki haldið mér, ég missti takið.
Áður en ég vissi af var ég fljótandi á yndislegum, undursamlegum bylgjum þessarar undarlegu tónlistar sem fyllti eyrun mín, hjartað mitt af gleði og tilfinningum sem ég hélt að væru ekki til nema í þykkum bókum eftir löngudauða rithöfunda.
Ekki það að ég hafi ekki hlustað á tónlist áður, ég hafði bara ekki HLUSTAÐ á TÓNLIST áður. Hvað er svosem tónlist? Hvað er svosem tónlist annað en hentugar samsetningar af hinum og þessum hljómum, og rödd einhverrar fallegrar stúlku eða ungs drengs, klædd í nýjustu tísku og auglýst á popptívi? Aldrei hefði mig grunað að til væri eitthvað annað, að tónlist gæti verið eitthvað annað en umbúðirnar sem hún er seld í, að tónlist gæti verið eitthvað sem snerti mann, eitthvað sem hreyfði við manni og sýndi manni hvernig heimurinn gæti verið. Hvernig lífið gæti verið allt, allt öðruvísi. Yndislegra.
Af hverju sagði mér enginn frá því? Var þetta eitthvað leyndarmál? Eitthvað sem enginn hafði mátt vita nema einhverjir útvaldir, einhver elíta tilfinningasérfræðinga? Er TÓNLISTIN kannski hættuleg?

Tíminn leið. Tíminn leið hratt. Tónlistin var orðin óaðskiljanlegur hluti af mér. Tónlistin var ég.
Heilu dagarnir liðu þar sem ég lá uppí rúminu mínu eða á gólfinu við hliðina á því, ýmist þver eða öfugur, og hlustaði bara á tónlistina. Tónlistina sem átti mig allan, tónlistina sem ég átti alla. Tónlistin hafði fyllt mig þessari gleði, þessum tilfinningum sem ég hélt að væru ekki til. Eins og að sjá allt í einu nýjan lit, heyra einhvern nýjan tón eða læra að fljúga! Tónlistin virtist vera óendanleg uppspretta þessara tilfinninga, þessarar gleði og hömlulausra ásta. Fljótlega gerði ég ekki annað en að drekka í mig þessa tilfinningu, þessa gleði, þessa ást.

Stundum átti einhver leið hjá. Bankaði uppá eða hringdi. Fólkið með Kröfurnar, Fólkið með Væntingarnar til manns og Áhyggjurnar af manni.
Væntingarnar, Kröfurnar … þetta þurfti allt að bíða! Tónlistin! Tilfinningarnar! Þetta þurfti ég að fá!
Veruleikinn stóð kaldur fyrir framan mig. Ég var orðinn háður tónlistinni. Tónlistin sem byrjaði sem taumlaus gleðigjafi hafði orðið að lífinu mínu. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir á hvernig tónlistin hafði heltekið allt líf mitt. Tilfinningarnar, gleðin … þetta varð að lifanda helvíti, helvíti þar sem ég fékk að þjást í sæluvímu og gleðinni sem einkenni þessa djúpstæðu og einlægu, nýju tilfinningu. Þessa SÖNNU tilfinningu.
Tónlistin hafði fullnægt einhverri gerviþörf hjá mér. Einhverri þörf fyrir tilfinningar, sjálfskoðun og afslöppun.
Gerviþörfinni.
Eða hvað?