Klukkan tvö eftir miðnætti hófst skothríð. Hún stóð oftast yfir í um tíu mínútur á þessum tíma, svo kom pása. þá önnur stutt á milli klukkan fimm og sex. þetta var rútínan, til öryggis ef óvinurinn væri á ferli.

Fyrir þessa nótt hafði heyrst af skæruliðum í um tuttugu kílómetra fjarlægð. En um klukkan tvö heyrðist ekki múkk. Ég lá á trépallinum og fylgdist með mús í gegnum flugnanetið, trítla undir þakskegginu eftir múrveggnum, og hlustaði á froskana kvaka. Annars hljótt í klukkutíma. þá kom örstutt skothríð. Ég heyrði að það voru þessir venjulegu AK 47 rifflar og að þeir voru upp á hæðinni fyrir ofan sítónutréð. Líklega báðir Carlosarnir, Alfredo og fleiri. Ekkert óvenjulegt, nema hvað skothríðin var stutt. þá kom þögn, öðruvísi þögn með þruski inn á milli. Ég heyrði umgang ekki langt frá kofanum okkar, svo þunga skothríð skotin af þyngri byssu en AK 47 eitthvert inn í skóginn. Skotmaðurinn stóð rétt hinum megin við þilið. Eftir rúmlega mánaðar dvöl varð ég þá fyrst hræddur. Ég heyrði trukkalest koma upp á hæðina og renna svo inn í þorpið að ofanverðu, kannski fimm bílar. þeir létu vélarnar ganga, hurðaskell, mannamál, svo héldu þeir áfram og keyrðu úr þorpinu að neðanverðu.

Einhverntíman seinna sofnaði ég og vaknaði klukkan sjö við bjölluna. Ég var löngu hættur að hugsa til kornfleksins, ostins, mjólkurinnar, marmelaðsins eða ristaða brauðsins. Búinn að gleyma því. Og venjulega hefði ég borðað baunirnar og þurrar maískökurnar af áferkju, en verkirnir höfðu ekki farið. Nú var einsog gaddavírsflækja væri í maganum á mér. Við hverja hreyfingu kom stingur sem hríslaðist upp og niður eftir líkamanum. Dengish eða ein tegund malaríu hafði læknirinn sagt með blóðið undir nöglunum. það var hann sem hafði tjaslað Francisco saman ofan í kistuna.

Ég hlustaði á hin taka til matar síns, málmkennt diskaglamur og baunirnar skóflaðar upp úr fötunni. Ískrið í útihurðinni og léttur trékenndur smellurinn þegar þær lukust aftur. Ég heyrði að talað var um fyrirsát og átök einhverstaðar á veginum austan við okkur, en lítið mannfall. Ég staulaðist fram úr, fæturnir voru þungir, vírinn í maganum stakk. Ég gat ekki hugsað mér að drekka svo mikið sem vatn. Ráðskonan fór þá og skiptist á tónlitlum orðum við lækninn. Og ég var sóttur, staulaðist út í pikköp bílinn og keyrt í burt. Hún brosti um leið og hún veifaði.

það var ekki vitað hvort einhverjir væru á ferli í skóginum. Ef fyrirsát, þá það. Bíllinn malaði áfram á sama hraða. Ég sá í baksýnisspeglinum grænklæddar lappir, tvær handsprengjur í krók, byssubelti og rifflaskaft. Góð öryggistilfinning. Moldarvegurinn lá yfir hæðina, í gegnum skóginn, niður, upp, blindbeygjur og krókar. Við þögðum.

það létti yfir okkur þegar skóginn létti, vegurinn lá beinn niður eftir að húsaþyrpingunni og loks heyrði ég umferð, flaut, mannamál og ískur í bremsum. Ég var leiddur í gegnum biðsalinn framhjá hinum. Ég studdi mig við granna súlu í móttökunni og hjúkrunarkona útskýrði eitthvað fyrir lækni. Hann kinkaði kolli og hún vísaði mér inn á klósett með litla plastdós. Ég lokaði á eftir mér, settist niður og við mér blasti stór spegill. Öllu meiri og stærri en litli vasaspegilinn sem ég hafði geymt með rakdótinu. Ég stóð upp, tók upp hvítan bolinn og sá grannan líkama blasa við, eitthvað sem ég varla þekkti. Svo hafði ég sest niður og setið, einhvern tíma. Hjúkrunarkonan bankaði, og ég opnaði með tóma plastdósina í hendinni. Ef það kemur ekkert vatn er ekkert vatn eftir í líkamanum. Hún andvarpaði um leið og hún benti mér þá að setjast.

Setjast hvar? þunn gegnsæ plasttjöld hjengu inn eftir salnum og hjúkrunarfólk hvarf inn fyrir þau og snéri til baka í tilviljunnarkenndri rútinu. Ég staulaðist eftir salnum, hélt mér eins nálægt veggnum gagnstætt og ég gat og passaði mig á að flækja ekki löppunum um stólana sem þar stóðu. Einn grænklæddur maður sat og studdi sig við riffil sinn, kinkaði kolli með brosi og ég myndi brosa á móti. Ég hélt áfram. þá fann ég afkima, inn að lítillri gluggalausri móttöku og þar við vegginn stóðu tveir háir beddar. Sá sem nær var var auður, á hinum lá lík undir hvítu laki. Ég skreið upp á beddan sem var nær og fann fyrir fótum líksins við höfuðgaflinn minn. þetta var notalegt, ég snéri mér að veggnum, lagði hendur undir kinn og lokaði augunum. þá fór ég. En ég heyrði suð í flugu og opnaði aftur augun. Lítil fluga lenti á beddanum fyrir fram nefið á mér, rétt við storknaða blóðrönd sem hún kroppaði í. Önnur fluga suðaði í fjarska og lenti. En báðar hurfu við hátt högg. það var bankað. Myndi það vera hún Valenca?

En högginn hurðu hærri og fastari þar til einhver opnaði. Díselhljóð sjúkrabíls barst inn og fljótlega heyrði ég í æpandi manni sem var borinn inn. Ópið hætti ekki, aðeins hækkaði og lækkaði, upp og niður á meðan hann var borinn inn í gegnum móttökuna þar til hurð var skellt. Svo kom þögn. Flugurnar komu aftur og nörtuðu í storknað blóðið.

Og þá fór ég kannski.

Gaddavírinn umbreyttist í mjúka hnoðra sem leystust upp í sætum vökva sem streymdi um líkamann. þunginn sökk niður í gegnum beddann. Ég sveif. Og líkið á hinum beddanum velti sér við og hagræddi sér. Ekkert óvenjulagt. Flugurnar nörtuðu. Svo heyrði ég líkið standa upp og ganga út. Nú lokaði ég augunum.

Í bítið morguninn eftir sat ég á bekk við kirkjuna og borðaði kex. Valenca kom. Skugga hennar á jörðinni teiknaði sig að mér og ég þekkti hann strax. Hún settist og lagði vatnskút í kjöltu mína. Lítið indjánaandlit hennar brosti. 'Hvað er ég að gera hér?" myndi ég kannski spyrja. Hún sagði að hann hefði fengið yfirgefið hús á tveim hæðum fyrir lítinn pening. Tólf svefnherbergi, þjónustuhús í garðinum og sundlaug. þar myndu þau sameina félaga, vini og fjölskyldu. Hún bað mig að bíða á meðan hún færi að ganga frá hlutum, svo færu þau, en transport væri erfitt. Hún kyssti mig, brosti og fór. Sameina, sameina týnda, dauða og bæklaða. Ég beið, beið mjög lengi. Enginn getur komið af vígstöðvum útaf magaverk einsog ég hef gert. Myndi ég fara heim í kornfleks og horfa á enska fótboltann? Burt frá þessu. Kornfleks eða dauði.

Ég sá lítið ský við miðja fjallshlíð. Nei, þetta var reykur. þá heyrði ég í díselvél í fjarska, trukkalest og fuglasöng í trénu fyrir aftan mig. Allt myndi breytast. Ég sat þó enn á bekknum við kirkjuna og borðaði kex.