Ég vaknaði við daufan dynk. Við þann þriðja áttaði ég mig á því að einhver var að kasta steinum í gluggann minn. Ég barðist á móti svefndrunganum, nuddaði stírurnar úr augunum, gekk að glugganum og opnaði hann.
Þú heilsaðir mér, gáskafullur, og baðst mig að koma út, þú þyrftir að sýna mér svolítið. Augnaráðið sem ég sendi þér hefur væntanlega lýst vantrú og hneykslun sem jókst einungis þegar þú sagðir að á morgun yrði heimsendir. Þú baðst mig um að treysta þér, þetta væri okkar eina tækifæri. Þá átti ég ekki um neitt að velja. Ég smeygði mér í sandala, fór í peysu yfir náttkjólinn og læddist út í hlýja sumarnóttina.
Þegar ég kom út greipstu í hendina á mér og leiddir mig á stað út úr þorpinu, niður með ánni, inn í skóginn. Í fyrstu vissi ég ekki almennilega hvert þú ætlaðir en þegar ég heyrði niðinn í fossinum áttaði ég mig. Eftir sutta stund stoppuðum við þar sem áin steyptist fram af brúninni og liðaðist svo í gegnum skóginn sem breyddi úr sér neðan við klettabeltið.
Stutta stund stóðum við þögul. Loks spuðirðu hikandi hvort ég þekkti staðinn. Ég þurfti ekki að svara, augu mín geymdu svarið sem þú vonaðist eftir.
Við lögðumst í grasið, sem döggin var rétt byrjuð að myndast á, og horfðum upp í himininn. Ágústnóttin var tiltölulega björt en samt sáum við glitta í stjörnur á milli skýjanna. Þá kom þetta augnablik, við urðum að tala.
Þú sagðir mér frá tilfinningunum sem um þig flæddu þegar pabbi þinn dó og ég sagði þér frá fyrstu ástinni minni og hjartasárinu sem henni fylgdi. Við ræddum um ást og rifumst um stjórnmál, skiptumst á skoðunum um trúarbrögð en vorum sammála um tilfinningar okkar hvors til annars.
Þessa nótt töluðum við um allt sem líf okkar snerti. Pirring, kveðjustundir, ástina, vandamál, gleðistundir, trega, vanlíðan, afbrygðisemi, sorg, ástríðu og leiða. Við töluðum um tónlist, fjölskyldur, skólann, fortíð og framtíð, skemmtanir, erfiðleika, kaffihúsaferðir, fatakaup, dauðann og bókmenntir.
Seint og um síðir hjúfraði ég mig upp að þér en hlýt að hafa dottað því ég vaknaði við að þú varst að strjúka hárið frá andlitinu á mér. Þú togaðir mig á fætur og saman settumst við á klettabrúnina, hjá fossinum. Birtan í austri gaf til kynna að sólarinnar væri von innan skamms.
Ég hafði einu sinni sagt þér að ég hefði aldrei vaknað nógu snemma, eða farið nógu seint að sofa, til þess að sjá sólarupprásina. Þetta hafðirðu munað allan þennan tíma.
Þegar fyrstu geislar Sunnu gægðust yfir fjallstindana leit ég í augu þín, brosti, og varir okkar mættust um leið og það slokkanði á heiminum.