Á þokukenndri hæð í afskekktu landbúnaðarhéraði í Frakklandi stendur stórt steinhús, næstum kastali, frá miðöldum. Það var lengi í eigu lávarðarættarinnar í héraðinu en síðasti lávarðurinn hafði verið hálshöggvinn í byltingunni og fjölskyldan hans skotin í rúmum sínum. Eftir það var húsið selt á uppboði og þannig komst það í eigu ríkrar kaupmannsfjölskyldu, einmitt þeirrar sem aðalsöguhetjan okkar er úr. Húsið þótti mjög fallegt á sínum tíma og seldist á háu verði, þrátt fyrir að sagt sé að bölvun fylgi morðhúsum….


Saga okkar hefst á dimmri og skuggalegri desembernótt undir fullu tungli. Í viðarklæddu herbergi inni í húsinu sitja tveir menn í leðurstólum sinn hvoru megin við skrifborð. Þeir eru báðir svartklæddir, brillíantíngreiddir og kuldalegir í fasi. Sá sem situr bakvið borðið, í húsbóndastólum, setur olnbogana upp á stólbarmana, hallar sér aftur og klappar saman fingurgómunum. Hann er eini lifandi sonur síðasta kaupmannsins sem bjó í húsinu.

,,Svo þú ert handviss um að Delaigue skili af sér?“ Rödd hans er rám og þurr eins og af of mikilli viskídrykkju. Hann lítur hugsi á gest sinn.

,,Handviss, herra. Hann hefur reynst trúr í fortíðinni.“

,,Trúr öðrum en mér.“ Hann hallar sér aftur fram hugsi, svo hringir hann lítilli silfurbjöllu sem stendur á borðinu. ,,Svangur?”

Að vörmu spori birtist ein glæsilegasta kona sem gesturinn hefur augum litið. Hún er í stuttum, svörtum kjól með hvíta svuntu, eins og þjónustustúlkum sæmir að mati gestsins.

,,Komdu með eitthvað að borða handa gestinum okkar,“ segir húsbóndinn við hana. Hún kinkar kolli játandi og gengur öruggum skrefum út. Gesturinn getur ekki að því gert að stara svolítið á stinnan rassinn á henni þar sem hann vaggar út.

,,Hvar fannstu þessa?“ spyr hann húsbóndann glottandi.

,,Það kemur þér andskotans ekkert við,“ segir húsbóndinn kaldur í fasi. Gesturinn áttar sig og hagræðir sér í stólnum.

,,Með Delaigue,“ heldur húsbóndinn áfram, ,,Ef hann klúðrar skal ég sjá til þess persónulega að þú fáir ekki að sjá ömmu þína áður en þú deyrð. Sömu leið og ég sendi þau þarna.“ Hann kinkar kolli í átt að málverki á veggnum. Á því heldur brosandi kaupmaður utan um konu sína og eldri son. ,,Skilurðu það?”

,,Já herra, ég skil. Hann klúðrar ekki.“ Það glampar á svita í brillíantíngreiddum hársverðinum. Í þessu er bankað og þjónustustúlkan gengur inn með silfurbakka. Hún leggur hann fyrir framan gestinn.

,,Ég vona að þetta henti þér, við kaupum ekki svo mikið af mat hérna,“ Húsbóndinn lítur glettinn á þjónustustúlkuna, svo alvarlegur á gestinn.

,,Þetta hentar vel, þakka þér fyrir. Ætlar þú ekki að fá þér neitt?“

,, Ég get ekki borðað svona rusl. Ég fæ mitt fæði beint úr uppsprettunni, eins og litlu börnin.“ Á meðan hann talaði hafði þjónustustúlkan gengið til hans. Hún sest nú klofvega ofan á húsbóndann sem rennir niður rennilás framan á kjólnum, grípur annað brjóstið á henni og fær sér góðan slurk af heitri og súrri brjóstamjólkinni. ,,Svona.“

Neðri kjálkinn á gestinum dettur niður á bringuna á honum. Hann er frosinn þarna í nokkrar sekúndur, getur ekkert gert nema starað á sextugan yfirmann frönsku mafíunnar sjúga brjóstið á flottustu gellu sem hann hefur augum litið. Loks áttar hann sig og snýr sér að súpunni á disknum fyrir framan hann. Hann lítur aftur á þjónustustúlkuna. Svo á diskinn og ýtir honum frá sér.

Húsbóndinn lítur á hann.

,,Hva, ekki svangur?“ spyr hann. Glottið leynir sér ekki.

,,Nei, ég var að muna að konan sagðist ætla að elda. Ég þarf að drífa mig heim ef það er í lagi.“

,,Eldar konan um miðja nótt? Það er nú meira… En jú, ég er búinn með þig. Mundu bara hvað ég sagði um Delaigue!”

,,Já herra.” Gesturinn stendur upp og gengur hröðum skrefum út. Þessu á enginn eftir að trúa. Nei, enginn. Allir munu gera grín að honum fyrir að halda því fram að yfirmaður frönsku mafíunnar sé ennþá á brjósti. Það væri sennilega best að þegja yfir þessu.

Maðurinn hraðar sér út úr húsinu og niður þokukennda hæðina þar sem bíllinn hans bíður á bílastæðinu í afskekktu landbúnaðarhéraði í Frakklandi.