Ég fékk eina ósk. Mátti óska mér hvers sem mér dytti í hug. Ég hugsaði svo ákaft að það fór að braka í heilanum á mér. Hugsaði og hugsaði og hugsaði. Þegar umhugsaunarfresturinn var við það að renna út sagði ég ósjálfrátt: ,,Ég vil vera Guð.“
Skyndilega sá ég allt í öðru ljósi. Myndbrot fólks, í öllum heiminum, leið hjá augum mínum. Hlægjandi, grátandi, brosandi, öskrandi, blaðrandi, ögrandi og hjálparvana andlit gul, svört, hvít og rauð. Falleg, minna falleg og ljót.
En eru andlit nokkurn tímann ljót? Ég hefði haldið að öll mín sköpun ætti að falleg, mikilfengleg. En aftur á mót, hvað finnst mér fallegt? Heimurinn hefur svo brenglaða hugmynd um fegurð.
Á þessum tímapunkti, þar sem ég var orðin Guð, ákvað ég að breyta þessu. Lokaði mig af í herberginu mínu og ákvað hvernig fólk ætti að vera, hvað mér þætti fallegt.
Næsta morgun vöknuðu allir í heiminum á venjulegum tíma en samt voru allir öðruvísi. Allir karlmenn voru annað hvort eins og hærri útgáfur af Johnny Depp eða nákvæmar eftirlíkingar Gerards Butler.
Konurnar voru einnig í líki tveggja fallegra kvenna, Audrey Hepburn og Natalie Portman.
Þá gat ég litið yfir heiminn og séð fjórar ,,tegundir“ af fólki, bara á mismunandi aldri. Persónuleikarnir voru óbreyttir að öllu leyti nema einu. Ég eyddi allri illsku úr fólki svo að sumsstaðar mætti mér einungis tómt augnaráð.
Ég hafði bókstaflega tæmt nokkrar sálir. Reyndar nokkuð margar. Illskan var á ótrúlegustu stöðum. Þá sat ég uppi með heim fullan af fallegu, góðu fólki sem samt hafði fjölbreytilega persónuleika.
Þegar ég gekk eftir götunum horfði fólk skringilega á mig. Ég breytti nefnilega ekki sjálfri mér. Mér fannst ég falleg og allt í lagi að ég, Guð, hefði ákveðna sérstöðu í veröld minni, væri áberandi.
Á næstu dögum breytti ég ýmsu. Til dæmis þurkaði ég veturinn út en lengdi hinar árstíðirnar í staðinn, einfaldlega vegna þess að mér leiddist veturinn. Svo ákvað ég að hitastigið mætti aldrei fara undir 15°c og vindhraði aldrei yfir 5 m/s.
Ég ákvað líka að skólar væru óþarfir. Fólk átti að fæðast með löngun og gáfur til að sinna einhverju tilteknu starfi.
Svo deildi ég öllum peningum heimsins jafnt á milli fólks og sá til þess að allir hefðu nóg af öllu.
Síðan lét ég allan heiminn tala eitt fallegt tungumál, íslensku, og allir töluðu rétt. Ísland varð að miðju alheimsins því þaðan stjórnaði ég.
Þá var eitt eftir. Ég eyddi öllum sjúkdómum úr lífi fólks, líkamlegum og andlegum. Því þyrfti heimurinn svoleiðis rusl?
Á sjöunda degi, þegar ég hafði skapað hinn fullkomna heim, lagðist ég niður og sofnaði. Heimurinn yrði að bjarga sér án mín einn dag í viku