Fyrsta saga sem ég nokkurn tíman, fékk hálfgert kast og skrifaði þetta niður á hálftíma.
Það fossblæddi. Hárauðir droparnir kepptust við að falla á sængina, eins og til að skrifa leynileg skilaboð til fjarlægrar veru. Ég reis upp úr svefnmókinu og synnti í gegnum blóðstrauminn. Andskotans blóðnasir hugsaði ég með mér og hallaði hausnum aftur og greip um nefið til að reyna að koma hömlum á blóðdropanna. Djöfulsins klúður. Ég dreif mig á fætur og skundaði inn á baðherbergi, hélt ef til vill að þar gæti ég fundið skjól frá árasum blóðsveitanna. Ég bograði yfir vaskinum, sem hafði nú breytt um lit, úr hvítum í rauðann, og reyndi að komu upp einhverjum vörnum, styrkti vígi mín með samanrúlluðum klósettpappírssnifsum og boraði þeim á bólakaf í nefið. Það virtist gefa mér tíma, umhugsunarfrest svo ég gæti farið vandlega yfir næstu aðgerðir, hvernig ég ætti að haga gagnáras minni. Þegar ég hafði ákveðið næsta skref tók handklæði og fór að þurrka blóðroðan úr andlitinu og af höndum, því næst rak ég skref mín aftur inn í herbergi og þurrkaði upp alla bletti sem á vegi mínum varð og reyndi síðan að komast aftur upp í rúmið, reyna að þvinga út einn klukkutíma af svefn í viðbót.
Innan við mínúta var liðin frá því ég lagðist í rúmið og þangað til varnir mínar brustu á nýjan leik, blóðrauðu hermennirnir hófu nú loka áras, nú skyldi mér drekkt í eigin blóði. Ég gat ómögulega hugsað nógu skýrt, óútskýranleg hræðsla hafði heltekið líkama og huga, ég lá fastur, sem ég væri lamaður. Vissi ekki hvað átti til bragðs að taka. Brátt var ég farinn að finna fyrir vætu við hnakkann og hafði á tilfinningunni að áður ljóst hárið hefði nú verið litað rautt. Og enn lá ég grafkyrr. Litlir rauðir hermenn æddu fram og til baka með skipanir frá æðstu herforingjunum, næst skyldi farinn skyndiáras niður hálsinn og koma sér fyrir í hvítum bolnum. Og þar sem ég lá lamaður, og gat aðeins leitt hugan að mínum verstu martröðum, voru liðsveitirnar fljótar að hertaka bolinn, þær voru misskunarlausar, hvergi fékk neinn einasti hvíti bómullarþráður skjól. Ég fann blóðið streyma ofan í kok mitt, ég hafði opnað munninn í hræðslu minni en gat nú ómögulega lokað honum aftur. Ég kúgaðist í sífellu af málmbragðinu sem fylgdi. Ég gat hvorki skyrpt blóðinu út né kyngt því. Munnur minn byrjaði að fyllast, hægt og rólega féllu droparnir á góma mína, hægt en reglubundið, taktfast, eins og hersöngvar, eins og sneriltrommur sem aldrei datt úr takt.
Ég reif huga minn upp úr hugsunarleysinu og tók við að hugsa rökrétt. Hugsanir æddu á milli heilahvela og málin brotin niður til hins smæsta smáatriðis og vandlegar áætlanir gerðar. En ennþá var ekkert lífsmark að sjá á líkamanum. Blóðið hafði fjötrað hendurnar niður, líkt og putarnir höfðu gert við Gúlliver. Jafnvel þótt hugurinn hefði sjaldan hugsað jafn rösklega en nú, þá lá ég enn varnarlaus gegn ógnum blóðsins. Ég fann hvernig fætur mínir kólnuðu skyndilega, eins og allt blóð væri nú á harðaspretti upp læri mín og alla leið að nefinu, sem var ekki ólíklegt. Blóðið leitaði jafnvel að öðrum útgönguleiðum úr líkama mínum. Ég furðaði mig á því hve mikið blóð ég hafði geymt allan þennan tíma í hinum ýmsum krókum og kimum líkamans, fjórir lítrar blóðs hafði mér verið sagt í grunnskóla, „manslíkaminn getur geymt fjóra lítra blóðs“, þetta var mun meira en fjórir lítar, sem nú streymdi út um allt rúmið, þetta voru að minnsta kosti sjö lítrar og fór hækkandi. Ég fann hvernig puttarnir urðu blóðlausir, því næst brjóskassinn. Hjartað pumpaði reglulega út blóði í stórum skömmtum beint út um nefið. Þetta er greinilega þaulæft. Brátt fór ég að finna fyrir sljóleika, hugsanir mínar höfðu aftur horfið, og fyrir augum mínum sortnaði. Hægt og rólega hægði á líkamsstarfseminni. Hægt og rólega fann ég blóðið renna úr heilanum. Hægt og rólega fann ég hvernig blóðið hafði fyllt kok mitt og þó ég hefði viljað anda gæti ég það ekki. Hægt og rólega fann ég lífið leka út um nasirnar.