Ég stend í myrkum skógi, ein, og hlusta. Hlusta á þögina sem hljómar ógnandi. Myrkrið í skóginum þrengir að mér þegar ég held ferðinni áfram, ferðinni sem í upphafi átti að vera leitin að sannleika en hefur nú snúist upp í leit að útkomuleið.
Í iðrum þessa myrka skógar týndi ég sjálfir mér ásamt öllum mínum löngunum, markmiðum og vonum. Nú hhef ég aðiens eitt að leiðarljósi en það er að komast burt.
Nokkru seinna (veit ekki hversu lengi því ég hef tapað öllu tímaskyni) kem ég á krossgötur. Þar eru fjögur skilti sem benda í sína áttina hvert. Ég geng að hverju fyrir sig og les það sem á þeim stendur. Trú. Sanngirni. Ást. Vellíðan.
Ég geng af stað eftir sanngjörnu leiðinni og velti hugtakinu fyrir mér. Er ég sanngjörn manneskja? Skyndilega greinist gatan í tvennt og skilti á milli leiðanna tveggja greinir frá því að nú sé mikilvægt að velja rétt. Ég loka augunum og kanna hugann, hlusta á hjartað. Innsæið segir mér að fara til hægri.
Ég held treg áfram. Þessi ferð er farin að skelfa mig og enn skilst leiðin í tvennt. Á skiltinu hér er spurt á hvað ég trúi.
Eftir þó nokkurt hik kemst ég að niðurstöðu og held enn til hægri.
Þegar farið er að kólna í veðri fæ ég ónotahroll niður bakið, skelf og sé rúmið mitt í hyllingum ásamt baðkari fullu af heitu vatni. Um leið birtist nýtt skilti (Láttu þér líða vel!) og nýjar leiðir. Hægri verður enn einu sinni fyrir valinu.
Skyndilega herjar þreytan þyngra á mig, fæturnir þvælast hvor fyrir öðrum og ég fell næstum til jarðar. Mig vantar einhvern til þess að styðjast við. Nú bregður mér ekki þegar ég sé enn eitt skiltið sem á stendur: ,,Elskarðu?''
Ég vel það sama og áður en allt í einu er ég komin á kunngulegan stað. Sömu krossgöturnar og í byrjun. Örvæntingin grípur mig heljartaki og ég hleyp aftur af stað, prófa að beygja til vinstri í staðni fyrir hægri, reyni að byrja á annarri átt en ekkert virkar. Á endanum fell ég á hnén og biðst fyrigefningar, öskra á fyrigefningu. Leggst loks á jörðina, uppgefin og sofna.
Vakna við létta snertingu. Einhver strýkur yfir hárið og talar blíðlega til mín: ,,Dreymdi þig illa?" Þá átta ég mig á því hver þetta er. Þetta ert þú.