Hún hrökk upp úr hugsunum sínum þegar hesturinn hnaut um grein, það var ekki gáfulegt að gleyma sér á verðinum. Það var líka farið að rökkva, enn meiri ástæða til að passa sig.
Brotna spjótið var það fyrsta sem hún tók eftir. Eiginlega bara tilviljun. Það lá utan við stíginn, og hún hefði ekki séð það, ef ekki hefði glampað á oddinn. Hún renndi sér af hestinum og batt hann fastan áður en hún losaði spjótið sitt. Síðan losaði hún ólina sem hélt hnífnum föstun í slíðrinu. Það var eitthvað sem var ekki að passa.
Hún færði sig hægt í átt að brotna spjótinu. Hver einstaklingur í ættbálknum skreytti spjótið sitt á mismunandi hátt og þess vegna tók það ekki langan tíma fyrir hana að sjá að bróðir hennar átti þetta spjót. Kökkurinn sem myndaðist í hálsinum vildi ekki fara, sama hvað hún reyndi.
Þegar hún sá allt raskið rétt hjá spjótinu þurfti hún að taka á öllum sínum viljastyrk til að halda aftur af skjálftanum. Eitthvað mikið hafði gengið hér á og blóðið á jörðinni sagði henni að það hefði að öllum líkindum endað með dauða.
Hann lá hálfur undir runna, ekki langt frá. Stellingin gaf til kynna að ekki væri allt með feldu en hún varð samt að vera viss. Hún lagði spjótið frá sér og kraup niður, rétti út hendina og hikaði örstutt áður en hún velti honum á bakið. Þetta var bróðir hennar og kuldi húðarinnar staðfesti versta ótta hennar. Hún gat ekki lengur haldið aftur af tárunum.
Hún heyrði þruskið aftan við sig of seint. Hún greip um hnífinn um leið og hún snéri sér við. Bardaginn var búinn áður en hann byrjaði. Skelfilegur sársauki í brjóstkassanum, og máttleysi fékk hana til að hníga niður aftur. Hún heyrði Raeg manninn brjóta spjótið hennar og kasta því til hliðar. Það var erfitt að halda augunum opnum og höfðinu stöðugu. Það síðasta sem hún sá var flokkur Raeg stríðsmanna halda í átt að þorpinu hennar í skjóli næturs.
Stupid men are often capable of things the clever would not dare to contemplate…