Ég var eitthvað að semja fyrir löngu síðan, gaman að því! Var að finna þetta aftur.
Þætti vænt um að fá álit! ;)
Hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis?
Ég mundi eftir að hafa spurt mig þessarar spurningar tveimur vikum áður. Þegar Pétur hafði komið heim til mín og grátbeðið mig og Lovísu um að hjálpa sér.
Og nú sat ég upp við kaldan steinvegginn og fór aftur og aftur yfir atburðarásina án þess að skilja hvernig nokkuð hefði getað farið úrskeiðis. Þetta var fullkomin áætlun.
Að minnsta kosti á blaði. Ég hafði víst gleymt að taka mannlegt eðli með í reikninginn.
Við höfðu staðið þarna bæði tvö með byssurnar í höndunum, öskrandi á fólk að leggjast niður og halda kjafti. Síðan hafði ég beint byssunni að gjaldkeranum og sagt honum að drulla sér til að setja 1 milljón í ómerktum seðlum í poka.
Mér hafði tekist að halda sér pollrólegri en fann að fyrir aftan mig var Pétur farinn að ókyrrast. Fólkið var farið að hreyfa sig og nokkrir töluðu saman í lágum hljóðum á meðan eitt barnið byrjaði að gráta úr hræðslu.
„Ussss!“ hafði Pétur æpt og beint byssunni að barninu. „Ekki, “ hafði ég hvæst á hann án þess að taka augun af gjaldkeranum sem var í óðaönn að raða seðlunum í poka. Hann skalf og svitataumar runnu niður andlit hans.
„Þetta hefur enginn áhrif, þau hlusta ekki!“ sagði Pétur hálfhátt og snéri sér óstyrkur í hring. „Okkur er alvara,“ öskraði hann, „Svo haldiði kjafti, geriði eins og við segjum og veriði kjurr ef þið viljið komast ómeidd í gegnum þetta.“ Fólkið snarþagnaði fyrir utan barnið sem grét bara enn hærra.
Ég var í vanda. Ég vildi ekki taka augun af gjaldkeranum en ég þurfti með einhverjum ráðum að róa Pétur niður svo að enginn myndi meiðast. Og ég gat heldur ekki skammað hann því þá myndi fólkið hætta að taka mark á okkur. Ég stóð því bara kyrr og fylgdist grant með gjaldkeranum.
Pétur var að fara yfir um. Hann gekk hratt að konunni með litla barnið og öskraði á hana. „Láttu helvítis krakkann halda kjafti!“ Hann beindi byssunni að henni. „Já…já,“ stundi konan og þrýsti barninu þéttar að sér og reyndi að sefa það. En ekkert gekk.
„Ég sagði þér að láta það hætta!“ öskraði hann og sveiflaði byssunni fyrir framan andlitið á henni. Konan skalf af hræðslu en reyndi hvað hún gat að þagga niður í barninu. Ekkert gekk. Ég varð að gera eitthvað. Varð að vera fljót að hugsa.
Pétur var að brjálast. Hann öskraði á barnið, tók byssuna og skaut skoti upp í loftið. „ÞEGIÐI!“ öskraði hann. Ég snéri mér snöggt við og ætlaði að stökkva að honum og segja honum að hætta en var of sein. Maður hafði staðið upp og ætlaði að fara til konunar og barnsins, augljóslega til að vernda þau. Pétur hélt að hann væri að koma í áttina að sér. Hjartað í mér missti úr slag. Hann tók í gikkinn. Sekúnturnar á milli þess að kúlan fór frá byssunni, hitti manninn og maðurinn kastaðist aftur voru þær hræðilegustu sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Ég fraus.
Kona rak upp öskur. Pétur snéri sér að henni titrandi af reiði og hræðslu. „NEI!“ öskraði ég en það hafði engin áhrif. Hann skaut konuna beint í höfuðið og hún féll niður á gólfið. Blóð streymdi frá höfði hennar.
Skelfingu lostið fólkið var byrjað að öskra og gráta. Hávaðinn var óbærilegur. Pétur snérist í hringi og öskraði. Hann sveiflaði byssunni út um allt. Ég varð að gera eitthvað! Núna!
En áður en ég gat aðhafst nokkuð hleypti hann aftur af. Og nú var það eldri maður með gult bindi. Og strax þar á eftir konan með barnið.
„Nei!“ öskraði ég aftur. Það virtist vera það eina sem mér datt í hug. Ég varð að stoppa hann. Ég fleygði byssunni minni í gólfið og stökk að Pétri, greip hann og fleygði honum í gólfið. Fólkið hentist frá og öskraði. Pétur barðist um og veifaði byssunni. Hann beindi henni að mér. Ég reyndi að sefa hann en ekkert gekk. Hann horfði á mig tárvotum augum og beindi svo byssunni að höfði sínu. Ég starði á hann og áður en ég gat nokkuð aðhafst tók hann í gikkinn.
Blóðið spíttist framan á mig. Ég öskraði! Fólkið öskraði. Sírenuhljóð heyrðust í fjarska. Ég sat með hann í fanginu, útötuð í blóði og heyrði ekkert nema minn eigin grátur….
Næsta sem ég man eftir var þegar ég var gripin sterkum örmum og ég dregin út að lögreglubíl. Ég veitti enga mótspyrnu. Ég var enn stjörf og skalf og titraði. Maðurinn sem hélt mér þuldi eitthvað upp fyrir mig um rétt minn en það fór allt fram hjá mér. Það er kannski þess vegna sem ég sit hérna án nokkurar vonar um lausn.
Blóðugar myndir birtust í huga mínum. Af mönnunum tveimur og konunum og síðast af Pétri. Ég kúgaðist og ældi á gólfið í bílnum. Vopnaður lögreglumaðurinn færði sig fjær.
Við keyrðum fram hjá miklum mannfjölda sem hafði safnast saman fyrir framan bankann. Ég sá glytta í andlit bestu vinkonu minnar þar sem hún stóð mitt á milli fólksins. Hún grét. Hvernig hafði allt farið úrskeiðis?
Við ætluðum að ná peningunum, keyra í burtu, borga manninum sem var á eftir Pétri og senda hann í meðferð. Og að henni lokinni ætluðum við öll að fara saman og ferðast um heiminn fyrir peninginn sem yrði eftir. Hin fullkomna áætlun hafði verið gerð. Og samkvæmt mínum reikningum hefði ekkert geta farið úrskeiðis. En samt.
Ég lokaði augunum og neitaði að hugsa meira um þetta. En hugsanirnar ásóttu mig. Þær ásóttu mig öll réttarhöldin þar sem ég þurfti að hlusta á vitnisburð fólksins í bankanum. Ég horfði á lítinn strák benda á mig og grúfa sig svo grátandi í faðm mömmu sinnar. Ungur maður sat alltaf í salnum og horfði á mig tómum augum. Annar maður, ögn eldri var þar líka en með litla stelpu sér við hlið. Þau horfði líka á mig. Ásakandi.
En það versta var gamla, vingjarnlega konan sem var alltaf þarna en leit þó aðeins einu sinni á mig eftir að ég hafði sagt frá minni hlið. Augnaráð var svo fullt af skilningi og hlýju og fyrirgefningu að ég brotnaði niður.
Mér var ekki sýnd nein miskunn. 50 ára fangelsi án tækifæris til reynslulausnar. Ég skil það svosum. Ég hefði gert það sama.
Og nú sit ég hér upp við kaldann steinvegginn í litlu herbergi einhversstaðar útí rassgati og geri ekkert allan daginn nema að hugsa um atburðinn. Blóðugu hugsanirnar ásækja mig enn. Andlit fólksins sem við höfðum sært gera það líka. Og hugsunin um að nokkur manneskja hafi getað fyrirgefið mér. Hún er sú versta af öllum. Því að ég get ekki skilið afhverju.
Ég vona að ég komist einhverntímann yfir þessar hugsanir og geti sæst við sjálfa mig. En þangað til að það gerist mun ég sitja hér í þessu herbergi án þess að hafa nokkuð annað til að leiða hugann að og velta mér upp úr þessu. Það eru góð ár framundan, ekki satt.
Hvað ætli hafi valdið þessu? Ég las einhversstaðar – Blak fiðrildisvængs getur valdið hvirfilvindi hinumeginn á hnettinum.
Kannski var það eins í okkar tilviki.