En þar sem ég sat þarna með tómt Word skjal fyrir framan mig, sá ég að það myndi ekkert merkilegt gerast í þessum skrifum nema að ég byrjaði. Svo að ég lagði hendurnar á lyklaborðið og fór að hugsa um hvað gæti verið heppileg byrjun á góðri smásögu.
Eftir fimm mínútur, sitjandi við lyklaborðið hreyfingarlaus, ákvað ég að fá mér eitthvað að borða. Svo að ég rölti fram í eldhús, smurði mér eina svera samloku og skolaði henni niður með glasi af köldum appelsínusafa. Því næst rótaði ég í öllum kompum og kytrum og fann loksins það sem ég var að leita að: Súkkulaðiköku.
Hana át ég samstundis með bestu lyst.
Þegar þessu áti var lokið lullaði ég aftur inn í stofu og hlammaði mér í sófan fyrir framan tölvuna þar sem Word skjalið beið eftir mér, jafn tómt sem fyrr. Ég ákvað að leggja mig allan fram og fór í svakalegt hugsanaflug, stökk úr einu í annað og tengdi saman alla mögulega hluti, en allt kom fyrir ekki, ekki kom hugmyndin.
Þá varð ég pirraður. Stökk upp úrt sófanum, fór í úlpu og skó og rauk út um dyrnar. Kom svo inn aftur þegar aðeins var farið að sljákka í mér og náði mér í stílabók og penna, því ekki vildi ég missa hugmyndirnar sem ég gæti hugsanlega fengið í göngutúrnum sem ég var búinn að álveða að fara í.
Ég var ekki búinn að ganga lengi þegar ég áttaði mig á því að ég var kominn hálfa leið heim til ömmu. Svo að ég ákvað að skella mér til hennar í kaffi, og sjá hvort að hún hafi ekki eitthvað að segja sem ég gæti skrifað um. Og hún brást mér ekki hún amma mín. Ég held ég ég hafi sjaldan, ef ekki aldrei, fengið jafn miklar upplýsingar á einu bretti. Verst bara að ég gleymdi algjörlega að taka punkta, svo að ég græddi lítið sem ekkert á þessum upplýsingum upp á skrifin að gera.
En eftir það gekk ég heim á leið, en kom við á tveimur stöðum í leiðinni. Fyrst stoppaði ég hjá félaga mínum og sótti til hans myndavél sem að hann fékk lánaða fyrr í mánuðinum. Því næst skrapp ég út í búð og keypti tvo lítra mjólkur, eitt stykki heimilisbrauð og þrjá poka af brjóstsykri. Svo dröslaði ég þessu öllu saman heim, skellti því inn í ísskáp og settist enn einu sinni fyrir framan tölvuna og tóma Word skjalið.
Ég sat í hálftíma í algjörri þögn og án alls áreitis í þrjátíu mínútur, en allt kom fyrir ekki. Ekki ein einasta hugmynd skaut upp kollinum, ekki einu sinni léleg hugmynd sem gæti fullnægt þeirri þörf að þurfa að skrifa eitthvað.
Svo hringdi síminn. Í honum var kona frá Gallup að krefjast þess að ég tæki þátt í skoðanakönnun á allra málalenginga. Ég afþakkaði kurteislega og lagði á. Og um leið og ég lagði á laust fáránlegri hugmynd í kollinn á mér. Af hverju skrifaði ég ekki bara um þessar raunir mínar og ýkti þær aðeins og bætti, til þess að gera þær áhugaverðari.
Svo að ég gerði það.
Það sem ég segi er mín skoðun. Þó skaltu ekki dæma mig of hart, og alls ekki bögga mig, ég nenni ekki svoleiðis. Fyrirfram þakkir.