Hvað er í gangi? Hvar er ég? – Ég finn ekkert, ég veit ekkert. Það er eins og ég sé ekki til. Það eina sem ég sé, eða ég held að ég sjái, er myrkur.
Ég öskra, “Drullist til að kveikja ljósin!” en enginn svarar. Í örvæntingu minni reyni ég að hreyfa mig en ég get það ekki! Ég er læstur í litlu hólfi sem svífur um í tómarúminu. Það er bara ég og hólfið, ekkert annað, eða er þetta hólf kannski ég?
Á meðan ég reyni að átta mig birtist agnarsmá ljóstýra í fjarska sem ég reyni að teygja mig eftir, eina von mín í myrkrinu. Ég nálgast ljósið hægt sem verður sífellt stærra og að lokum er eins og ég sé kominn inn í ljósið. Það skín svo skært að ég sé ekki neitt. Engan líkama, hendur eða fætur, það er eins og ég sé ekki til.
Allt í einu heyri ég ískur, skranshljóð í bíl. Svo er ég svífandi yfir einhverri götu. Hún lítur kunnuglega út. Hvað í ansk… Ég næ ekki að hugsa hugsunina til enda því ég sé bíl koma á fleygiferð í áttina til mín. Ég fyllist ótta þegar ég átta mig á því að þetta er ég, það er ég sem er að keyra bílinn. Það er eitthvað við þetta umhverfi sem ég kannast við. Hef ég verið hér áður? Spurningunum rignir á mig.
Bíllinn er á ofsa hraða, hann brunar áfram og nálgast mig. Ég er að nálgast mig sjálfan.
Skyndilega sé ég litla stelpu hlaupa þvert yfir götuna. Mér til mikillar skelfingar stefnir bíllinn, ég, beint á stelpuna. Tíminn stoppar. Ég fylgist dáleiddur með, svífandi í loftinu rétt fyrir ofan götuna. Svo fyllist ég sektarkenndar, reiði. Ég er reiður við sjálfan mig fyrir að hafa keyrt svona.
Allt er stopp. Stelpan er frosin með bros á vör, bíllinn er kyrr og ég sé svipinn á sjálfum mér. Andlitið er hvítt og skelkað af hræðslu, óttinn skín úr augum mínum. Svo fer allt í gang aftur, bíllinn lötrar áfram og stelpan hleypur ofurhægt yfir götuna, algjörlega ómeðvituð um að bíll stefni á hana á fullri ferð. Allt gerist svo hratt, en samt svo hægt frá mínu sjónarhorni að hver sekúnda í þeirra raunveruleika verður mínútu kvöl í mínum.
Ég sé sjálfan mig snúa stýrinu til hægri. Allt er eitthvað svo óraunverulegt, ég heyri ískur og skrensuhljóð og ég horfi á bílinn sveigja rétt framhjá stelpunni, ég finn fyrir létti.
Ég gleðst innra með mér því stelpan slapp ómeidd, svo renni ég augunum að bílnum.
Bíllinn stefnir beint á mig. Ég lít í flýti aftur fyrir mig þótt ég viti hvað ég mun finna þar. Allt verður dimmt aftur en ég heyri þegar bíllinn skellur á sterklegu steinhúsinu. Svo er eins og andi minn smelli aftur í líkamann sem liggur meðvitundarlaus fram á stýrið og ég opna augun.