Hann vantaði buxur. Það var staðreynd sem konan hans hafði verið dugleg að minna hann á síðastliðna mánuði. Hann gerði sér alveg grein fyrir því sjálfur en reyndi að fresta verslunarferðinni eins og hann gat því honum leið alls ekki vel inni í verslunarmiðstöðvum. Þess vegna frestaði hann þessum leiðangri í tíma og ótíma þar til óhjákvæmilegt var að gera eitthvað í buxnamálinu mikla.
Hann ákvað að vera sterkur. Hann hugsaði með sér að það væri ekkert mál að skreppa aðeins inn í verslunarmiðstöð, fólk væri sífellt að versla þar og sumir gætu jafnvel unnið þar dag eftir dag. Hann, fullorðinn maðurinn, gæti nú farið og keypt sér einar buxur. Það þyrfti ekki að taka langa stund, hann gæti jafnvel skotist í hádegishléinu.
Já, það var góð hugmynd! Hann kæmi svo heim eftir vinnu sigri hrósandi með nýjar buxur. Þá yrði konan hans glöð.
Í hádegishléinu herti hann sig upp og gekk hröðum skrefum út á bílastæðið í átt að bláu Toyotunni. Hann fékk öran hjartslátt við tilhugsunina um Smáralind en hélt ótrauður áfram að bílnum. Á leiðinni byrjaði hann að svitna en hann var staðráðinn í að láta þessa ferð bera árangur. Hann stillti á kaldan blástur, þurrkaði svitann af enninu með handarbakinu og sagði upphátt við sjálfan sig: ,,Ekkert mál fyrir Jón Pál.’’
En röddin hljómaði ekki sannfærandi. Hann kannaðist varla við þennan titrandi hjáróma málróm sem barst úr hans eigin barka. Hann ákvað að sleppa fleiri hvatningarorðum til sjálfs sín. Þau gætu haft öfug áhrif.
Loks var hann kominn á áfangastað, Smáralindin blasti gnæfði yfir honum og hann fann verulega til smæðar sinnar.
Hann læsti bílnum og nam staðar andartak til að draga djúpt andann. Síðan gekk hann rakleiðis í átt að snúningshurðinni á neðri hæðinni eins og íþróttamaður sem er staðráðinn í að sýna hvað í honum býr. Hann leit út fyrir að vera mjög tímabundinn maður þar sem hann hljóp við fót í gegnum dyrnar. Hann arkaði í átt til fystu verslunarinnar sem hann kom auga á, hrifsaði álitlegar buxur úr hillunni og dreif sig inn í mátunarklefa.
Þar blasti við honum eldrautt nærfatasett.
Undarleg tilfinning helltist yfir hann og skyndilega hvarf allur kvíði eins og dögg fyrir sólu. Hann tók brjóstahaldarann upp og þefaði af honum. Ó, hve þetta var fallegur brjóstahaldari.
Meðan hann handfjatlaði nærfötin fann hann til spennu sem jafnaðist ekki á við neitt sem hann hafði áður upplifað og bak við luktar dyr mátunarklefans afklæddist maðurinn. Það var mikill léttir að losna úr úlpunni því hann hafði svitnað mikið á leiðinni og þegar hann var komin í þessi fallegu rauðu undirföt leið honum vel.
Aldrei klæddist konan hans svo glæsilegum undirfatnaði.
,,Hvernig passa buxurnar?’’ heyrði hann kallað að utan.
Röddin var allt í einu komin þétt upp að hurðinni á mátunarklefanum og sagði: ,,Er þetta rétt stærð, eða á ég að ná í aðrar fyrir þig?’’
Maðurinn varð skelfingu lostinn og greip fyrir augun af skömm.
,,Ha.. nei, ég veit það ekki…’’ svaraði hann með erfiðismunum.
,,Má ég sjá?’’ spurði afgreiðslumaðurinn kurteislega.
,,Nei, nei, þær passa fínt sko, ég held ég taki þær bara.’’
Innan veggja mátunarklefans klæddi maðurinn sig í flýti úr rauðu nærbuxunum og þegar hann bjóst til að fara úr brjóstahaldaranum hringdi síminn. Það var eiginkonan.
Með hálfum hug ýtti hann á svarhnappinn.
,,Halló.’’
,,Hæ elskan, hvað segirðu?’’
,, Allt fínt bara, en þú?’’ svaraði hann
,,Ég var að spá í hvort við ættum kannski að hittast og borða saman?
Maðurinn horfði á sjálfan sig í speglinum þar sem hann stóð kviknakinn ef frá var talinn rauður brjóstahaldari og hvítir íþróttasokkar.
,,Nei, elskan, ég get það ekki í þetta skiptið, ég fór nefnilega upp í Smáralind að kaupa buxur,’’ svaraði hann og það örlaði fyrir stolti í röddinni.
,, Ókei, frábært, loksins dreifstu þettta af! En ég sé þig þá á eftir elskan.’’
,,Já, bæ, bæ.’’
Hann fann fyrir spennufalli við að heyra rödd konunnar sinnar og flýtti sér úr brjóstahaldaranum og í fötin sín aftur. Hann tók buxurnar og nærfatasettið og gekk í átt að afgreiðsluborðinu.
Eftir vinnu keyrði hann heim og hvítur poki hvíldi í framsæti bílsins. Buxur handa honum og nærfatasett fyrir konuna. Hann hafði svo sannarlega gert góð kaup.
Reyndar kom í ljós að buxurnar pössuðu alls ekki, þær voru í of lítilli stærð. En það gerði ekkert til.
Nærfötin pössuðu.
Bæði á hann og konuna hans.