1. Janúar. Mánudagur.

Ástandið hefur bæst örlítið síðan í gær. Ég náði að styrkja þakið aðeins svo það hrynji a.m.k. ekki í bráð. ég fékk litla hjálp frá Halldóri þar sem hann hefur sofið meira og minna síðan í gærkvöldi (klukkan er hálf ellefu um kvöldið, ef hún er þá rétt því það er ómögulegt að sjá mun á degi eða nóttu þegar maður lítur út.) Hann hefur tekið meira inn en ég af lyfjum augljóslega, eða að hann sé bara svona veikur á svellinu (passar við veðrið) Það gæti hafað verið ég sem fékk hann út í átið, allveg eins. Ég á svo sannarlega ekkert skilið að lifa ennþá. Raddirnar hafa komið aftur, Siggi frændi er farinn að kvabba og pabbi nöldrar. Ég ætla EKKI að missa stjórnina aftur! ÉG hef nóg vandræði með sekktarkenndina sem er að kæfa mig vegna þeirrar sjálfelsku sem ýtti mér í lyfjatrippið þó einhverjar bévítans raddir fari að leggja sitt til málana í hugsanagang minn.
Hungrið er farið að gera vart hjá mér. Það eina sem yfirgnæfir stöðugt gaulið í maganum á mér eru hroturnar í Halldóri. Vel á minnst hávaðinn í veðrinu hefur minnkað talsvert síðan í gær. Kannski það verði þokkalegt á morgunn?

2. Janúar. Þriðjudagur.

Ég hefði átt að sjá þetta fyrr. En hvernig? Það gerðist í hádeginu að ég held. Halldór hafði þangað til þá verið úr sambandi við þennan heim, annaðhvort röflandi óskiljanlega hluti eða sofandi eins og lík. Halldór virðist hafa vaknað snögglega um þennan tíma og farið að leita að Svölu. Ég var algerlega óviðbúinn því kasti sem hann fékk. Hann vakti mig kjaftshöggi sem vakti mig á sekúndubroti og leið gerði mig vankaðann. Hann sparkaði í magann á mér og hrækti framan í blótsyrðum og lítt skiljanlegum orðum um mína sök, mér að kenna, eitthvað svoleiðis. Hann hélt á meðan áfram að berja í andlitið á mér. Andlitið á honum var gjörbreytt svo og röddin. Halldór var vart þekkjanlegur fyrir sárum og rispum, allur þakinn blóði. Hann hafði örugglega valdið þessum sárum sjáflur, klórað sig og slegið í framan af reiði. Ég var of hissa til að geta gert eitthvað til að verja mig gegn höggum hans. Kannski var ég of sakbitinn til að vilja gera eitthvað. Ég átti þetta skilið. Hann hætti eftir nokkrar mínútur þegar ég fór loksins að sporna við árás hans og fór út í næsta horn og hágrét eins og lítið barn. Ég hef aldrei á ævinni fundið eins mikið til með neinum eins og ég fann fyrir harmi Halldórs. Hann grét allan daginn, ótrúlegt hvernig hann átti alltaf vökva í líkamanum til þess svona lengi. Það var ekki fyrr en um kvöldið sem hann hætti. Ég hafði allan tíman legið hjá honum og reynt allt sem ég gat til að hugga hann hálf vandræðalegur og hálf sorgbitinn. (venjulega var Halldór í hlutverki huggara þegar við vorum minni.) Hann sofnaði núna fyrir stuttu, datt útaf eins og sláturkeppur, sjálfsagt orðinn máttvana af átökunum í dag og táraflóðinu. Ég vona að hann hafi náð einhverju af sínu sjálfi aftur og skilji aðstæðurnar. Djöfull er ég svangur.



3. Janúar. Miðvikudagur.

Ég hafði velt fyrir mér hugmyndum um að reyna að komast til mannabyggða á einhvern hátt en hef hætt því, raddirnar hafa verið ansi háværar í dag og gert all til að brengla huga minn helvítin. Veðrið gerði sitt til að loka fyrir allar svoleiðis hugdettur því ofsaveðrið hefur aukist um helming. Engin langtímaveðurspá hefur séð þetta fyrir. Halldór hefur náð sér ótrúlega vel miðað við áfallið sem hann fékk í gær. Ég vona að það haldist. Hann hjálpaði mér að búa Svölu gröf rétt fyrir utan hellinn en það verk gekk erfiðlega vegna veðuursins og vegna þrekleysis hjá okkur. Við náðum að ljúka verkinu á fjórum klukkutíma tæplega. Höfum hvílt okkur í allan dag. Þó hungurtilfinningin hafi minnkað, eykst hræðslan hjá manni um hungurmorð. Við gengum mikið á orkuna hjá okkur með flutningi Svölu, kannski hættulega en þetta varð bara að gera. Það hefði orðið ómögulegt að vera inni með líkið með okkur, rotnandi hægt og rólega, fyllandi hellinn með hættulegri uppgufum frá rotnandi holdinu. Halldór hefði heldur ekki getað horft á hana vitandi að hann átti sinn þátt í dauða hennar. Hvað er ég eiginlega að segja? Þetta var mestmegnis mér að kenna, mér og engum öðrum.
Halldór var í of slæmu ástandi fyrir til að geta gert eitthvað verra, hvað þá rústa möguleikum okkar á björgun með þessum hætti. Ég veit ekki hvernig samband okkar yrði í framtíðinni ef við lifum þetta af. Hann hefur ekkert sagt við mig en biturleikinn sést í andliti hans. Ég vona samt heitt fyrir okkur báða að við komumst út úr þessu jökulkalda helvíti á jörð, heilir á líkama og sál, að minnsta kosti sál.

4. Janúar. Fimmtudagur.

Allt er orðið rólegt núna. Kannski of rólegt, vantar eitthvað eins og t.d. átján tommu sjónvarp, fullkomið myndbandstæki og spólur fyrir næsta árið. Eða bara útvarp. Það er helvíti pirrandi að vera svona einangraður. Þegar við höfðum talstöðina, gat maður a.m.k. hlustað á ruglið sem fór þar fram á milli manna. Það sniðugasta væri örugglega að hefja samræður við Halldór, ég þori því bara ekki. Hann virðist eins og gamalt tundurdufl sem gæti sprungið við minnstu snertingu, eitt orð og BÚMM, snjórinn ekki lengur hvítur. Ég er orðinn ansi máttfarinn, bara að skrifa þessar fáu línur er eins og að hlaupa í kringum Laugardalinn, en hei, ég gefst ekkert upp. Halldór virðist hafa sömu þrjóskuna, það litla sem er eftir að orkunni geislar frá honum í gegnum andlitið. Ég hef notað daginn í að finna eitthvað hérna inni sem gæti verið næring. Við höfum náð einhverju ætilegu úr þeim matarleifum sem fundust út um allan hellinn. Annar prímusinn virkar aðeins en er að verða tómur, djöfull bragaðist þetta illa, pjötlur af skinku, hálfmyglað brauð, nokkrar baunir, og svo ískalt vatn með. Ekki beint réttur dagsins hjá Café Óperu. Það helsta sem mér dettur í hug fyrir næstu daga er að japla á fóðringunni í úlpunni minni, nóg af trefjum haha. Ég hef þó hugleitt eina leið til að fá næringu, Sú hugsun hefur ítrekað ruðist óboðin inn í huga minn. Ég hef reynt að halda henni úti en það gengur ekkert. Þetta er verra en að hafa einhvern lagastúf á heilanum, on blueberry hills, on blueberry hills, on blueberry hills.
Veðrið virðist eins og í gær, dauf en kröftug öskur frá ísköldum vindinum. Það var rosalegt í gær þegar við færðum Svölu út fyrir snjóhellinn. Eftir nokkrar sekúndur voru hendurnar dofnar upp að öxlum þrátt fyrir tvær ullarpeysur, úlpu og hanska. Varla veður til að búa til snjókarl. Fastagestirnir í hausnum á mér hafa haft óvenjulega hljótt upp á síðkastið, kannski orðnir leiðir á mér. Ekkert í þessum heila, næsti!. Mig dreymdi um ekkert nema fljúgandi pizzur og stóra sjónvarpskjái síðustu nótt. Furðulegur draumur, minnir mig á starfið sem ég sagði upp hjá Domino´s. Að minnsta kosti gat maður étið afgangspizzurnar þar, einhverja fæðu. Ég finn ekki eins mikið fyrir hungri núna. Ég las eitthvað um þetta einhverntíman, hungrið verður sterkast fyrstu tvo til þrjá dagana, svo hverfur það og maður verður hálf vankaður eins og eftir að hafa tekið róandi. Svo hverfur það bara… með lífsþróttinum. Svaka upplífgandi að vita það. Miðað við þá orku sem ég hef notað til að skrifa þetta ætti ég að vera búinn að hlaupa svona sex til sjö hringi í kringum Laugardalinn. Mig er farið að svima, hætti núna.

5. Janúar. Föstudagur.
Hann er farinn, ég er einn, út hann fór út, svo rólegur í morgun, Halldór. Svo kom eitthvað eins og sprengja. Ég, of rólegur til að lyfta litla fingri til gera eitthvað áður en hann færi út. Hann var horfinn áður en ég vissi af, skaðræðisöskur, hljóð í rifnu tjaldi og svo þessi lamandi kuldi. Ég hélt að þakið á hellinum hefði hrunið, eða eitthvað gefið sig. Það næsta sem ég sá var þegar snjóhellirinn var skyndilega lýstur upp og eitthvað dökkt hreyfðist út fyrir. Ég hélt að þetta væri einn af rugluðu draumunum mínum en nístandi frostið sem barst inn fyrir sagði annað. Hvernig fékk hann orkuna í þetta?. Hvað fékk hann eiginlega til að gera þetta?…

Ég var búinn eftir að hafa skriðið út fyrir öskrað í gegnum bylinn, beðið í frostinu og skriðið aftur inn til stífna ekki af sjokki frá kuldanum. Ég klæddi mig betur, fór út aftur, ekkert. Ekki nokkur skapaður helvítis andskotans hlutur! Það er komin nótt núna þegar ég skrifa þetta, notaði allann daginn til að ná áttum. Ég get lítið annað en að bíða, Hann hefur ekki komið aftur síðan þetta gerðist. Hann gæti hafa reddað sér, er það ekki? Ég hefði aldrei gert það sem ég gerði, við venjulegar aðstæður, adrenalínið hefur pumpað sig í vöðvana og hjálpað. Það munaði litlu að ég villtist í þessu brjálaða veðri, ekki skyggni nema rétt frá nefinu. Ég hef kannski verði 2 til 3 metra frá inngangnum þegar ég sá ekkert nema snjóhvítan blindandi vegg allt í kringum mig. Ég féll sem betur fer um annan snjósleðann sem var rétt fyrir utan snjóhúsið. Stýrið á sleðanum var það eina sem stóð upp úr skaflinum sem hafði myndast yfir honum.

Ég bjóst við því að sjá Halldór inni fyrir þegar ég skreið aftur inn, hluti af óskaði þess, ég sá í staðin tóman helli, ekkert nema svefnpokarnir, fötin hans Halldórs (Hann fór út á nærfötunum!)
Reyni að skrifa sem mest til að halda sönsum. Mér líður eins og höfuðið sé tilraunasvæði fyrir sprengiefni, Hnakkinn er að rifna, ég er farinn að sjá hálfilla. Pabbi er farinn að röfla aftur, allt gengið komið aftur. Verð að halda mér heilum. Það hefur bæst við ný rödd, ég kannast eitthvað við hana, minnir á grunnskólann, bekkjabróðir kannski?

Ég fann puttana mína, þessa sem ég missti vegna kalsins. Mér brá þegar ég fann þá, þeir stóðu upp úr snjónum eins og afgangurinn af líkamanum væri grafinn í snjóinn. Man ekki eftir því að hafa ákveðið að geyma þá, og fyrir hvað þá!?! . Pabbi var á móti því sem ég gerði næst, þessi nýi hvatti mig þó áfram, Svona gerðu það! Áfram! Þú ert svangur er það ekki? þetta er allt í lagi! Allt í lagi!
Hann hlýtur að koma aftur, það var ekki svo kalt. Ég get ekki verið svona einn í þessu drungalega plássi, þetta er eins og vera inn í fataskáp, síðustu vikurnar! Mér finnst alltaf eins og ég sjái hreyfingu innst hérna inni. Kannski bara hreyfingin í vasaljósinu, verð að skrifa áfram, sé illa á blaðið, ekkert nema svartir blettir , ekki stoppa, áfram. Af hverju hreyfir það sig ekki? Ekki stoppa.
—–