Til þess er ég á allt að þakka,
Ég skrifa þetta bréf í þeim tilgangi að útskýra brotthvarf mitt því ég veit að þú munt hafa áhyggjur af mér. Þú ert svo góður og hugulsamur, hefur alltaf áhyggjur af mér ef að þú veist ekki hvar ég er. Í kvöld verður þessari ábyrgð þó létt af þér, á morgun mun ég að eilífu örugg.
Mér þykir leitt að þurfa að koma þessu svona til þín, að geta ekki horft í augun á þér á meðan ég tala, að geta ekki faðmað þig í hinsta sinn og fundið koss þinn á höfði mínu, heitan líkama þinn við minn og mjúka snertingu þína þegar þú umvefur mig í öryggi faðms þíns. Ég gæti það bara ekki.
Það er fátt sem ég get sagt. Aðeins það sem þú veist, að dagurinn sem hefur vofað yfir okkur í langan tíma er runninn upp. Við vissum bæði að hann væri óumflýjanlegur, eins og napur vindurinn að vetri, heit sólin að sumri. Vissum að ég myndi einhvertímann gefast upp, flagga hvítum fána fyrir myrkrinu og játa mig sigraða.
Ég vil ekki að síðustu orð mín til þín verði eitthvað væl um hversu ömurlegt lífið var, eða hversu illa það lék mig. Síðustu orðin skulu vera gjöf mín til þín, þakkir fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Þakkir fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, jafnt sem öll skiptin sem þú hélst utan um mig og hughreystir mig á meðan rökkrið seig á. Takk.
Manstu eftir því þegar við stálumst út eina nóttina fyrir löngu og þeystum berbakt um á stóra túninu? Eftir dögginni sem hafði myndast á ungum líkömum okkar þegar við vöknuðum við það að hundurinn var að sleikja okkur morguninn eftir?
Þannig vona ég að himnaríki verði.
Ég veit að þú vonaðir að þú gætir læknað mig. Vildir, þráðir, óskaðir. Ég veit þó líka, að þú vissir að ekkert gæti það, og að þessi stund hefur svert drauma þína í langan tíma. Ég vona að með þessu muni ég létta á þér svo þú getir haldið áfram að lifa og orðið hamingjusamur á ný.
Lifðu, fyrir mig.
Þín, þar til vitund mín endar og vonandi lengur.