Ef við lifðum í skýjunum væri líf okkar styttra. Kannski mínúta og þó varla svo lengi. Því himinninn er alltaf að breytast, og ef við lifðum lengur villtumst við bara. Þessi sjötíu, áttatíu ár sem okkur mönnunum er úthlutað eru einmitt rétt nægileg til þess að fólk trúi því að jörðin sé kyrr.
Svartur bjó í klefa 23. Þeir höfðu hoggið til fangelsi í berginu. Rammgerðasta fangelsi ríkisins. Svartur hafði verið þarna, samkvæmt skrám, frá fyrsta ári. Það var langt síðan, og í sannleika sagt þá hafði gamli fangelsisstjórin einhvern veginn tekist að glata skjölunum sem tilgáfu fyrir hvaða sakir hann sat inni. Það skipti samt litlu máli. Maðurinn var dæmdur, annars væri hann ekki þarna. Og í þá daga var aldrei fyrirfram ákveðið hvað menn sátu lengi inni. Menn sátu þar til þeir voru náðaðir. Eða þeir dóu.
Fangarnir kvörtuðu sjaldan yfir ófrelsinu. Frelsið hafði hvort sem er verið þessu fólki ókunnulegt alla tíð. Menn kvörtuðu heldur ekki yfir aðstæðunum. Það höfðu það margir verra. Það sem angraði menn mest var aðgerðarleysið.
Menn urðu hálfbilaðir á skömmum tíma og þessi örfáu skipti í viku sem föngnum var leyft að hafa samneyti við hvern annan virkaði miklu fremur sem grimmur brandari en samúð. Því geðveikt fólk hafði lítið gagn af félagsskap enn geðveikara fólks. Oft gat verið mikil læti.
Haft var á orði að fangakirkjugarðurinn þeirra væri sá viðamesti af öllum.
Þegar það kom fyrir að fangi var náðaður þá snéri hann aldrei aftur betri maður.
Svart leiddist samt ekki. Dagarnir liðu. Vikur og ár. En fangaverðirnir sáu aldrei neinn mun á honum. Alltaf var hann rósemdin uppmáluð. Þessi skínandi kalda yfirvegun olli því að hinir fangarnir virtu hann og létu í friði. Hann var stór og mikill, ljós yfirlitum og með ljósbrúnt hár. En augun voru kolsvört eins og veggirnir sem þau höfðu starað á öll þessi ár. Það var þess vegna sem hann var kallaður Svartur.
Að vísu hafði eitthvað annað nafn, ekki eins lýsandi, staðið í vistarpappírunum hans upphaflega. Nafnið hafði verið langt og framandi. Engin man það lengur.
Þegar nýr fangelsisstjóri tók til starfa löngu löngu seinna og fékk í hendur þessa pappíra ætlaði hann varla trúa sínum augum.
Engin fangavarðanna hafði starfað svo lengi að muna það þegar Svartur var fangelsaður. Á löngum næturvöktum var ýmislegt pískrað, og fór sú saga um á vinnustaðnum að ættarnafn Svarts gæfi til kynna að hann tilheyrði einni nafntoguðustu ætt landsins. Ótal sögur gengu um hver hann væri í raun.
En undrun fangelsisstjórans nýja stafaði ekki af nafni Svarts. Í raun var nafn hans nefnilega ekki svo ýkja merkilegt. Eftirnafnið var ættað frá bláfátækum kotbændum neðan úr dal. Nei, undrun hans stafaði af því að hver sem íbúi klefa 23 var í raun og veru þá var hann löngu dauður samkvæmt pappírinum.
Samkvæmt skjölunum hafði íbúi klefa 23 verið fangelsaður 123 árum fyrr. Enginn lifði svo lengi. Fangelsisstjórinn hló. Svartur hafði kannski setið manna lengst í þessu fangelsi en ekki svo lengi. Þegar Svarti var stungið inn, hvenær sem það var, hafði öll skjalaumsýsla greinilega verið mun vanþróaðri. Skráin hans hafði líklega bara verið sett sem viðhengi á skrá eldri klefabúa. Einhverntíman í tímanna rás hafði svo aukaskráin glatast. Fangelsisstjórinn gerði sér grein fyrir því að á undan Svarti hlytu þrír til fjóri aðrir fangar að hafa setið í sama klefa í millitíðinni. Nöfn þeirra allra hlýtur að hafa verið á þessu sama viðhengi, og svo öll glatast á sama bretti þegar það lenti í ruslinu.
Úr þessu þyrfti að bæta. Svarti var tafarlaust beint í yfirheyrslu. Þegar stjórinn kom til að spyrja hann fáeinna spurninga sat þessi rumur þarna sallarólegur, eins og ísjaki og starði á hann. Fangelsisstjóranum þótti augnarráð klefabúa 23 einkar ágengt og vék sér undan því. Vanalega kaus hann að horfa í augun á viðmælendum sínum og spyrja af ákveðni. En þess í stað gat hann ekki annað en horft bara á öxlina á honum og fum komst á hann.
„Segið til fulls nafns,“ sagði fangelsisstjórinn.
Svartur þagði og starði á hann. Stjóranum leið eins og augun boruðu sig inn í ennið á honum, og þorði fyrir engan mun að líta í þau.
Vandræðileg þögn ríkti í smástund.
„Er það rétt að þú sért sá sem kallaður er Svartur?“ spurði loks fangelsisstjórinn ráðvilltur.
Honum sýndist Svartur kinka kolli.
Kannski er hann búinn að gleyma því hvernig á að tala, hugsaði fangelsisstjórinn.
„Segðu okkur þitt fullt nafn.“
Vitaskuld sagði Svartur ekkert.
Þegar fangelsisstjórinn sá fram á að ekkert svar væri á leiðinni las hann upp eftirnafnið á gömlu skránni og spurði Svart hvort hann kannaðist eitthvað við það.
Svartur hætti þá að stara og horfði niður í gaupnir sér. Þetta voru mestu viðbrögð sem maðurinn hafði sýnt alla yfirheyrsluna og fangelsisstjórinn tók þessu sem jákvæðu svari.
Þegar hann ætlaði að spyrja hann fleiri spurninga var hann þurrausa. Hann hafði ekki af fleiru að spyrja og nennti ekki að spjalla við mann sem hafði ekkert gert af sér óralengi og vildi greinilega ekki tala.
Eitt andartak braust fram gamalkunnur baráttuandi í fangelsisstjóranum. Hvað þóttist þessi glæpamaður eigilega að vera sperra sig? Hann hafði margoft yfirheyrt menn harkalega og aldrei brást það að á endanum fékk hann að heyra það sem hann vildi. Hann íhugaði að beita valdi en samstundis greip hann þvílík uppgjafartilfinning að honum leið eins og hann væri allur lamaður.
„Ég nenni þessu ekki,“ hvíslaði fangelsisstjórinn að sjálfum sér og þerraði á sér ennið. „Farið með hann aftur í klefann sinn!“ skipaði hann fangavörðunum valdsmannlega fyrir.
Þegar aftur var inn á skrifstofuna komið leit stjórinn á nýja eyðublaðið sitt óútfyllta og dæsti. Hvað hafði þessi maður eiginlega setið hérna lengi? Óþægileg tilfinning hríslaðist um hann. Hann hlyti að getað dúsað hérna lengur.
Hann hafði kannast við umrætt eftirnafn svo hann skrifaði það í skýrsluna. Í eiginnafn skrifaði hann Svartur, þótt það væri nú í rauninni ekki nafn, en fanginn hafði viðurkennt að vera kallaður það.
Hann klóraði sér lengi í kollinum. Hvað skyldi hann eiga að skrifa í sakarefni. Eftir langa umhugsun skrifaði hann kæruleysislega eitt orð. Morð. Honum grunaði að það væri kannski ekki svo fjarri lagi. Aðra reiti merkti hann með spurningamerki.
Svartur fékk að dúsa í dýflyssuni mörg ár enn.
Eftir byltinguna snarbreyttist réttakerfi landsins. Gamlir valdhundar voru sjálfir fangelsaðir. Þeir voru allir dæmdir til lífsstíðar. Í kjölfar réttarbótanna var nefnilega farið að krefjast þess að tekið væri skýrt fram í dómum hve löng afplánun fangans skyldi vera. Þeir sátu í fangelsum fengu því skyndilega vonarglætu sem barst innum rimlanna. Margir voru frelsaðir tafarlaust og öðrum sagt nákvæmlega hvenær þeim yrði sleppt og menn gátu farið að telja daganna. Sálarlíf fanga batnaði tluvert við þetta. Þeir einu sem sátu á lífstíðardeildinni ásamt pólitísku föngunum voru dæmdir morðingjar.
Svartur var ekki færður úr klefa 23. Engum kom það til hugar. Þess í stað voru aðrir klefar umhverfis hann tæmdir og lífstíðarfangar færðir inn á ganginn. Svarti var tilkynnt að hann yrði í fangelsinu til lífsstíðar,með enga von um náðun fyrr 1983, þegar flestir af þessum gömlu jöxlum yrði hvort eð er dauðir. Þá hló Svartur.
Í klefa 24 kom gamli „félagi“ Svarts, fangelsisstjórinn sem hafði „uppfært“ skýrsluna hans. Hann entist þó ekki lengi og dó fljótlega.
Svartur sat og beið í klefanum sínum.
Enn voru fjölmörg ár til ársins 1983 en Svartur vissi að hann þyrfti ekki að bíða svo lengi. Hann þekkti klefann sinn. Hann kunni orðið á bergið. Hann vissi hvað beið í fjallinu.
Mennirnir lifa stutt. Þeir halda að jörðin sé kyrr. Þótt hún titri dálítið stundum og bylti sér þá sé það svo sjaldan að það heyri til undantekninga. En í rauninni er því þveröfugt farið. Allan aldur hennar hefur það frekar verið breytingarleysið sem hefur verið undantekning.
Þegar mennirnir læstu Svart þá nennti hann ekki að mótmæla. Því hann vissi að þótt þeir umluktu hann heilu fjalli þá myndi það bara fuðra upp á andartaki, eins og ský á sumardegi, og Svartur héldi sína leið.
Maður þarf ekki beita valdi þegar maður hefði tímann sínum meginn.
Enn var langt í 1983 þegar Stóri Jarðskjálftinn reið yfir land fangelsanna. Klefarnir breyttust í grafir. Sumir fanganna höfðu þreytt þarna þorrann svo árum skipti og höfðu varla fyrir því að andvarpa.. Aðrir sem voru nýkomnir veltu því fyrir sér hvort þessi óhljóð vær4 eðlileg. Enginn heyrði skelfingarópin þegar fjallið gleypti þá alla. Hellar og göng hrundu saman. Hlíðin skreið yfir ytri byggingar og krömdu þá sem þar voru.
Vestræn lönd lofuðu aðstoð þessari þjáðu þjóð, en hjálpin kom seint og illa. Þyrlur og hjálparstarfsmenn komu á endanum en þá var afskekt fjallafangelsi ekki efst í forgangsröðinni.
Svartur hélt uppi með báðum höndum rjáfrinu í klefa 23. Næstu daga og vikur hlustaði hann. Hann heyrði kvalarópin í þeim örfáu sem ekki dóu samstundis smá saman fjara út.
Í þögninni sem á eftir kom sperrti hann eyrun og beið eftir að heyra til mannaferða fyrir utan.
Skyndilega greip kvíði Svart. Kannski myndu mennirnir sleppa því að hrófla í þessari fjöldagröf. Það væri ólíkt þeim en velmögulegt. Þá gæti hann þurft að bíða aðeins lengur en til 1983 eftir því að losna út. Hann kveið ekki biðinni, hann hafði nægan tíma. Hann óttaðist bara að ef hann yrði að bíða þar til allt fjallið myndi veðrast í burtu þá gæti það tæki milljónir ára og þá væri ekki lengur neitt mannkyn til að rannsaka.
Það var ekki fyrr en hátt í mánuði seinna sem heimamenn byrjuðu að róta í rústunum. Byggðin í dalnum var illaútleikin og dalsbúar leituðu dauðaleit af verðmætum í fangelsinu fyrrverandi. Svartur varð þess var samstundis. Hann reyndi láta heyra í sér svo mennirnir yrðu hans varir.
Þá þegar varð þorpsbúum ljóst að enn væri einhver á lífi. Þetta þótti með þvílíkum ólíkindum að fólk þusti að hvaðanæva af landinu þegar það fréttist og brátt var skipulagður björgunarleiðangur skipaður færustu rúsabjörgunarsveitamönnum heims. Heimspressan beið fyrir utan og veröldin stóð á öndinni. Fólk hugsaði með sér að ef þeim tækist að bjarga þessu manni væri það slíkt kraftaverk að það bætti að hluta upp allt klúðrið í kjölfar sjálf skjálftans þegar tugir þúsunda létust.
Ekki leið á löngu þar til björgunarsveitarmenn boruðu upp úr urðinni Svart, skítugan en ótrúlega vel farinn. Þegar upp úr gröfinni var komið blöstu við honum óteljandi hljóðnemar sem otað var að honum úr öllum áttum. Hann sagði ekki neitt frekar en fyrri daginn. Læknar skýrðu fyrir fjölmiðlum að maðurinn væri við fullkomna heilsu en þjáðist af alvarlegri áfallastreitu og gæti ekkert tjáð sig að svo stöddu.
Hann var færður til aðhlynningar.