Fyrir langa löngu í stórri borg var maður.
Fyrir langa löngu á lítilli krá sat maður.
Fyrir langa löngu í stórri borg, á lítilli krá sat maður, frakkaklæddur maður falinn í skugganum.
Þetta gerðist reyndar ekki fyrir langa löngu, nema að núna sé árið 2300 eða eitthvað svoleiðis, en ég held að það sé ekki tilfellið.
En já, maðurinn, hann var sem sagt frakkaklæddur, falinn í dimmum skugga….
En þegar ég hugsa út í það þá held ég að það séu ekki til neinir ljósir skuggar, þannig að maðurinn hlýtur að hafa setið í skugga, en ekki dimmum skugga….
En það skiptir ekki höfuð máli hérna, heldur það að maðurinn sat í dimm….. sat í skugga, augu hans voru blá og tómleg og skegg…. nei, bakkaðu aðeins, við sáum ekki augun á honum því andlit hans var falið dimm… falið í venjulegum skugga.
Kráareigandinn kom labbandi rólega að borðinu hans, augu hans voru blá en tómleg og skegg óx frjálslega í andliti hans líkt og hollenskt engi, ekki það að ég viti hvernig hollenskt engi líti út en ég geri ráð fyrir að það hafi litið svipað út og skeggið á kráareigandanum með bláu og tómlegu augun.
En nóg um Holland, kráareigandinn, þessi með skeggið, gekk rólega upp að borði mannsins sem var falinn í dimm…. falinn í skugganum á litlu kránni í stóru borginni fyrir ekki langa löngu.
En allavegana, kráareigandinn sem sagt labbaði að borðinu, eða meira svona haltraði, hann hafði tognaði í hásininni kvöldið áður þegar hann var að reyna að stoppa slagsmál sem höfðu brotist út á kránni milli tveggja gesta sem höfðu víst fengið sér einum og mikið af „Mjólk“ eða þið skiljið hvað ég á við…. en þetta kemur sögunni nákvæmlega ekkert við nema til að útskýra af hverju kráareigandinn með með bláu tómlegu augun og hollenska engið í andlitinu haltraði í stað þess að labba upp að manninum sem var falinn í dimm…. falinn í skugganum.
Kráareigandinn rýndi inn í skuggann, sem var jú frekar dimmur, enda eru ekki til neinir ljósir skuggar, og sagði svo dimmri röddu, eða bara með svona röddu eins og maður ímyndar sér að bláeygðir kráareigendur með hollensk engi í andlitinu tali: „Má bjóða þér eitthvað meira?“
Maðurinn í dimm… í skugganum teygði sig fram á borðið svo ljós hýru tókst að stökkva framan í hann og lýsa upp andlitið sem var fölleitt, ekkert ósvipað samblöndu af Tom Cruise og Anthony Hopkins, með svolítið skakkt bros og brún augu.
„Nei ekkert meira.“ Sagði maðurinn sem hafði verið falinn í dimm… falinn í skugganum, svo teygði hann vinstri höndina í vasann, þann vinstri svo þið sjáið þetta almennilega fyrir ykkur og skellti snögglega fjólubláum seðli á borðið (1000 kr seðli fyrir þá sem vissu það ekki.) svo stóð hann upp hneppti að sér frakkanum og hvarf út af littlu kránni, út í stóru borgina fyrir ekki langa löngu.
Mér hefur fundist frekar margar þunglyndar eða sorglegar sögur vera að koma svo ég ákvað að skrifa eitthvað allt öðru vísi. :D