Atferli okkar og annarra
Glugginn er opin og þungt herbergið reynir að létta á sér. Það er logn úti, svo útloftun herbergisins er nánast engin og sama gamla fýlan, blandin táfýlu, svitalykt og kattahlandslykt þverrar nasir okkar. Við erum sofandi í rúmi sem nær yfir hálft herbergið og rúmið er ekki stórt. Við erum líka að lofta út en okkar útloftun fylgja hljóð. Við vöknum ekki við svona hljóð, en við vöknum við sæ- og rigningarblauta ketti sem hringa höfuð okkar á koddanum.
Músin er á harðahlaupum. Hræðsla verður að hraða og loks hámark eltingarleiksins. Stökk. Músin lendir inn í lágvöxnum en þéttum runna og kötturinn missir sjónir af henni. Hún er hólpin. Kötturinn er svangur og hann veit hvar hann fær að borða og setur stefnuna á herbergið okkar. Við hrjótum áfram. Stökk. Kötturinn flýgur upp og inn í gluggann.
Hann lýtur til baka rétt áður en hann stekkur niður á rúmið okkar. Hann leit til baka í vesturátt á sólargeislana sem börðust við sæinn. Þeir höfðu náð að grípa í skýjin fyrir ofan hafið. Þá vissi kötturinn að sólin kæmi upp í dag, því hún myndi ná að hífa sig upp á geislunum. Þegar kettir vita að sólin mun koma upp geta þeir sofnað, og þá sofa þeir oft allan daginn. Hann lendir mjúklega á rúminu og það dúar. Við hrjótum áfram.
Hann hringar höfuð okkar og blaut kattahár strjúkast við andlit okkar. Nú hættum við að hrjóta og rumskum. Við opnum augun og lítum á klukkuna en hún er ekki margt. Kettir eru nefnilega ekkert góðar vekjaraklukkur, því þeir vekja mann bara þegar þeir eru svangir og þeir geta orðið svangir alveg frá kl. 3 að morgni til kl.10 að morgni. Við getum stundum haldið áfram að sofa þegar hann kemur rigningablautur inn, þá vitum við að hann er nokkuð hreinn. Nú heyrum við ekki í rigningu svo hann hefur örugglega verið í sjónum. Þessi köttur!
Úti í runna hættir músin að skjálfa af ótta og neyðir sig til þess að hoppa út úr runnanum og halda heim á leið. Kötturinn er ekki ógn lengur, við gáfum honum að borða og nú sefur hann saddur við hlið okkar í rúminu sem þekur hálft, illa lyktandi svefnherbergið. Músin lifir. Hann malar. Við hrjótum.