Við lögðum af stað á föstudeginum klukkan 17:00 þegar við vorum öll búin í vinnunni. Í Mosfellsbæ keyrði Raggi aftaná bílinn fyrir framan. Úr því varð mikið vesen og komumst við ekki af stað fyrr en klukkan 19:00 með beyglað húdd.
Þegar við komum að Hvalfjarðargöngunum blikkaði gult ljós sem tilkynnti að göngin væru lokuð. Við urðum ekkert smáfúl að þurfa að taka klukkutíma krók um Hvalfjörðinn.
Þegar við vorum komin að Borgarnesi vorum við óðum að taka gleði okkar á ný. Þá hringdi síminn hans Ragga. Það var mamma hans sem sagði honum að pabbi hans hefði dottið niður úr stiga og væri lífshættulega slasaður. Við vildum að sjálsögðu allt gera fyrir Ragga og ætluðum að snúa við en hann tók ekki í mál að skemma ferðina fyrir okkur útaf þessu. Þannig að við keyrðum með hann út á Akranes þar sem hann tók síðasta strætó kvöldsins í bæinn.
Við héldum áfram það sem leið lá þar til við komum að Baulu (vegasjoppa í Borgarfirði). Þar ætluðum við að fá okkur að barða. Við pöntuðum þrjár hamborgaramáltíðir. Eftir 20 mínutur fengum við gosið sem átti að fylgja máltíðinni. Við vorum orðin frekar þreytt á þessarri bið og spurðum þjóninn hvort hamborgararnir og franskarnar væru ekki að verða tilbúnar. Hann sagði að það væru nokkrar mínutur í hann. Við héldum að við gætum nú alveg lifað það af. Tíu mínutum seinna kom þjónninn aftur og sagði okkur að það væru ekki til neinar franskar. Við sögðum honum að það væri svosem allt í lagi ef hann hundskaðist til að koma með hamborgarann strax. Það leið ekki langur tími þar til þjónninn var kominn aftur með þau skilaboð frá kokkinum að það væru ekki til hamborgarar. Við vorum orðin mjög pirruð og sögðumst þá ætla að fá pylsur. Nokkrum mínutum seinna kom hann aftur og sagði að það væru ekki til pylsur og það væri eiginlega ekki til neitt í eldhúsinu. Við urðum brjáluð og brunuðum til baka í Borgarnes til þess að fá okkur að borða. Þar fengum við hamborgara en þar sem staðurinn var að loka þurftum við að borða þá út í bíl.
Svo keyrðum við áfallalaust í bústaðinn. Þar létum við okkur líða vel og ætluðum að sofa vel út daginn eftir. En ekki varð raunin sú. Klukkan sjö um morguninn byrjaði maðurinn í bústaðnum við hliðina á okkur að slá lóðina sína. Það var ekki meira sofið þann morguninn. Eftir að við höfðum legið í sólbaði og fengið okkur hádegisverð ákváðum við að skella okkur í sund. Við vorum að spjalla í rólegheitunum í heita pottinum þegar það fór skyndilega að rigna úldnum þorskhausum í pottinn. Við pottinn var hár veggur og fyrir ofan hann var bílastæði. Á bílastæði var vörubíll sem hausarnir duttu af. Við vorum ekki lengi uppúr og rifum kjaft við vörubílstjórann sem sagði að þetta hefði verið óvart og vildi ekkert fyrir okkur gera.
Það var allt í rúst á pallinum þegar við komum aftur til baka. Það hafði komið refur og tekið kjötið sem við höfðum ætlað að hafa í kvöldmatinn. Ekki var kvöldmaturinn kræsilegur það kvöldið en hann samanstóð af snakki og skyri.
Eftir kvöldmat ákvað ég að fara í minigolf á velli í nágrenninu. Helga og Ásta skutluðu mér á völlinn og fóru svo í bíltúr. Þegar ég var nýbyrjaður ætlaði ég rétt að tilla mér á brautina. Það vildi svo óheppilega til að ég hitti ekki á brautina og datt. Í fallinu bar ég hendurnar fyrir mig en önnur höndin lenti í holu og allur líkaminn á eftir. Sársaukinn var óbærilegur. Ég var nokkuð viss um að ég væri handleggsbrotinn. Þegar ég tók upp símann til að hringja í Helgu sá ég mér til skelfingar að hann var orkulaus. Þar sem það var enginn á golfvellinum og langt í næsta síma ákvað ég að labba heim. Þegar ég var tæplega hálfnaður fór að rigna og ég þurfti að ganga restina í dembunni. Eftir rúmlega klukkutíma göngu kom ég loksins að bústaðnum. Þar voru stelpurnar bara í rólegheitunum að horfa á sjónvarpið. Ásta keyrði mig í Borgarnes þar sem læknir staðfesti þann grun minn að ég væri handleggsbrotinn. Hann lét mig í gifs og lét mig fá verkjatöflur og sendi okkur svo aftur í bústaðinn.
Helga og Ásta sváfu til hádegis en ég lá andvaka alla nóttina vegna sársauka. Við nenntum alls ekki að vera í þessum óhappabústað lengur og lukum tiltekt á fimm mínutum. Við vorum búin að keyra í nokkrar mínutur þegar við komum að skriðu sem hafði fallið á veginn. Okkur var sagt af manni sem var þarna að það væri ekki hægt að koma með tæki til að laga veginn fyrr en rigningunni slotar.
Nú sit ég og pikka þetta í tölvuna með annarri hendinni í rigningunni…
Allt hefur enda, pylsa hefur tvo.