Maðurinn nam staðar og leit aftur fyrir sig. Hann var einn, eða hvað?
Hann stakk hægri höndinni í innanávasann og dró út furðulega skammbyssu sem virtist ekki jarðnesk. Bláir fingurnir krepptust um gripið og hann miðaði á myrkrið, enginn þar. Hann andaði frá sér, helvítis veðravíti var á þessari plánetu hugsaði hann með sér. Hann leit niður og þreifaði á maganum. lítið gat var neðarlega við mjöðmina, djöfull var þetta sárt. Annað hjartað myndi hætta að slá bráðum. Hann teygði sig í vinstri frakkavasann og tók upp sporöskjulaga box, setti að munninum og ýtti á lítinn takka. Grænt ljós blikkaði nokkrum sinnum áður en lítið píp heyrðist og hann setti tækið aftur í vasann. Loftið þarna var heldur ekkert að gera honum gott. Hann leit aftur í kringum sig.
Alsvört augun skimuðu um. Andlit hans var keimlíkt því sem innfæddir höfðu, bara teygðara, nefið nær ekkert, og kinnbeinin mun stærri. Svo var húðliturinn blár en ekki bleikur. Forljótur liturinn á þessari tegund hugsaði hann með sér. Jarðarbúar, úff hvílíkir stjörnuglópar, haldandi að þeir séu herrar heimsins og engin annar lifi utan þessa hnötts. Hann dæsti.
Leiðangurinn var búinn að vera helvítis klúður frá byrjun. Byrjaði sem einföld veiði, en snérist upp í það að nú var hann að flýja. Hvernig átti hann að vita að fíflið átti vini hérna?
Og með fullkomin vopn sem áttu ekkert heima á þessari plánetu?
Hann bölvaði sér í hljóði, hann var úrvals mannaveiðari, þénaði vel og lifði vel, vann sín verk fljótt og vel. Þetta verk var ekki á þeim lista.
Rigningin virtist aukast, hann leit í kringum sig að skjóli, sá ekkert nálægt nema þetta tré sem hann stóð undir og veitt nær ekkert skjól. Kannski hann ætti að koma sér áfram, frekar heimskulegt að standa þarna eins og stytta. Hann athugaði orkuna á byssunni, ok allt í fína, áfram nú.
Hann gekk áfram, kannski gæti hann komist inní þessa byggingu rétt hjá, hún virtist mannlaus.
Allt í einu fann hann ógurlegan sting í bakinu, hár smellur fylgdi úr fjarska. Hann krepptist saman og féll niður, helvítis sagði hann upphátt, þeir náðu mér. Hann saup hveljur er hann lenti með andlitið ofan í polli og reyndi að reisa sig við, gekk erfiðlega. Hvaðan kom skotið? Hann teygði sig í byssuna, snéri sér við á malbikinu og leit uppí rigninguna. Sársaukinn var orðinn of mikil, þrátt fyrir sársaukaþol hans sem var gífurlegt. Hvað í fjandanum var í þessum skotum? Allur líkaminn virtist alsettur grófum nálum sem stungust í hvert einasta líffæri með groddaralegum stungum. Hann reyndi að anda hægar en andrúmsloftið var orðið of mett af súrefni. Hann reyndi að öllu afli að standa upp, datt aftur, engin orka eftir.
Í gegnum rigninguna og myrkrið gekk hávaxin vera hratt að honum þar sem hann lá og miðaði skyndilega stórum hlut sem líktist pumpuvatnsbyssu, nema þessi byssa var úr skínandi málmi.
Veran leit niður á mannaveiðarann, sagði ekkert.
“Jæja, láttu vaða helvítið þitt, segðu svo hetjusögur af því hvernig þú kálaðir mesta mannaveiðara vetrarbrautarinnar!” muldraði hann og hrækti dökkbláu blóði í átt að verunni.
Veran svaraði engu, hann horfði í augu hennar, þessi asni hataði hann sjálfsagt af lífi og sál, hver myndi ekki gera það. Flestir sem þessi náungi þekkti voru dauðir, og hverjum var það að þakka.
Veran reisti byssuna og miðaði framan í mannaveiðarann. Jæja, deyja við að gera það sem þú elskar ekki satt hugsaði hann með sér áður en gult ljós blindaði hann og veröld hans splundraðist.
Lágar þrumur heyrðust í fjarska í myrkinu og rigningin skolaði blóðinu af ókennilegri veru sem lá við endan á litlu bílaplani.
—–