Þegar ég vaknaði í morgun var allt eins og venjulega, Áróra lá malandi við hliðina á mér og Máni hrjótandi hinumegin. Ég lá þarna í smástund og hugsaði, ég minntist gamla tímans þegar ekkert var öruggt, þegar ég lifði í ótta á hverjum degi, ótta við hann.
Úti var glaða sólskin og ekki eitt einasta ský sjáanlegt á himnum, loksins var sumarið komið eftir þennan langa og dimma vetur. Áróra horfði stórum augum út í heiminn, hún starði með löngun á stóra fiskiflugu sem skreið á úthlið gluggans.
Ég labbaði fram, setti kaffikönnuna í gang og gaf Áróru. Svo fór ég aftur inn í herbergi og vakti Mána, hann var úrillur eins og venjulega. Við borðuðum saman morgunmat en svo fór hann í vinnuna. Áróra hljóp út þegar hann opnaði, fór sjálfsagt að elta fiskiflugur og fiðrildi.
Ég skellti mér í sturtu en ákvað svo að labba í bæinn, kíkja kannski á kaffihús. Ég sá hann þegar ég kom á Laugaveginn, þarna stóð hann fyrir utan Mál og Menningu og glápti á mig. Ég stakk mér inn í Japis og þóttist vera að skoða geisladiska. Eftir hálftíma þorði ég loksins að kíkja út, hann stóð þarna enn og starði á mig, ég hrökk við og bakkaði aftur inn í búðina.
Ég fann hjartað berjast í brjósti mér, ég fann hárin rísa á höfði mér, hann hafði alltaf þessi áhrif á mig í gamla daga, hvað var hann að gera þarna? Var hann aftur byrjaður að elta mig?
Ég tók þá ákvörðun að fara, labba út og ef hann elti mig þá hlypi ég bara niður á lögreglustöðina í tollhúsinu. Ég gekk af stað, leit ekki einu sinni í þá átt sem hann hafði verið, gekk bara af stað. Ég fann þessa gömlu ónotatilfinningu rísa upp, einhver var að horfa á mig, ég hraðaði för minni og var á endanum farin að hlaupa, ég hljóp og hljóp.
Allt í einu var ég komin langleiðina niður á höfn, þar fór út um það plan mitt að fara á lögreglustöðina. Ég snarstoppaði og snéri mér við, hann stóð á móti mér, ekki meira en í svona 10 metra fjarlægð, hann starði á mig, mér leið eins og hjálparvana mús á flótta undan hrömmum arnar. Ég veit ekki hvað kom yfir mig en eitthvað var það því ég fór að labba í áttina að honum, starandi beint í augun á honum. Þegar um tveir metrar voru á milli okkar stoppaði ég.
„Af hverju ertu að elta mig?“ spurði ég með mjóróma rödd. Hann starði á mig, ég starði á móti, en svo gerðist það undarlega, hann snéri sér við og gekk í burtu.
Þegar hann var kominn í hvarf brotnaði ég niður, ég lét mig falla á jörðina og fór að hágrenja, ég hugsa að ég hafi verið þarna í hálftíma áður en ég loks gat staðið upp og gengið af stað, ég gekk heim.
Þegar ég kom heim var klukkan ekki nema fjögur og ennþá tveir tímar í að Máni kæmi heim og Áróra var ennþá úti þannig að ég var ein í íbúðinni fyrir utan gullfiskinn. Ég settist niður við eldhúsborðið eftir að hafa náð í dagbókina mína og fór að skrifa niður varfærnislega allt sem gerst hafði í dag.
Eftir einhvern tíma heyrði ég hringlað í lyklum fyrir utan, mér datt ekki annað í hug en það væri Máni, reyndar var enn tæpur klukkutími þangað til ég átti von á honum. Ég fór og opnaði hurðina og gerði mig tilbúna til að heilsa en sá hann þá. Ég öskraði og skellti hurðinni á hann, hljóp inn í eldhús og náði mér í stærsta eldhúshnífinn sem ég átti og hljóp svo inn í svefnherbergi og læsti á eftir mér.
Ég heyrði hann koma inn í íbúðina, ég rak augun í gsm símann minn og hringdi í lögregluna, ég sagði manninum sem svaraði allt sem mér datt í hug að segja honum, ég held ég hafi jafnvel sagt honum skóstærðina mína, hann sagðist ætla að senda einhvern á staðinn og jafnframt sagði hann mér að vera róleg.
Ég heyrði að það var einhver fyrir utan svefnherbergishurðina mína að reyna að komast inn, og tók fastar utan um hnífinn og lagði símann frá mér, allt í einu hrundi hurðin inn og þarna stóð hann og starði á mig, ég otaði hnífnum í áttina að honum en hann glotti bara, hann labbaði í áttina að mér, ég herti jafnvel enn takið utan um hnífinn, hnúarnir á mér voru farnir að hvítna, þegar ekki nema hálfur faðmur var á milli okkar rétti hann út hendina og bjóst til að taka hnífinn úr hendi minni, þá gerði ég það, ég stakk hann, ég notaði alla mína krafta til að stinga hnífnum í hann, ég stakk hann í bringuna vinstra megin, hef líklega hitt stóra æð eða jafnvel hjartað því blóðið dældist úr honum eins og hann væri vatnsblaðra sem ég hafði sprengt. Hann datt aftur fyrir sig og þarna stóð ég með blóðugan hníf í hendinni öll rennblaut af blóði og svita.
Ég stóð þarna þar til lögreglan kom og leiddi mig útúr húsinu inn í lögreglubíl, nú sit ég inni í yfirheyrsluherbergi niðri á lögreglustöð og bíð eftir manni að nafni Bergur, ég vona að Bergur skilji mig jafnvel og þú.
Ég bara man ekki hvort ég hef sent þessa sögu inn áður eða ekki… Ég fann hana allavegna ekki við leit…
Just ask yourself: WWCD!