Ljósbjarmarnir ofan af hæðinni lýstu upp litla þorpið á þessari tunglbjörtu Desembernótt.



Ég geng hægt upp malarveginn, tunglsljósið lýsir upp mjöllina allt í kring og ég feta hjólförin eftir veginum.
Dagurinn er búinn að vera erfiður, vinna og svo stanslausar fótboltaæfingar allt kvöldið. Ég dreg vinstri ermina aðeins upp til að líta á úrið og sé að klukkan er korter gengin í ellefu á þessu fallega kvöldi.

Ég lít í átt að húsinu mínu, þessu stóra fallega timburhúsi sem stendur og vakir yfir bænum eins og kastali. Og sé, mér til mikillar undrunar, að það virðast öll ljós í húsinu vera kveikt miðað við bjarmann úr hverjum einasta glugga.
Hvur fjandinn gæti verið í gangi, ég er alveg steinhissa.
Það ætti enginn að vera þarna inni. Það er engin sem fer heim til mín. Þetta er undarlegt.
Þegar ég kem að heimreiðinni uppgötva ég fleiri hluti. Í fyrsta lagi liggja engin hjólför að húsinu og aðeins ein fótspor liggja frá húsinu og eru þau eftir mig síðan um morguninn.
Og í öðru lagi heyri ég öskur innan úr húsinu, langt öskur sem að hættir ekki.
Undarlegt öskur, meira eins og langt samfleytt væl sem fær hárin til að rísa.
Ég kannast við það þótt ég vilji ekki trúa því.

Nú fer ég að verða hræddur, og hugsanir þeytast um hausinn á mér.
Ég gengi hægt upp á veröndina og lít inn um gluggann í anddyrinu. Ljósin eru kveikt en það lítur allt mjög friðsamlega út innandyra. Þótt vælið gefi allt annað til kynna.
Ég opna hurðina hægt, renni íþróttatöskunni af bakinu og legg hana í hornið. Ég rölti inn í eldhús og átta mig á því að ég er skíthræddur við að slökkva ljósin, ég vill ekki vera í myrkrinu.

Vælið berst úr útvarpinu í eldhúsinu, ég ýtti takkanum á “OFF”. Vælið heldur áfram svo ég kippi tækinu úr sambandi og kaldur sviti sprettur fram þegar tækið hættir ekki að væla. Ég hendi tækinu í gólfið og fer að sparka í það þangað til það liggur í bútum á gólfinu, þá loksins þagnar það.
En Þá heyri ég að hljóðið berst einnig úr stofunni.
Ég geng inn í stofu og sé að það er kveikt á sjónvarpinu, á skjánum er mynd af hníf sem er alblóðugur og sama væl og var í útvarpinu berst úr hátölurum sjónvarpsins.
Ég kannast við fleira en hljóðið og í brjálæðiskasti sparka ég af öllu afli í sjónvarpið svo að það flýgur í gólfið. Við það hverfur myndin en hljóðið berst áfram úr hátölurunum af sama krafti og áður.
Allt í einu tek ég á rás fram í anddyri og upp stigann, beint inn í svefnherbergi, inn í skáp og gríp hafnaboltakylfu sem stendur þar upprétt út í horni. Á leiðinni út úr herberginu slæ ég í ljósakrónuna svo bæði hún og peran fara í mola og dreifast um herbergið.
Alla leiðina niður í stofu slæ ég allar perur sem fyrir mér verða og glerbrotin fljúga í allar áttir svo að um allt er glerbrotaslóð. Síðan hleyp ég að sjónvarpinu og rek kylfuna af öllu afli í gegnum það. Við það dofnaði hljóðið og hvarf loks alveg.

Ég sest í sófann, alveg út í hornið svo að ég sé viss um að ekkert komist aftan að mér og skelf af hræðslu, ég horfi stanslaust í kringum mig. Býst við einhverju, einhversstaðar. Ekkert gerist.

Ég tek ákvörðun og rís á fætur, geng að veggnum og ýti á rofann til að slökkva ljósið en ekkert gerist. Ég geng þá inn í eldhús og opna dyrnar niður í kjallara, þar er allt upplýst eins og annarsstaðar.Ég geng niður og beint að rafmagnstöflunni og opna hana og er við það að slá út aðalrofanum þegar að ég heyri það.
Virkilega lágt væl, bara rétt svo það heyrist.
Ég hlýt að vera geggjaður og ég lít til vinstri, á borðinu liggur alblóðugur hnífur, og þarna er nýmúraður veggurinn. Þaðan kemur vælið, innan úr veggnum.
Ég gefst upp,ég get þetta ekki lengur.
Ég sæki tvo bensínbrúsa sem að ég á þarna í kjallaranum og fer upp á efstu hæð og með þetta kvalarfulla væl fyrir eyrunum fer ég að skvetta bensíni um allt hús.
Þegar því er lokið sest ég í tröppurnar á stiganum og kveiki á Zippo kveikjaranum mínum.
Ég mun ekki geta lifað svona, þessir hlutir munu ásækja huga minn þar til yfir lýkur.
Ég sleppi kveikjaranum og halla mér upp að veggnum.
Ég heyri vælið á meðan eldtungurnar sleikja líkama minn og ég finn að ég á hverja einustu kvalarfullu mínútu skilið. Ég kveikti minn eiginn hreinsunareld.
Ég er gersamlega búinn að missa vitið.



Ljósbjarmarnir ofan af hæðinni lýstu upp litla þorpið á þessari tunglbjörtu Desembernótt.