Ég hef safnað hálfslíters kókflöskum í gluggann til þess að telja… Telja hvað? Dagana? Vikurnar? Árin? Nei, ætli ég hafi bara ekki nennt að henda þeim. Hitt hljómaði bara svo vel í takt við hjartslátt minn.
Það er mismunandi mikið eftir í kókflöskunum. Einn daginn, þegar þær eru orðnar miklu fleiri, ætla ég að raða þeim upp eftir því hvað það er mikið af goslausri sykursýru eftir í þeim. Fyrst byrja ég á tómu flöskunum og vinn mig síðan upp í þær sem eru hálffullar. Þá myndast aflíðandi kókbrekka upp í móti sem auðvelt er að fylgja. Núna mynda þær aðeins háar tröppur sem erfitt er að klífa.
Ég er á botninum, kókflaskan mín er tóm. Ég set hana í gluggann. Um leið verður mér litið út. Á himninum dansar tunglið, hvítt og glaðlegt, eins og það hæði eimsemd mína. Ætli það lesi hugsanir?
Ég reyni að leiða hugann aftur að byrjuninni. Leita skjóls í frásögn minni til tunglsins. Hvar byrjaði þetta? Hver eru orsök þess að ég sef ekki lengur á nóttunni, vaki ekki lengur á daginn? Kannski var það æskan. Átti ég erfiða æsku? Ekki svo ég muni.
Kannski eru það síðustu árin sem hafa gert mig svona. Vandamál heimsins hvíla á herðum mér, samt hlæ ég. Hláturinn og barnið innan í mér sjálfri eru eina undankomuleiðin.
Þó er ákveðinn hluti af mér sem virðist vera í lagi, þessi sem ég sýni fólkinu. Hann er skynsamur og góður leiðtogi, sannur vinur. Hinir hlutarnir eru ekkert efni fyrir blað. Kannski er það hann sem ég vil vera.
Eitt skref í einu.
Ég sný athyglinni aftur að kókflöskunum. Það er rétt svo botnfylli í einni. Ég set hana við hliðina á tómu flöskunni og tunglið blikkar mig. Brekkan stefnir upp.