Hann horfði á friðsælt andlit hennar. Það var bara eins og hún væri sofandi, friðsældar svipur var yfir henni. Hann gat ekki varist að taka eftir stallinum sem var á enninu hennar. Fjandans læknisfræðin; núna vissi hann að heilinn hennar hafði verið fjarlægður við krufningu og rannsakaður og þessi stallur þess vegna. Hann lokaði augunum og ímyndaði sér hvernig dagurinn hefði verið ef hún hefði ekki farið á vit feðra sinna. Hvernig þau hefðu boðið hvor öðru góðan daginn þegar þau vöknuðu og rifist um síðustu mjólkurdropana úr léttmjólkur fernunni.

Hann opnaði augun, en hún var ennþá ofan í kistunni með krosslagðar hendur og friðsældarsvipur prýddi andlit hennar, rétt eins og hún væri sofandi. Hann bjóst við því að á hverju andartaki þá myndi hún vakna og rísa upp úr kistunni og segja að þetta hafi verið mistök. Hann óskaði þess innilega að hann gæti vaknað, að þetta væri ekkert annað en hræðileg martröð. Hann dró djúpt að sér andann og teygði sig að kistulokinu hikandi, rétt eins og hann væri enn þá að vona eftir því að hún myndi vakna. Hægt og rólega lokaði hann kistunni og beið eftir því að hún myndi öskra stopp, að þetta væru mistök. Hann sá andlit hennar í síðasta sinn og gat ekki varist að leyfa einu tári, þó það væri nú ekki nema eitt tár, að renna niður kinnina. Hann vissi að hann myndi aldrei sjá þetta andlit aftur, aldrei kyssa þetta fallega andlit heldur mundi það liggja í kistunni þangað til að móðir jörð ákvæði annað. Hún var farin. Sál hennar var farin og ekkert var eftir nema líkami sálarinnar.

Hann stóð um stund fyrir framan kistuna hennar sem var prýdd blómum og einfaldur kross var á lokinu. Hann dró að sé djúpt andann og leyfði sér að muna hvernig hún hafði kvatt hann. Hann mundi hvernig hún hafði allt í einu byrjað að kasta upp, í miðjum skóginum. Sjúkrabíllinn hafði komið hálftíma seinna, en þá var hún gott sem farin. Hann mundi hvernig hún hafði legið í öndunarvél í þrjá, hörmulega daga, fullir ótta og sorg. Hann hafði farið heim til sín á þriðja degi, til þess að skipta um föt, og fékk þá símtalið sem hann hafði óttast. Hún var dáin. Meinafræðingurinn sagði að það hafði verði vírus, en það gerði sársaukann ekki bærilegri. Hún var farin.

Hann tók líkkistunaglanna einn á fætur öðrum og muldraði ljóð sem hann mundi eftir frá því í barnaskóla: -Til eru fræ, sem fengu þennan dóm, hvíslaði hann og kom fyrsta naglanum fyrir, -að falla í jörð og verða aldrei blóm, annar naglinn fékk sinn stað með hægum, vélrænum hreyfingum, -eins eru skip, sem aldrei landi ná, hann virti fyrir sér þriðja naglann gaumgæfilega áður enn hann kom honum fyrir, -og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá, fjórði naglinn datt á gólfið og hann beygði sig niður til að ná í hann þó að það væri meira en nóg af nöglum eftir, -og von sem hefur vængi sína misst, naglinn fékk sinn stað og þegar hann tók þann fimmta gat hann ekki varist að fella tár, -og elskendur sem aldrei geta mæst, hann hélt á sjötta og síðasta naglanum á milli fingurgómanna og beið enn eftir því að hann myndi vakna frá þessari hræðilegu martröð, -og aldrei geta sumir draumar ræst.

Hann snéri sér við og horfði yfir salinn sem var jafn tómur og sál hans þessa stundina. Aðeins hann, einn þarna á sveimi án þess að hafa hugmynd um hvernig það gerðist og af hverju. Hann gekk ofur hægt niður tröppurnar, frá altarinu og vonaðist til að vakna frá þessum draumi. Hann leit ekki til baka, hann var hræddur að ef hann myndi líta við þá væri hún endanlega farin. Hann dró að sér djúpt andan tók í þunga eikarhurðina og leyfði sér að líta á kistuna þar sem hún hvíldi í. Hann skildi það loksins. Hún var farin; hún var farin og kæmi aldrei aftur. Allt í einu hafði öll veröld hans hrunið eins og spilaborg. Sársaukinn helltist yfir hann í þeim mund er hann lokaði kirkjuhurðinni og horfði framan í dagsbirtina. Þetta var of fallegur dagur til að grafa svona fallega manneskju.



Ljóðið er “Til eru fræ” eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Það vantar endann og það er svona í heild sinni:

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.


Skrifað í minningu um litlu frænku mína, Kristina Sigrún, sem lést nú fyrir skömmu, rétt fyrir ferminguna sína.