Fyrsta greinin/sagan/whateverið mitt á huga. Ég vil byrja á því að segja að öll gagnrýni er vel þegin. Ég veit að málfræðin og/eða stafsetningin er ekki fullkomin og biðst forláts á því. Lesið og njótið(eða hatið)!


Þessi saga byrjar á nístingsköldu vorkvöldi. Ég hafði verið í gleðskap en hafði ákveðið að fara heim enda klukkan orðin margt og ég átti annríkan dag morguninn eftir. Þetta var stjörnubjart og afar fagurt kvöld, norðurljós dönsuðu um himininn og það voru fáir á ferli.

Þar sem ég geng um bæinn tek ég æ meir eftir því að leiðin þrengist og og mjókkar og þoka umlykur mig skyndilega og mig fer að svima. Af einhverjum ástæðum sem ég átta mig ekki á til dagsins í dag tek ég þessu sem sjálfsögðum hlut og held göngu minni áfram. Eftir einhvern tíma heilsar mér grænn gíraffi með mannshöfuð og kattarfætur.
“Komdu sæll!” segir hann. “Ertu nokkuð týndur?”
Ég varð í fyrstu pínu undrandi því eins og allir vita eru þess háttar gíraffar ekki vanir að vera á götum úti eftir klukkan 8 en ég svara engu að síður: “Nei, ég held ekki.”
“Jæja, maður getur víst ekki fengið allt.” segir hann. “Hvert ert þú annars að fara?”
Þessi spurning fellur af vörum hans um leið og það birtir til og ég sé götuna. Sú reynsla verður til þess að ég missi þráðinn: “Ég er að fara…”

Umhverfi mitt hafði breyst, ég átti erfitt með að koma auga á það í fyrstu en það fór ekki á milli mála: Húsin virtust öll vera á skakk og skjön og öll frá mismunandi tímabilum: strákofar voru við hliðina á tvíburaturnum New York borgar og pýramídi við hlið þess. Mörg hús voru greinilega ekki af jarðneskum höndum gerð og voru sum þeira gerð úr málmi eða kristal af einhverju tagi en önnur af málmi, við eða jafnvel mold. Einhvern veginn fannst mér eins og þetta væri sjálfsagður hlutur en fannst samt örlítið undarlegt hvernig allt virtist vera orðiðá ská einhvern veginn, eins og einhver hefði snúið heiminum fjörutíu og fimm gráður til vinstri.

“Heim…” enda ég setninguna en tek þá eftir því að gíraffinn er horfin og ég álykta að hann hafi haldið að ég væri eitthvað skrýtinn því ég stóð þarna horfandi út í loftið eins og bjáni.
Ég hristi höfuðið og geng af stað mér finnst eins og ég sé ekki á réttum stað og geng því af stað. Það er skyndilega kominn dagur og ég skil ekki hvernig það má vera þar sem mér finnst ég ekki hafa gengið það lengi…

Þar sem ég er gangandi tek ég eftir því hvernig gatan er undarlega löguð, öll hlykkjótt og gerð úr einhverskonar blöndu af mold, hellusteinum, málmi og einhverju efni sem einhvern vegin minnti mig á ský en var samt nógu þétt til þess að ganga á.

Ég sé ýmiskonar verur á göngu minni, moskítóflugur sem eru í laginu og svipað stórar og körfuboltar, þær stjórna sér með örlitlum fótum um allan líkama. Fólk sem er eineygt og bláhært og klæðir sig í græna kufla sátu á götuhornum og seldu vörur sínar sem yfirleitt voru matur af ýmsu tagi en þar sá ég einnig úr, fartölvur, dvd spilara, skæri og margskonar apparöt sem ég kunni ekki skil á. Fólkið á götunni var af öllum stærðum og gerðum. Sumir voru á stærð við maura en aðrir voru virkilegir risar, ákaflega langir en samt mjóir og nokkurn veginn mannlegir að sjá sem klofuðu yfir húsin og stikuðu varfærnislega yfir mannþröngina. För og útbúnaður þessa fólks var einnig frá öllum menningum tíðum og heimum, lófatölvur, fartölvur og farsímar voru stundum í farteski fólks sem gekk í fötum almennings miðalda og ferðuðust um í gufuknúnum bílum.

Hestvagnar, bílar og ýmiskonar svifnökkvar þutu um göturnar og skildu eftir sig rykský og loftbólur og hrossaskít. Þetta var samt allt þrifið af sjálfvirkum þjörkum á sumum götum en annars staðar voru menn með skóflur og kústa í þeirri vinnu. Alls staðar var fólk að byrja daginn og mér finnst ég byrja að skilja eitthvað en held þó göngu minni áfram.

Ég pota í öxlina á næstu veru sem ég sé, eða í það minnsta þar sem ég áleit öxlina vera. Veran gaf frá sér undrunaróp og snýr sér við. Mér til mikillar furðu sé ég að þessi vera er í raun samsafn af smágerðum málm og viðar hlutum sem snúast í kring um eitthvað sem ég ekki sé en finn þó fyrir.

“Hvað í nafni eilífðarinnar villtu mér!?” Spyr þessi vera með svo harmi sleginni og jafnframt fagurri röddu að ég tárast. Röddin var tær en þó eins og margir væru að tala í einu, hún var rödduð í mollhljóm sem gerði það að verkum að veran virtist enn sorgmæddari en í fyrstu. Þegar ég er búinn að jafna mig segi ég við veruna:
“Þetta er ekki heimabær minn er það nokkuð?”
“Þar hefur þú rétt fyrir þér” er svarið, “þetta er gat í tíma og ótíma þar sem allt fer í gegn um nema þeir og það sem þú sérð hér. Þetta er Ginnungagap. Allt sem er, var og verður safnast hér og til allrar óhamingju fyrir þig hefur þú álpast hér inn.”

Eftir þessi orð fýkur veran í burtu og skilur mig eftir á götunni með skikkjuna hennar í hendinni. Ég kasta yfir mig skikkjunni og held af stað á vit nýrra ævintýra í borginni miklu sem birtist mér í þokunni. Staðnum þar sem allt sem er, var og verður kemur saman. Staður þar sem allt er mögulegt.