Ekki beint smásaga heldur strætóatriðið í lengra skáldverki sem ég klára kannski einhverntíman.
Sagan gengur sem stendur undir vinnuheitinu “Ring!”
Hún segir frá 10. bekking sem heitir Magnfreð. Hann hundleiðinlegur uppreisnarseggur og snýst sagan um atburði sem koma honum til manns.



Hann stökk út og hljóp í átt að strætóskýlinu en þegar hann nálgaðist sá hann hvar strætó var að leggja af stað burt. Helvítið var 3 mínútum á undan áætlun. Hægt rölti hann áfram og settist niður í skýlinu. Næsti strætó yrði kominn eftir 10 mínútur og hann hafði ekkert betra að gera en að sitja og horfa út í loftið.
Hann leiddi hugann að skólanum. Hann hafði ekkert lært heima fyrir daginn í dag, hann lærði aldrei heima. Ekki endilega vegna þess að hann nennti því ekki, heldur vegna þess hve mikil erkifífl kennararnir hans voru að hann ætlaði svo ekki að gera þeim það til geðs að læra. Frekar sæti hann í kuldanum og finndi upp nýjar leiðir til að ná heimsyfirráðum.
,,Hvernig getur einn maður verið svona óheppinn.” Hugsaði hann: ,,Og hvað í ósköpunum voru foreldrar mínir að hugsa þegar þau skírðu mig.”
Hann hafði aldrei verið sáttur við nafnið sitt. Honum fannst skammarlegt að geta bara ekki heitið venjulegu nafni eins og meirihluti þjóðarinnar.

,,Jæja, svo núna hafði tíminn tekið upp á því að silast áfram, óútreiknanlegri en kona.”

Það voru enn 6 mínútur í strætóinn. Magnfreð vissi að ef hann stæði upp og gengi einhvern smáhring þá myndi hann missa af strætó, það væri of dæmigert. Svo hann ákvað að sitja áfram. Hann fann næstum lyktina af tímanum, sitjandi við hliðina á sér, ullandi. Maggi leit til hliðar og ullaði á móti. Hann fann enga þroskaðari leið til að svara áreiti tímanns.
Þegar strætó loksins kom steig Maggi um borð, hann veifaði útrunnu grænakortinu framan í útbrunninn bílstjórann sem tók ekkert eftir því frekar en vanalega. Maggi settist næst aftast. Hann hefði sest aftast ef þar hefði ekki verið fyrir gamall hlunkur. Þegar hlunkurinn fór að tala við sjálfan sig á leiðinni færði Maggi sig 3 sætum framar og hinumegin við ganginn.