Öfundsýki

Ég vissi aldrei að ég hefði þetta í mér.

Öfundsýki er svo ljótt orð, ekki bara ljótur gjörningur, heldur virðist orðið vera gegndreypa í illa lyktandi olíu sem að ég næ aldrei að þvo af höndunum. Alltaf þegar ég lít á hendur mínar sé ég þykka svarta olíu bletti, svo sterka að lyktin stingur nefið mitt og maginn veltist í ógleðiskasti.

Ég var einu sinni öfundsjúkur þegar ég var barn, þegar ég var í útlöndum með fjölskyldu minni og hin börnin sem ég kynntist fengu glænýjar litabækur frá sínum foreldrum. Ég átti víst nóg af blöðum og litum, skil það vel í dag að þú kaupir ekki það sem þú átt ofgnótt af. En sem barn var ég bálreiður og krotaði yfir öll blöðin í bókunum hjá hinum krökkunum. Það má víst segja að ég hafi verið mjög sjálfselskt barn, því mér datt aldrei í hug að stoppa og hugsa hvernig eiganda bókarinnar liði eftir að ég tók hana og skemmdi með stórum svörtum strikum. Þar sem litlausu myndirnar af Alí Baba, Mjallhvíti og Dúmbó lágu líflausar á pappírnum og biðu eftir að einhver gæfi þeim líf og lit. Ég var fljótur að drepa þær með kroti og innihaldslausri reiði sem að brann inní mér.

Þegar ég hugsa meira um það hef ég alltaf verið eins og þessar myndir í litabókunum, líf og litalaus skel sem að bíð eftir að einhver sakleysingi taki upp pennann og fylli mig lífi, en ég er enn fastur á blaðsíðu 8 með frosið bros og öskrandi á einhvern að opna bókina.

Öfundsýki hefur aldrei verið stórt hluti að lífi mínu eftir það, ekki þannig að ég muni neitt sérstaklega eftir að tilfinningin taki yfir og stroki út allar aðrar hugsanir, en ekki fyrr en nú. Svona hálfa leið í gegnum litabókina. Og ég vill meina að þetta sé ekkert rosalega óeðlilegt hugsun, ekki frekar en svengd eða gleði. Hvað sem það síðarnefnda er svo sem hér eftir, gæti það verið að eftir öfundsýki sé allt inn í okkur svo svart og rotið, að gleði neiti að stíga fæti þar aftur inn? Líkt og hálfdönsk gömul kona með flott ættarnafn neitar að stífa fæti inn í strætó?

Það er of fljótt að geta til um það held ég, meðan ég stend hér og hugsa þetta fara trilljón aðrar hugsanir í gegnum mig, allar neikvæðar. Streita, hræðsla, reiði, afneitun. Sjálfshatur. Mér langar mest að finna eitthvað annað, eitthvað annað en öfundsýki og ljótar hugsanir. Mér langar að vera hreinn og bjartur að innan á ný og vera nógu góður fyrir danska aðalinn sem að heldur í forna frægð. En það er bara ekki svo auðvelt þegar ég horfi á þig þarna. Eins og líflaus mynd af visnuðu blómi sem ber þunga veturs á herðum sér og hvað sem ég lita og lita, þá hverfur þunginn aldrei.

Stundum verður veturinn að vinna og kuldi, ógleði og olíurákir taka yfir svipmynd gleðinnar. Annars veit ég ekki, ég hef takmarkaða reynslu, hef ekki vitað til þess að neinn hafi enn fengið Doktorsgráðu í öfundsýki, en hver veit nema ég verði næsta undrabarn þjóðarinnar, ferðist um austur og vestur og kenni öllum glöðu börnunum að hugsa um sjálfan sig og engan annan, fá meira, stærra, betra og láta það ekki líðast að einhver annar eigi meira, stærra, betra en þú sjálfur.

Það var kominn smá litur inní myndina mína, þar til þú tókst upp pennan og skemmdir litabókina mína. Ég hata þig, og mun ávallt hata þig….þar sem þú liggur dauð og eldhúshnífurinn lyktar eins og olía.


Einar Sigurdsson, 2006.