Tannburstarnir sofa í litlu glasi á grænu hillunni og dreyma sæla drauma á meðan, við hlið þeirra, situr hálfkláruð geltúba; krumpuð, en hamingjusöm. Glær vatnsdropi lekur hægt niður gulan baðherbergisveggin og speglar sig í sjálfum sér. Ég sé spegilmynd hans í speglinum sem hangir á móti mér. Ég spegla mig í speglinum og horfi með furðu á holuna á enninu á mér.

Það er fimmtudagsnótt og ég hef uppgötvað að það er hola gat í enninu á mér. Ég vaknaði í nótt við tvo fugla að syngja fyrir utan gluggann minn, barátta um óðal. lítill stríðsdúett. Einsog í bíómyndunum stóð ég upp og fór inn á baðherbergi og sá þá þennan svarta punkt á enninu á sjálfum mér. Einsog rauði punkturinn sem indverskar konur ganga alltaf með, nema bara svartur. Svört hola.

Með fullri hugsun hleyp ég fram og tek upp síman. Ég er búin að stimpla inn 11 þegar ég stoppa. Ég frýs. Holan horfir á mig út frá sjálfri sér. Sjálfum mér. Sjálfri mér. Langar mig ekki að finna út hvað er þarna inni? Er ég forvitinn. Áður enn ég veit af er ég komin aftur inn á baðherbergi þar sem spegilmynd holunnar grípur heljar taki á heila mínum og stjórnar honum að vild. Öskrar á hann. Syngur.

Nú er ég búin að pota svolítið í holuna og mér sýnist hún bara vera að stækka. Og maður myndi nú bara vera hræddur við svona lagað vanalega en það vill svo til að ég er nú bara ekkert svo hræddur. Án þess að hugsa um afleiðingarnar tekur holan í hönd mína og leiðir hana að holunni og hún stækkar hana meira og meira. Ekki Hugleiðing. Á ég að halda þessu áfram? Já, ég held það. þetta gat hlýtur að þjóna einhverjum tilgangi. Það hlýtur að vera. Þetta er nú alls ekki af þessum heimi. Miðað við að það er hola á enninu á mér sem ég get stungið puttanum mínum inn í, og fundið ekki fyrir neinum heila, þá hlýtur þetta að vera einhverskonar yfirnáttúra.

Ég gref dýpra og dýpra en samt finnst mér eins og það sé eitthvað að koma út úr mér. Einsog það sé eitthvað afl að brjótast út úr mér. Á leiðinni að springa, á leiðinni að þjappast saman. Svo mikill þrýstingur. Svo dásamlegur þrýstingur. Ég gref og gref og nú er holan orðin á stærð við tennisbolta. Heilinn á mér segir mér að stoppa og hringja á sjúkrabíl en holan segir mér að grafa. Og ég grafa.

Nú er hönd mín komin inn í hausinn á mér alveg upp að olnboga. Inni í sjálfum mér er tóm, svart tóm. Svört hola. Svarthol. Tómt svarthol. Inni í sjálfum mér er logn einsog í geimnum. Samt er hin mesti jarðskjálfti að hrista tómið til og frá og að heimta að höndin fara dýpra á kaf. Í dýpstu höfum liggja innviði mín þar sem hönd mín kafar í myrkrinu og leitar að þeim. Leitar að þekkingu. Leitar að svari. Hvaða hola er þetta?

Ég toga höndina mína út úr holunni og horfi á puttana mína í smá stund en fatta svo að höndin mín er ennþá í holunni. Alveg upp að öxl. Og þrátt fyrir þessa ógnvænlegu staðreynd held ég áfram að troða hendinni lengra og lengra inn þar til hálf bringan er komin inn. Maginn. Hin höndin. Mittið. Lappirnar og svo loks hausinn sjálfur. Holan gleypir heilan og vinnur því. Þörf mín til þess að hringja á sjúkrabíl er farin, fyrir fullt og allt. Mig langar bara að vera hér að eylífu. Lifa í svörtu dimmu holunni minni. Lifa í sjálfum mér og njóta þess að vera ég. Að vera í mér. Að upplifa sjálfan mig að innan.

Skyndilega rek ég augun í spegilinn. Í tóminu er gat og það birtir í hugsun; rökhugsun. Ég sé sjálfan mig í speglinum, sem hangir við hliðin á skynseminni. Ég sé sjálfan mig í myrkrinu. Í litlu holunni minni. Í myrkri sjálfs míns. Og þá gerist það. Ég endurskapa hugsun mína og átta mig á aðstæðunum. Á þeirri staðreynd að ég lét holuna blekkja mig og nú er ég fastur.

Í skelfingu minni syndi ég af stað í hafdjúpum sjálfs míns í átt að gatinu sem mér sýnist vera að lokast. Von. Von um að gatið lokist ekki. ég verð að komast út. Út úr myrkrinu. Út úr sjálfum mér. Ég syndi eins og brjálaður maður en fer frekar hægt áfram. Er ekki viss um hvort gatið sé að lokast eða fjarlægjast en ég mun ekki gefast upp. Ég skal komast út. Skyndilega verður ótti minn að veruleika og myrkrið heltekur gatið, heltekur ljósið. Myrkur. Aðeins myrkur. Ég flýt aðeins um tómið og reyni að átta mig á sjálfum mér í smá stund, reyni að sjá sjálfan mig en það tekst ekki. ég er týndur meðal sjálfs míns. Týndur. Ég má ekki vera týndur. Má ekki týnast. Ég skal sleppa. Ég skal. Ég skal. Ég get ekki verið hérna inni lengur, verð að komast út. Í ljósið. Það er einsog það séu milljón huglægar nálar að stinga mig, að utan og innan. Að kvelja mig fyrir að hafa tekið vitlausa ákvörðun.

Þögn

Nei. Ekki meir. Í skyndilegu kasti tekst mér að grípa föstum tökum í tómið og af öllu alefli mínu toga ég þar til mér tekst að rífa tómið í sundur. Ljós. Ég kem í út um magann á sjálfum mér og skyndilega stend ég aftur og horfi á sjálfan mig í speglinum einsog ekkert hafi í skorist. Allt er eins. Tannburstunum dreymir, geltúpan er enn hamingjusöm og vatnsdropinn heldur en ferðalagi sínu niður veggin áfram. Allt er eins nema eitt. Holan er horfin.

Ég leggst aftur upp í rúm. Þögn. Fuglarnir eru hættir að slást um óðalið. Einn af þeim hefur unnið. Friður ríkir.
Ég heiti ekki gummi (og ekki heldur Guðmundur)…