Naflaskoðun
Mér hefur alltaf fundist dagurinn leiðnilegasti tími sólarhringsins, ég skil ekki afhverju þjóðfélagið breytir ekki skipulaginu og snýr öllu við, vinna á nóttinni og sofa á daginn, skemmta sér á daginn og horfa á fréttirnar á morgnana. Vöknum um kvöldmatarleytið og fáum okkur morgunmat, lesum kvöldfréttirnar og hefjum nýja nótt. Borðum hádegismat á miðnætti og hittum félagana á kaffihúsi upp úr fjögur.
Elskum makann um morguninn og verðum andvaka á daginn, allt lokað, allt sefur á daginn nema örfáir listamenn og heimspekingar og dagverðir og svo framvegis.
Ég sit og drep daginn, ég stíg út úr tímanum og vinka öllum ferðamönnunum í von um góða ferð og ég hugsa með mér sjálfum að lífið sé eins og fljót og fljótið er veglaus auðn eins og veruleiki minnar sálar.
Ég man þegar ég sat og talaði við stúlkuna sem ég þóttist elska, hvernig ég hvíslaði að henni orðum sem ég vissi ekki hvað þýddu, hvaða áhrif þau höfðu. Ég man hvernig hún grét þegar leiðir skildust, en ég grét ekki, ég skildi ekki og vildi sennilega aldrei skilja. Hún var númer allt, svo fögur svo brothætt og svo góð. Ég man hvernig hún ilmaði alltaf vel, hvernig hún talaði svo mjúkt og hvernig hún lagði áherslur á málið sitt með svo fínum hreyfingum sem voru eins og vel æfður dans.
Ég sit og hugsa með mér sjálfum hvort ég ætti að hringja í hana, biðjast afsökunar á einhverju sem ég skildi aldrei til fulls, segja henni að ég elskaði hana allan tímann, útskýra fyrir henni hvernig ég hafði ekki áttað mig á þessum sára sannleik fyrr en of seint, fyrr en hún var kominn með mann og hús og bíl og börn og allt það sem venjulegt fólk gerir.
En ég var aldrei venjulegur, ég vildi aldrei það sem hún vildi og hún vildi aldrei það sem ég vildi, ég hafnaði tímanum og deginum og því sem eðlilegt var, ég var óeðlilegur líkt og veglaus auðn minnar sálar.
Ég var fastur í ferðalagi, siglandi lítilli brothættri skútu inn í huganum á mér, ég veifa flutningaskipinu sem siglir framhjá mér svo fullt af minningum og þekkingu og reynslu, ég sigli framhjá veiðimanninum og spyr hvernig veiðin sé í dag og hann svarar
- Það er helvítis bræla í dag.
Ég kveð og held áfram minni stefnulausu siglingu og mæti annari stúlku.
Ég man hvernig ég hitti hana, svo drukkin og dimmur og svo uppfullur af sjálfshatri og reiði í garðs alls. Ég man hvernig ég heilsaði henni og kyssti og strauk hana svo létt.
Ég man hvernig við lágum heima hjá henni og allt varð að klaufalegu káfi og óvissu hvað við vorum að gera og hvers vegna. Hvorugt okkar skemmti sér og hvorugt vildi sjá hvort annað aftur. Ég man eftir andleysinu sem einkenndi undarlegar tilraunir okkar til þess að vera eitt. En mér þótti vænt um hana og á einhvern undarlegan hátt þá hugsaði ég alltaf hlýtt til hennar.
Ég sigli framhjá illa förnu herskipi sem greinilega hafði tapað orrustunni, hermennirnir sátu á þilfarinu með uppgjafarsvip og andlausir, bardaginn var erfiður og þeir töpuðu, sátu á sökkvandi skipi hugsandi um fjölskyldur sínar heima og líf sitt sem þeir myndu brátt tapa.
Og ég man hvernig myrkur færðist rólega yfir huga minn, ég gerði ekkert til þess að stoppa það, ég drakk þar til vitund mín var floginn frá mér, orð mín voru blóðug spjót sem iðullega beindust að henni, spjót sem klufu brothættan huga hennar miskunarlaust. Og hún hætti að tala við mig, mig sem var svo uppfullur af sjálfsvorkun og myrkri og andleysi. Ég þekkti mig ekki, hún þekkti mig ekki.
Ég man þegar ég reyndi að mæta í skólann og hvernig ég reyndi að sitja og læra, en ég lærði ekkert, ég horfði á hana þar sem hún sat á móti mér, svo glöð svo ánægð með nýja lífið sem hún hafði eignast með honum, ég var ekki lengur til frekar en fortíðin sem hafði verið afmáð með einu pennastriki. Ég var draugur sem hírðist í þögn, einu hljóðin sem ég heyrði voru öskur að innan, öll þessi reiði, öll þessi heift og sjálfstortímingarhvöt sem bærðust inn í brjósti mínu. Hugurinn keflaður, einhver fangi síns sjálfs.
Ég vildi tala við hana, ég kunni bara ekki nógu fallegt tungumál sem var henni sæmandi, orð sem á uxu vængir sem myndu flögra eins og lítil fiðrildi inn í hjarta hennar, ég kunni bara orð sem á uxu eldvængir og brenndu upp þetta stolta brjóst hennar.
Stundum grét ég blóði og stundum andaði ég reyk, stundum ýmindaði ég mér heim, þakinn ljósi og í honum miðjum sat hún og hló, stundum dreymdi mig lítið barn sem var myrt miskunarlaust og draumurinn endurtók sig aftur og aftur. Og ég var að verða geðveikur í einhverri aumkunarverðri naflaskoðun, þóttist vita allt og vera allt, “ég er snillingur” hugsaði ég með mér vitandi að ég var bara enn eitt meðalljónið.
Og ég man þegar ég hugsaði ekki neitt og mér leið vel
Ég sigli brothættri skútu og skútan lekur, ég byrja að ausa vatni en ekkert gengur, gatið er of stórt. Skútan sekkur og ég vakna.
Það er komið kvöld, ég les kvöldfréttirnar og undrast á því afhverju þjóðfélagið snýr ekki bara öllu við.