Þriðjudagurinn 2. febrúar 2004


Ég gat ekkert gert.. ég stóð sem lamaður og horfði á strákana lemja litla bróður minn.
Hvað átti ég að gera ? Ég var einn á móti þeim fimm.
Ég hef ekkert í þá svona marga, ég veit alveg að ég gæti tekið hvern þeirra og lamið ef ekki væri fyrir hina, þeir eru jú árinu yngri,
Leibbi litli var hættur að öskra og skæla… og strákarnir virtust ekkert kippa sér upp við það að hann þagnaði skyndilega.
Þeir héldu bara áfram að sparka í hann liggjandi og hlægja, HLÆGJA!

“Aumingjar!” öskraði ég og öskraði eftir að ég fékk tilfinningu í líkamann aftur. “Hvurslags eiginlega helvítis aumingjar ráðast fimm saman á 12 ára krakka útaf engu?”
Ég var byrjaður að labba í áttina að þeim frekar hratt og hugsaði með mér að mér væri alveg sama hversu margir þeir eru… ég læt þá bara lemja mig, bara svo lengi sem þeir láta Leibba vera!

Hver eftir öðrum fóru þeir að taka eftir því að barsmíðarnar höfðu leitt af sér hræðilegar afleiðingar. Leifur lá hreyfingarlaus og gaf ekki frá sér múkk.
Strákarnir urðu skelfingu lostnir þegar þeir tóku eftir því að Leibbi hreyfði sig ekki, og þeir tóku á rás.
Ég öskraði á eftir þeim að ég myndi finna þá og mæður þeirra myndu ekki þekkja þá eftir barsmíðarnar sem kæmu hver eftir annarri.

Ég tók Leif í fangið og reyndi að vekja hann. En hann vildi ekki opna augun. Ég byrjaði að gráta því ég óttaðist það versta.
Ég sat svo með hann hágrátandi, reynandi að tala við hann og hlustandi eftir andadrætti í marga klukkutíma að mér virtist… “VAKNAÐU LEIBBI!” “VAKNAÐU!!!!”
Hann hreyfði sig ekki…
Ég þreifaði eftir höndinni á honum og ríghélt í hana…
Fólk var farið að koma á bílastæðið þar sem ég sat með bróður minn og horfði angistarfullt á. Ég heyrði óljóst að einhver var að reyna að tala við mig. “égherbinnadhrngasjkrbil” ég snéri mér við með tárin í augunum og leit á manninn. Hann endurtók setninguna “Ég er búinn að hringja á sjúkrabíl”.

Ég þóttist ekki heyra í honum og hélt fast utan um Leibba… og kallaði aftur og aftur á hann.. en hann brást engan veginn við.

Fáum mínútum seinna birtust einhverjir menn sem vildu taka Leibba frá mér. Ég harðneitaði og sagði þeim að þetta væri bróðir minn og það væri
ekki sjens í helvíti að þeir fengju að rífa hann frá mér, heldur skildu þeir hringja í mömmu okkar og segja henni að koma.
Þeir bulluðu einhverja steypu að mér heyrðist og það þurfti 3 fullorðna menn til að halda mér niðri eftir að þeir náðu Leibba frá mér og færðu hann á börum upp í bíl. Ég fór í blackout.

Ég vaknaði uppi á sjúkrahúsi, allt svo hvítt, “HVAR ER LEIBBI!?”
Ég kallaði á hjálp og kallaði á Leif en þegar ég reyndi að reisa mig við
fann ég mikið til í bakinu… Hjúkrunarkona kom inn og sagði, með gervibrosi, að þetta væri allt í lagi og ég skildi hvíla mig.
Ég spurði hana af hverju ég fyndi svona til í bakinu og hún kom með þá
skýringu að ég hefði tognað í bakinu og hefði svo fengið heilahristing þegar mennirnir reyndu að snúa mig niður í bræðiskasti mínu.

Það rann upp fyrir mér rétt áður en ég sagði eitthvað meira að mamma var ekki heima. Hún var á Spáni.
“Hvar er Leifur?” spurði ég. “Litli bróðir þinn?” spurði hjúkrunarkonan.
Og ég kinkaði kolli, “jaa.. sko.. bíddu aðeins”.. hún labbaði út án þess að svara mér.

Mér leið illa, virkilega illa, ekki af því að mér verkjaði í bakinu heldur af því að ég hafði áhyggjur af Leifi…



Mánudagurinn 8. febrúar 2004


Leifur var dáinn. Ég vildi ekki trúa því.
Þessi litli snáði sem var svo góður, alltaf brosandi og í góða skapinu.
Hann gerði ekki flugu mein… En svo er hann tekinn frá mér.
Guð tekur víst góðu sálirnar fyrst.
Mamma kom heim með næsta flugi eftir að henni var tilkynnt ástandið.
Mamma er hljóð. Ég er allur að koma í bakinu þannig að ég hef verið að hjálpa mömmu mikið.
Jarðarförin hans Leifs var í gær.
Bubbi kom og spilaði Kveðju. Þetta var falleg athöfn, það eina sem vantaði var pabbi. Pabbi var sjómaður.
Hann passar upp á Leif núna.
Ég sá strákana fimm um daginn. Og það sást ekki á þeim nein skömm.
Eitt er víst, ég á aldrei eftir að fyrirgefa þeim þetta…









Vil taka það fram að þetta er mín fyrsta tilraun…
“Jesus is coming…”