Ást getur verið svo margt.

Litlir krakkar að leika sér saman, deilandi dótinu sínu, passandi upp á hvern annan.

Foreldri að fylgja barninu sínu í skólann á fyrsta degi.

Krakki að benda foreldrum sínum vinsamlegast á Enter-takkann á tölvunni í stað space-takkans.

Fullorðinn maður sem berst með kjafti og klóm ef einhver fer illa með vini hans.

Og margt, margt fleira.

Ein tegund af ást er þó frægust, enda er hún þeirra best, en einnig er hún þeirra verst. Rómantísk ást, þegar manneskja elskar aðra manneskju andlega sem og líkamlega. Þegar tveir einstaklingar faðmast, kyssast og elskast einsog enginn væri morgundagurinn - Hin fullkoma ást.

Jón hitti nýlega stelpu, hana Gunnu. Hún er falleg, skemmtileg og gáfuð - auk þess sem hún er með einstaklega krúttlegt nef. Gunnu finnst Jón myndarlegur, skemmtilegur og sjálfstæður - auk þess sem hann er með einstaklega falleg augu.

Jón elskar að eyða tíma með Gunnu, honum finnst gaman að labba með henni, honum finnst gaman að tala við hana og honum finnst gaman að stríða henni - auk þess sem hann elskar hláturinn hennar. Gunnu finnst gaman að labba með honum, tala við hann og henni þykir það lúmskt gaman þegar hann stríðir henni og á það til að stríða á móti - auk þess sem hún elskar hvað hann er uppátækjasamur.

Jón getur ekki hitt Gunnu oft - Gunna býr langt í burtu. Kannski í öðru landi, kannski í öðrum bæ, kannski í annarri sveit. Enginn veit það og það skiptir voðalitlu máli.

Jón og Gunna eyða hverri mínútu sem þau geta með hvort öðru þegar þau geta hist. Þau fórna svefni, heilsu og almenningsáliti - Bara til að eyða nokkrum yndislegum stundum saman. Þá gera þau margt af því sem ég nefndi hér ofar að þau elskuðu að gera.

En Gunnu finnst leiðinlegt þegar Jón þarf að fara - hún á erfitt með að höndla söknuðinn. Jóni leiðist líka að fara - Honum líður alveg jafnilla þegar þau eru ekki saman.

Einn daginn getur Gunna ekki meir - Hún segir Jóni að hún geti ekki kysst hann lengur. Það sé of erfitt þegar hann þarf alltaf að fara, svo það sé best fyrir þau að hætta þessu - Annað myndi fara með heilsu þeirra. Jóni finnst þess virði að líða illa þegar þau eru ekki saman á móti tímunum sem þau eru saman - En hann sættir sig við hennar ákvörðun.

Gunna er núna algerlega í rústi. Jón er núna algerlega í rústi. Góða hliðin á ástinni var horfin, sú slæma kíkti í heimsókn.

Jón sendir Gunnu bréf - Hann á erfitt með að lifa án hennar og vill fá hana aftur. Gunnu líður illa og vill hata hann - Hann lætur henni líða svo vel með honum en svo illa án hans.

Bráðlega fer Gunna að svara bréfunum - Hún á einnig mjög erfitt með að lifa án hans. Þau ræða um ýmislegt og áður en langt um leið hittust þau aftur - Í fyrsta sinn síðan Gunna sagði Jóni að henni liði svo illa án hans.

Fyrstu skiptin eru eilítið skrítin - Það var svo skrítið að hittast án þess að byrja á að kyssast.

En þau komast yfir það fljótlega og bráðlega eru þau orðnir perluvinir aftur og geta gantast einsog áður - Allt verður einsog áður.

Nema að kossarnir, faðmlögin eru ekki til staðar.

Það verður að bíða betri tíma - Þegar Jón og Gunna geta búið nær hvort öðru.

Á meðan eru þau bara vinir.

Ástin er enn til staðar - En hún bíður betri tíma.

Jón ræktar ástina hjá sér. Gunna ræktar ástina hjá sér.

Og á endanum fá þau hvort annað.

Ef þau bara bíða þolinmóð.