Ég hendist áfram, ég ræð ekki við þetta, hef ekki stjórn á eigin líkama, hef ekki stjórn á eigin sál. Hver er ég? Ég veit ekki neitt, man ekki neitt, á ekki neitt. Engar minningar, ekki neitt. Mér er kalt, ég skil þetta ekki, hvar er ég? Allt er dimmt, og ég sé ekki neitt, ekkert.
Ég hendist áfram í myrkrinu og sé að ég er ekki ein, allt í kringum mig eru fleiri, og öll þjótum við niður á fleygiferð, alein og enginn hefur tíma til að hugsa um annan en sjálfan sig. Ég lít í kringum mig og hugsa hvort heimurinn sé virkilega svona, tómur.
Allt í kringum mig skýst… hvað eru þau? Hvað er ég? Ég man ekki neitt, hugur minn er svo tómur, en við erum öll eins, en samt ekki, öll svo lík, en engin eins.
Mér sortnar fyrir augun, og hraðar og hraðar hrapa ég niður, og ég finn það á mér að ég nálgast endalokin.
Ég kem aftur til meðvitundar, en ég fer ekki lengur hratt, heldur svíf hægt og rólega niður, ég lít í kringum mig og sé að nálægt mér er einhver. Ég reyni að kalla, en það kemur ekkert hljóð, ég reyni og reyni, en þá átta ég mig á því að ég get ekki talað. Ég hugsa, hugsa og hugsa og einbeiti mér, óska mér af öllu hjarta að þessi vera þarna, sem svífur við hlið mér heyri hugsanir mínar. Og ég fæ svar…
“Hvað er ég? Hvað erum við?” ég er hrædd, ég skil þetta ekki, finn ekki neitt, nema að mér er kalt og að endalokin nálgast.
Hún svarar um leið og ég skell á eitthvað svart, eitthvað stórt, eitthvað hart. “Við erum snjókorn…”