Fórnarlamb
Hún horfði á landslagið þjóta framhjá. Þetta týpíska, íslenska hraun sem lá milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar. Hún renndi augunum yfir á hraðamælinn sem sýndi 130 kílómetra á klukkustund og ósjálfrátt kreppti hún hnefana eins og hún héldi sér í ósýnilegt reipi sem myndi bjarga lífi hennar ef illa færi. Henni var alls ekki vel við að keyra svona hratt.
,,Gott, nú hægir hann á sér,” hugsaði hún með sér þegar hann dró úr hraðanum. ,,Skyldi hann hafa tekið eftir því að mér leið ekki vel?” Hann dró alltaf meira og meira úr hraðanum þangað til að bíllinn staðnæmdist alveg.
,,Af hverju stoppum við?” spurði hún undrandi. Hann svaraði engu, heldur horfði bara á hana. Það fór hrollur um hana og hún leit undan. Hún þoldi ekki þegar hann starði svona á hana. Hún vissi ekki aðmennilega hvað hann var að hugsa, þó að óljós hugmynd um það leyndist einhversstaðar í huga hennar.
,,Við verðum að leggja aftur af stað, klukkan er orðin svo margt. Mamma sagði mér að koma heim í síðasta lagi klukkan 11”. Enn svaraði hann engu. Hélt bara áfram að stara á hana.
,,Er sprungið á bílnum?” spurði hún. Hún var farin að svitna í lófunum og aftan á hálsinum. Henni leið virkilega illa þegar hann horfði svona á hana.
,,Ég held það” svaraði hann loks eftir langa þögn og leit af henni. Henni létti. Hún hafði alltaf verið dálítið hrædd við hann. Henni fannst hún svo lítil og hjálparlaus þegar hann var nálægt. Eins og hann væri kötturinn og hún músin.
,,Eigum við ekki að athuga dekkin?” sagði hann um leið og hann steig út úr bílnum. Hún opnaði hurðina og steig hikandi út á malarútskotið á veginum sem bíllinn stóð á. Hann var eitthvað að bjástra við annað afturdekkið.
,,Ég held að þetta dekk sé sprungið, komdu og sjáðu.” Hún gekk hægum skrefum aftur fyrir bílinn og í átt til hans. Hann var risinn á fætur. ,,Sjáðu” sagði hann og benti á dekkið. Hún rýndi á dekkið en sá ekkert í myrkrinu svo hún beygði sig niður og þreifaði á því. Það var allt í lagi með það. Hún ætlaði að segja honum það en skyndilega greip hann um hana aftan frá og ýtti henni inn í aftursætið. Þetta gerðist svo snögglega að hún gat ekkert gert sér til varnar.
,,Hvað… Hvað ertu að gera?” tókst henni að stynja upp. Hún lá á maganum í sætinu og hann hélt henni niðri með öllum sínum líkamsþunga meðan hann bisaði við að klæða hana úr buxunum og losa beltið sitt.
,,Hættu! Nei! HÆTTU!! Hvað ertu að gera!?!“ Hún æpti og öskraði og barðist um þegar hún gerði sér grein fyrir því sem var að gerast, en hann var sterkari og hélt henni fast niðri. ,,Þeigiðu litla druslan þín!” hvæsti hann á hana. ,,Helduru að ég viti ekki að þig langar til þess”, sagði hann með ógeðslegt glott um á andlitinu um leið og hún fann nærbuxurnar sínar rifna. Tárin voru farin að renna niður kinnar hennar. Í átökunum hafði hann snúið henni við svo að hún horfði beint framan í hann. Tryllingsglampinn sem alltaf hafði leynst í augum hans sást nú skýrt þegar hann þröngvaði sér inní hana. Hún veinaði hátt af sársauka, en það var bara eins og það væri það sem hann vildi. Eins og öskrin kæmu honum til. Hún grét sárt og barðist máttleysislega á móti meðan hann hamaðist á henni.
Þegar hann hafði lokið sér af dró hann hana út úr bílnum og henti henni á malbikið. Hann horfði bara á hana þar sem hún lá á grúfu og hristist af ekka. Án þess að yrða á hana steig hann upp í bílinn og keyrði burt. Hún lá eftir aum og blæðandi. Svívirt. Loks staulaðist hún á fætur og gekk óstyrkum skrefum í áttina að Hafnarfirðinum. Það fengi enginn að komast að þessu. Svo mikið var víst. Það var nógu slæmt að hún skyldi hafa verið niðurlægð á svona hræðilegan hátt, þó að hún færi nú ekki að bæta gráu ofan á svart með því að fara að deila þessu með öðrum. Þegar hún loksins kom heim, laumaðist hún inn um þvottahúsdyrnar. Hún læddist hljóðlega inn á baðherbergið en hún gat ekki fengið af sér að kveikja ljósið. Vildi ekki horfa á sjálfa sig í speglinum. Hún hafði tekið eftir því að ljósið í stofunni var kveikt. Pabbi var sjálfsagt dauður inní sófa. Mamma var áreiðanlega sofnuð. Elsku mamma. Veikindin voru farin að ágerarst. Hún var alveg rúmliggjandi þessa dagana. Bráðum yrði hún lögð inn á spítalann til að undirbúa hana fyrir aðgerðina.
Allar þessar hugsanir voru svo yfirþyrmandi. Hún reyndi að ýta þeim frá sér, tæma hugann, en án árangurs. Hún vildi ekki hugsa meira, vildi ekki finna til. Hún grét eins og hjarta hennar væri að bresta, þar sem hún sat í hnipri á sturtubotninum. Þetta var henni ofviða. Hún stóð óstyrk á fætur og skrúfaði fyrir vatnið. Hún fann að hún var helaum þegar hún reyndi að þurrka sér. Hún hafði varla tekið eftir því. Líkami hennar var lítið særður í samanburði við sálina. Loks skreið hún örmagna upp í rúm en hvernig sem hún reyndi, gat hún ekki sofnað. Þessi andvökunótt var aðeins byrjunin á helvítinu sem átti eftir að sækja á huga hennar og sál næstu árin.