Klukkan er 2 að nóttu til.
Ég lít á félaga minn. Hann sefur áfengissvefni, hálfur í rúminu. Þetta kvöld er búið að vera athyglisvert. Fyrst dömpaði kærastan honum. Hann fór á fyllerí og tók mig með til að passa hann. Hann fór á pöbbana, var í einhverju böggi við hina og þessa. Endaði með að honum var hent út áður en slagsmál brutust út.
Þegar við höfðum farið á flesta þá pöbba sem okkur langaði á enduðum við á einum litlum, og tiltölulega hljóðlátum. Hann sat við barborðið og varla sá úr augunum. Ég ákvað að setjast í sófa í horninu fjærst barnum. Það var ekki mikið af fólki, en samt nóg til að kliðurinn sem maður heyrir ávallt í drukknu fólki að segja öðru drukknu fólki frá einhverjum heimskulegum atvikum í lítilmótlegum lífum sínum yfirgnæfði tónlistina. Ég leit í kringum mig. Það sátu þrjár stelpur í sófanum í hinu horninu, sirka tveimur metrum frá sófanum sem ég var í. Ein þeirra leit á mig eitt augnablik, horfði í augu mín, skildi ekki það sem hún sá, og forðaði sér aftur í samtal þeirra um nýjustu uppfærsluna á bíl aðalhnakkans í lífi þeirra.
Félagi minn virtist ekkert á leiðinni í burtu af barnum, þannig að ég dróg upp litlu ljóðabókina mína. Þarna voru ýmis ljóðskrýpi sem ég hafði skrifað undanfarið, og ég fékk hugmynd að einu þarna á pöbbnum. Ég stakk hendinni í vasann, en fann hvorki penna né blýant.
Ég ákvað að spyrja dúkkulísurnar þrjár við hlið mér hvort einhver þeirra hefði skriffæri. Þær litu á mig, og spurðu “Akru?” Ég sagðist þurfa að skrifa svolítið hjá mér. Þá svöruðu þær að þær tækju ekki með sér penna þegar þær færu og skemmtu sér, og litu á mig sem einhvern furðufugl. Ég lái þeim það reyndar ekki.
Ég ákvað að ljóðið yrði að bíða eða gleymast. Nú þegar ég skrifa þetta, þá er það búið að gleymast, og sé ég eftir því að hafa ekki skrifað það niður.
Þegar ég var búinn að sitja í sófanum í hálftíma sé ég að félagi minn gerir tilburði til þess að standa upp. Ég er snöggur upp og fer og hjálpa honum. Þess er ekki þörf, enda er aðeins búið að renna af honum. Við ákváðum að halda heim til hans og fara að sofa.
Á leiðinni til baka ákváðum við að stytta okkur leið í gegnum almenningsgarð. Það er ekki mikil lýsing í þessum garði, aðeins þrír ljósastaurar þegar níu er þarfnast. Á milli fyrstu tveggja ljósastaurana kemur einhver að okkur, og otar að okkur hnífi og segir okkur að afhenda veskin. Félagi minn slær þá til hans, maðurinn víkur sér undan en þá gríp ég hendina sem hnífurinn er í og hrifsa af honum hnífinn. Félagi minn lemur hann þá í rot. Þar sem við stöndum yfir honum ákveð ég að karma skuli koma inn í líf þessa aumingja sem réðst að okkur.
Ég munda hnífinn að manninum, og sker af honum fingurna á annari hendi, og tek veskið af honum. Félagi minn stendur og horfir á, veit ekki hvað hann á að gera, en segir ekki neitt. Þegar ég er búinn að taka af honum fingurna sting ég þeim í vasann hjá mér, og segi félaga mínum að hann átti þetta skilið, og hann hefði stungið okkur hefðum við ekki stoppað hann.
Félagi minn klöngrast áfram yfir garðinn, og ég fylgi á eftir honum. Korteri seinna erum við komnir heim til hans. Hann leggst í rúmið og drepst. Ég fer úr bolnum og set hann í poka, og ég þríf blóðið af höndunum á mér, og sting fingrunum og hnífnum í pokann. Ég mun brenna pokann á morgun, ásamt innihaldi hans. Ég fæ hugmynd að öðru ljóði, og það er um fallegt blóm. Ég sæki bókina, og tek penna sem ég finn í íbúðinni og byrja að skrifa.