Þetta gerðist allt saman um síðustu jól. Ég hafði, eftir að hafa borðað mat með fjölskyldu minni og opnað pakka á aðfangadag, ákveðið að fara niður í bæ og drekka mig fullann. Þetta varð auðvitað til þess að ég vaknaði um 3 leytið á jóladag, með hálfétnar kótilettur í vösunum og hausverk sem hefði alveg eins getað verið jarðskjálfti. Einnig var ég með miða í hendinni þar sem var símanúmer. Ég gat ekki betur séð en að nafnið á miðanum væri Gilitrut. Ég sá ekki fram á að meika þetta helvítis jólaboð sem byrjaði um 5 leytið en lét mig hafa það að mæta eftir að móðir mín hringdi í mig og skipaði mér að mæta.
Ég fann strax fyrir vandræðalegu andrúmslofti þegar ég mætti í jólaboðið. Ég hélt kannski að Jóhannes frændi væri fullur aftur eða að gæludýr einhvers hafi verið að deyja. Svo reyndist ekki vera svo ég lét þetta algjörlega fara framhjá mér. Ég tók samt eftir því að allir horfðu á mig eins og ég væri geðveikur. Þau horfðu öll á mig eins og ég væri maður sem hlær í jarðaförum. En ég reyndi að láta það heldur ekki trufla mig.
Ég lét tímann líða og notaði tímann fram að matnum til að spila yatsí við litlu krakkana. Fljótlega voru þó börnin öll kölluð fram inn í stofu eitt af öðru þangað til ég var einn eftir með litla stráknum, Kristófer en hans helsta áhugamál var að bora í nefið. Mamma Kristófers kom síðan að sækja hann, bálreið og rauð í framan. Sagði að ég mætti skammast mín. Svo komu afi og Bragi móðurbróðir og mér var hent út án útskýringa.
Ég fékk mér sæti við útidyratröppurnar og á meðan ég hlustaði á sírenurnar í lögreglubílunum nálgast gat ég ekki annað en efast um ákvörðun mína að mæta nakinn í þetta jólaboð.