Leyfðu mér að segja þér sögu. Þú manst þetta ekki, af því að þú manst ekki neitt. En þetta gerðist.
Þú manst það ekki, en þú áttir einu sinni allt. Einu sinni áttirðu hús og bíl. Þú áttir konu, og þú áttir barn. En svo misstirðu okkur. Og það var allt þér að kenna.
Þú varst í góðri vinnu. Konan þín, konan sem lofaði að standa með þér í gegnum súrt og sætt, sem lofaði að elska þig alla þína ævi, sem lofaði þér að eyða allri ævinni með þér, hún sagði satt. Hún elskaði þig. Hún elskar þig ennþá. Elskar þig nógu mikið til að skrifa þér bréf, til að útskýra hvað gerðist.
Til að útskýra af hverju við fórum.
Þú heitir Kjartan. Þú heitir Kjartan og þú ert eigingjarn hálfviti. Þú heitir Kjartan og þú ákvaðst einn daginn að konan þín og sonur þinn væru ekki nóg til að lifa fyrir. Þú ákvaðst einn daginn að þú ættir ekkert og ákvaðst að yfirgefa allt. Yfirgefa okkur.
Litli kútur kom að þér þar sem þú lást með klórflöskuna í hendinni í sturtubotninum. Hann kallaði á mömmu sína, og hún hringdi á sjúkrabíl.
Það tókst að dæla upp úr þér, en þú misstir minnið. Þú manst ekki neitt. Þess vegna er ég að skrifa þetta.
Þú varst eigingjarn hálfviti, og þú ákvaðst að við værum ekki næg ástæða til að þrauka fyrir. En það var ekki þess vegna sem við fórum. Það er ekki þess vegna sem ég er að senda þér þetta bréf úr annarri heimsálfu.
Daginn eftir að þú vaknaðir úr dáinu. Daginn sem uppgötvaðist að þú myndir ekki neitt. Daginn eftir var sá fyrsti. Sami dagur og við kynntumst, fyrir tíu árum síðan. Og konan þín, sú sem lofaði þér að standa við bakið á þér að eilífu amen, hún stóð í röð í bankanum til að borga reikningana sem þú skildir eftir þegar þú ákvaðst að sturta í þig heilum brúsa af klór. Hún stóð með bunka af reikningum fyrir símanum þínum, fyrir vísakortinu þínu, fyrir öllum sjónvarpsstöðvunum þínum. Bunka af reikningum fyrir rassgatinu á þér, og hún stóð í bankanum með bros á vör, svo engan myndi gruna neitt.
Einhver kom auga á hana og benti. Svo annar. Smá kliður færðist um hvelfinguna, þar til allir voru þagnaðir og horfðu á konuna þína, ástkæra eiginkonu og barnsmóður þína, sem stóð eins og hálfviti með bros á vör í biðröð til að borga reikningana þína. Lítil stelpa benti, en móðir hennar greip um handlegginn á henni og horfði afsakandi á konuna sem stóð með sólheimaglott í miðri biðröðinni og þorði ekki að hreyfa sig.
Konan þín hefur alltaf þurft að flýta sér fyrir þig. Þú öskraðir stundum á hana að hún væri alltaf svo hæg. Að hún gæti ekki flýtt sér. Svo hún var alltaf að flýta sér.
Nú stóð hún í bankanum, búin að vera að flýta sér svo mikið að hún hafði varla litið á fötin sem hún fór í í morgun. Varla séð dragtina þegar hún hentist í hana svo hún yrði ekki of sein í biðröðina í bankanum. Nú stóð hún í draktinni í bankanum og það var eitthvað að.
Konan þín leit niður. Hún sá hvíta blettina. Hún sá ekki hvað stóð, en hún sá að þetta voru stafir. Hún beygði sig fram og sá stafina á maganum á sér. Stafina sem þú skrifaðir.
Leyfðu mér að segja þér sögu.
Þú varst eigingjarn hálfviti og ákvaðst að ekkert væri þess virði að lifa fyrir. Ekki einu sinni ástkær eiginkona þín og barnsmóðir. Ekki einu sinni ástkær sonur þinn, sem á afmæli í dag. Hann er fimm ára.
Þú ákvaðst einn daginn að þamba klór. En ekki fyrr en þú varst búinn að taka pensil, dýfa honum í vökvann og skreyta fötin mín. Þú skrifaðir skilaboð til umheimsins með klór í fötin sem þú vissir að konan þín yrði of mikið að flýta sér til að skoða. Þú vissir að ég myndi vaða út í heiminn skreytt sjálfsmorðsbréfinu þínu.
Í bankanum lásu allir fötin.
Konan mín er feit stóð á maganum.
Konan mín er hætt að hugsa um útlitið stóð yfir brjóstin.
Konan mín vill ekki sofa hjá mér stóð á rassinum.
Ég brosti ennþá.
Ég lét reikningahrúguna detta í gólfið og gekk rólega út. Gekk út í sólina og settist upp í bíl.
Sonur þinn tölti út af leikskólanum og horfði spyrjandi á fötin sem voru öll út í hvítum stöfum. Hann sagði ekkert.
Svo keyrðum við í burtu.
Þú varst eigingjarn hálviti. Það er þér að kenna að þú færð aldrei að sjá okkur aftur. Ég veit að þú manst þetta ekki, en ég vona samt að þú þjáist. Ég vona að þú grátir.
Vonandi áttarðu þig á því að núna hefurðu ekkert. Ekki neitt. Alls ekkert til að lifa fyrir.
Vertu sæll.
We're chained to the world and we all gotta pull!