————
Morguninn læddist inn á sjónarsviðið í allri sinni dýrð og laumaði sólargeislum sínum í gegnum myrkrið í heiðarlegri tilraun til að hleypa ljósi í skammdegisþrungna veröldina og verma upp frosti lagða jörðina. Sólin breiddi úr sér yfir himininn og lagði rauðleitan blæ á hann, geislar hennar teygðu úr sér eins og þeir gátu og lýstu upp hvern krók og kima sem þeir komust í.
Einn lítill sólargeisli staðnæmdist og virti fyrir sér það sem hann sá. Í skoti við bílskúr, sem stóð við lítinn fallegan stíg, sat ung stúlka í hnipri. Hún virtist sofa svo hann ákvað að stríða henni aðeins, kitla hana í nebbann og skína á augun hennar.
Skyndilega vaknaði hún, litla sólargeislanum brá svo að hann flýtti sér í burtu og hélt áfram verki sínu.
Laufey vaknaði í morgunsárið við það að sólin skein beint í augun á henni. Henni var ískalt og hún var svöng. Þegar hún áttaði sig á því hvar hún var og hvar hún hafði sofið helltust minningar kvöldsins áður yfir hana. Hún fann hvað hún var búin að gráta mikið, það voru engin tár eftir, bara tómleikinn innra með henni.
Hún stóð upp og reyndi að teygja mesta stirðleikann úr sér. Hvílíkur vitleysings gangur að sofna úti, hún var heppin að foreldrar hennar voru í sumarbústað, annars væri hún í vondum málum fyrir að hafa ekkert komið heim alla nóttina. Hún rölti af stað heim á leið.
Fæturnir báru hana heimleiðis af gömlum vana án þess að hún hugsaði neitt út í það. Hugsanir þutu í gegnum huga hennar, hún varð algjörlega aftengd raunveruleikanum og festist í eigin hugsanaheimi. Þrátt fyrir það vissi hún ekki alveg hvað hún var að hugsa, var hálf ómeðvituð um það, hún var bara eitthvað svo… tóm.
Fyrst á eftir var hún tóm, sár og leið. Fann endalaust fyrir tárunum sem hún hafði grátið, hana sveið í sálina, þetta var svo sárt. Hana langaði svo að þetta væri ekki svona. Hún vildi ekki að neinn sæi að hún væri ekki sterkari en þetta. Hún fór í skólann, lærði og hitti krakkana. Reyndi að láta allt vera í lagi… en það var svo erfitt… svo stutt í tárin.
Dagarnir fóru að renna saman í stóra gráleita móðu. Þegar hún gekk í skólann og til krakkana og svona tók hún eftir því hvernig umhverfið þyngdist. Berar greinar grábrúnna trjáa aleinar í ísköldu frostinu sem lagðist yfir allt sem og myrkrið sem dró úr henni allan kraft. Yfirvofandi gráminn dró alla ánægju úr öllu.
Hún hélt áfram að láta sem allt væri í lagi, hélt áfram að hitta krakkana. Líka hann. Það varð hálf vandræðalegt til að byrja með en hún nennti ekki að spá í það. Hún áttaði sig bara á því að þetta væri bara búið, núna voru þau bara vinir. Tilgangslaust að láta þetta vera að eyðileggja eitthvað meira. Skipti svosem engu máli, það skipti svosem ekkert máli… Ekki lengur…
Hún var að verða bitur. Fann það koma. Fann biturleikann læðast og lauma sér inn í sakleysislegustu hugsanir, hann ætlaði sér augljóslega að ná yfirráðum í huga hennar. Sneri öllu upp í sjálfgefna neikvæðni gegn sér.
Það var þá sem hún áttaði sig. Þá sem hún sá hvað var að gerast.
Allt í einu var þokan ekki eins þykk og þung, smá vottur af lit sást í gegnum grámann og henni sýndist sólin jafnvel ætla að ná í gegnum skýin. Fagurbrúnar greinar trjánna sem teygðu sig í átt til sólar með frostteppið sem glitraði eins og glimmer. Huggulegt rökkrið og dásamleg himintunglin sem skinu til hennar.
Þetta var ekki hún, hún var ekki svona leið, hvað þá að hún væri bitur. Það var of andsætt henni til að þetta gæti gengið. Það var alveg rétt þetta skipti engu máli. Hvílíkur kjánaskapur að láta þetta draga hana svona niður.
Hún fann hvað vinir hennar skiptu miklu máli. Hlýjan og væntumþykjan sem streymdi úr öllum áttum. Gleðin sem skein úr hverju brosi og öllum augum sem hún leit í.
Hún gat ekki látið vináttu þeirra deyja. Þetta skipti engu máli en vináttan gerði það.
Hann hafði hlýlegasta viðmótið og glöðustu augun. Einhver sem myndi alltaf eiga stað í hjarta hennar, skipti raunverulega máli sem vinur hennar.
Hún hafði hann og hafði alltaf haft, það sem þau höfðu var of gott, of innihaldsríkt til að hverfa. Hún þurfti bara ljósið til að sjá það. Hann var besti vinur sem hún gat hugsað sér.
…Hún hló svo innilega, brosið náði alltaf til augnanna og gleðin alveg inn í sálina. Frá henni streymdi væntumþykja í svo ríkum mæli að það yljaði honum um hjartaræturnar. Hann var alltaf svo lifandi með henni. Það sem hún hafði kom alltaf tilfinningum af stað.
Hún brosti, blikkaði hann og greip í hönd hans. Hjarta hans tók kipp…
..ef bara hann hefði áttað sig fyrr… áður en hann henti henni frá sér…
hann fékk sting í hjartað við tilhugsunina um að vera búin að eyðileggja alla möguleika á þessari yndislegu veru í líf sitt fyrir fullt og allt…
[quote="Elie Wiesel"]"There may be times when we are powerless to prevent injustice, but there must never be a time when we fail to Protest!."[/quote]