Þegar goðin sökkva - 4. hluti [Fyrirvari: Farið er frjálslega með sagnfræðilegar staðreyndir. Reyndar mætti segja að ég níðist algerlega á öllu sem heitir sagnfræðilegar staðreyndir.]

Jón virti fyrir sér Alexander. Hann var ungur maður með gömul augu. Hann var kinnfiskasoginn, frekar dökkleitur yfirlitum, þungbrýnn, langt og mjótt nef og þunnar litlausar varir. Það seitlaði blóð út um munnvik hans. Æ, allar sögurnar sem þessi maður hlýtur að búa yfir, hugsaði Jón með sér. Hann veitti því eftirtekt að Alexander starði á allt sem hann gerði og virtist í öðrum heimi.
Hann gat ekki velt því frekar fyrir sér því maðurinn í höndum hans var að deyja. Jón gerði hvað hann gat til þess að stoppa blóðflæði frá hálsinum á honum með góðum árangri, en allt kom fyrir ekki. Síðustu hryglurnar hraut um varir þessa gamla manns og hann lyppaðist niður. Óendaleg sorg heltók Jón. Skipið var komið á ferð aftur og stefndi heim en hann sá ekkert nema frosna grettuna á manninum fyrir framan sig. Aðrir þörfnuðust aðhlynningar en hann stóð stjarfur með líkið í faðmi sér. Hann vissi ekki hvað væri viðeigandi að gera við dauðamanninn.
Hann fann að einhver tók líkið úr fanginu á honum. Það var Alexander, rússinn ungi, sá sem enn var með rænu. Hann lagði það á gólfið og lokaði varlega augunum á honum. Alexander leit beint í augun á honum.
„Hann hét Warwick. Hugsaðu fallega til hans. Það mun fylgja honum,“ sagði hann.
Jóni varð bylt við þetta, datt hálfpartinn aftur fyrir sig og fór að hlynna að hinum þremur sjúklingunum. Útlitið var betra fyrir þá.

Alex hafi fylgst með lækninum allan tímann. Hann gerði sér fljótlega grein fyrir því að hann var óvanur svona hörmungum, a.m.k. enn sem komið var. Þegar Warwick dó varð hann ráðalaus, og Alex skildi af hverju. Maðurinn mun aldrei átta sig á dauðanum, bara venjast honum. Hann fór því og aðstoðaði hann. Hann fyrirgaf lækninum umkomuleysi hans því hann var verulega snortinn af hinni alvörugefnu einlægni sem skein úr hverri hreyfingu. Það var augljóst að manninum stóð ekki á sama. Vinnubrögðin voru líka fumlaus og þjálfuð og sýnt að hann vandaði sig gríðarlega. Þetta dáði Alex og hrifning hann jóx. Þetta var úrvals eintak af manneskju, það skildi hann strax.
Jón sturmaði yfir ungum rauðbirknum suðurríkjamanni. Hann var úr lífshættu sem og hinir. Hann hafði fengið fáeina háseta til þess að færa skipbrotsmennina inn í káetu svo þeir fengu hvílst. Honum hafði verið tjáð að ekkert pláss væri fyrir mennina, allar káetur setnar, svo þeir yrðu að vera á dýnum inn í eldhúsi þar til þeir kæmu í land. Jón fannst það auðvitað óviðunandi. Hann skipaði því svo fyrir að þeir fengu káetuna hans og bað fjölskyldu sína um að koma fram á dekk. Þau væru fullfær um að koma sér fyrir inn í eldhúsi enda við fullhraust öllsömul.

Börnin hans léku sér með gullin sín á spásssvölunum úti fyrir stýrishúsi. Björg las bók og sat yfir þeim. Hásetarnir báru nú síðasta manninn inn. Jón létti og þerraði á sér ennið. Svalan blæ lagði að austan. Það var farið kvölda og himininn var roðagylltur. Hann klæddi sig í jakkann og rölti í hægðum sínum yfir til fjölskyldu sinnar.
„Hvað heitirðu?“ spurði einhver.
Skyndilega hafði Alexander birst við hlið hans.
„Ég heiti Jón. Jón Sæmundsson.“sagði Jón.
„Íón. Íón,“ Alex japlaði á nafninu.
„Afar fallegt nafn, herra Íón. Ég vildi bara þakka þér fyrir lífbjörgina,“ sagði Alex, þagði andartak og horfði á fjölskyldu hans.
„og óska fjölskyldu þinni eilífrar hamingju. Þú átt fallegustu fjölskyldu sem ég hef séð. Hún er heppin að eiga þig. Ég hygg að hver sem kynnist þér sé lánsamur,“ hélt hann áfram.
Jóni fannst maðurinn viðkvæmur og stóryrtur. Hamfarir gera mennina þakkláta, hugsaði hann með sér og maðurinn var enn í tilfinningalegu áfalli. Hann vissi ekki alveg hvernig hann ætti að svara.
„Þakka þér fyrir þessu fallegu orð, Sasha,“ sagði Jón og horfði á hann. „Ég held að það væri best ef þú færir nú inn í káetuna mína og hvíldir þig.
Jóni til undrunar sá hann hvernig augu Alexanders fylltust tárum þegar hann kallaði hann Sasha.



Sævar hafði fyllst kátínu þegar hann sá skipalestina og Goðafoss skríða yfir sjóndeildarhringinn í heilu lagi þegar leið á daginn. Að sama skapi fylltist hann af hryllingi þegar hann sá brátt að Goðafoss drógst aftur úr lestinni.
„Hvað eru þeir að gera!“ hrópaði hann æfur „Eru þeir gengnir af vitinu!“
Félagar hans furðuðu sig líka á þessu óvenjulega háttalagi.
Gylfi spýtti út úr sér munntópakinu og bað um kíkinn hans Gumma.
„Það var sem mig grunaði,“ sagði hann. „Þeir ætla að reyna að bjarga skipbrotsmönnum olíudallsins.“
„En þetta er óðs manns æði!“ hrópaði Sævar.„Þó því hafi lynnt nú í bili hefur orrustan staðið yfir í allan dag. Sundin eru iðandi af nasistakafbátum.“
„Skipstjórinn er göfuglyndur,“ sagði Markús.
„Þetta er ekki göfuglyndi, þetta er fífldirfska,“ sagði Sveinn lágum rómi.
„Flýttu þér ekki um of að kalla hann fífl. Hann veit ekki hvað undan er gengið og finnst hann öruggur svo nálægt Íslandi. Ég þekki Hall. Hann er skynsamur maður en lætur það ekki eftir sér að gera góðverk,“ sagði Gylfi. „Vertu ekki svona hnugginn Sævar. Það er stutt í höfn og allar líkur á því að þeir komist án skrámu.“
Það leið að kvöldi og Sævar beið milli vonar og ótta. Smá saman tíndust félagar hans einn og einn heim til sín í kvöldmat, sumir urðu þó eftir og vildu vitu málalok.
Út við sjóndeildarhringin mátti sjá Bandarískar freygátur koma og fara. Ein og ein flugvél flaug yfir og skimaði en að öðru leiti var allt hljótt. Eftir kvöldmat komu nokkrir karlmenn úr þorpinu upp á þak til þeirra og vildu fá að fylgjast með líka. Þeim fannst þetta greinilega hin besta skemmtun. Sævar var of hugfanginn til að hneykslast.
Freyr var ágætur kunningi hans. Hann var feitlaginn og vann á hafnarvigtinni. Hann sagði að orðið á bryggjunni væri það að skv. talstöðvunum væri þýskt risaherskip norður af landinu.
„Bismark?“ spurði Sævar og hnykklaði brýrnar.
„Nei, eitthvað annað. Þeir eru búnir að sökkva Kanslaranum,“ sagði Freyr.
„Karl sagði að Mister Maþjú hefði verið á Ránni áðan og farið mikinn. Hann kvaðst næsta víst að þrír þýskir kafbátar væru hérna einhversstaðar á sveimi. Ratstjárstöðvarnar þeirra lygu ekki,“ sagði Freyr. „Þeir væru að leita að þeim núna án árangurs. Þeir hefðu sett út nokkra báta til þess að gjörsamlega teppaleggja flóann af tundurduflum og djúpsprengum.“
Sævar var yfir sig hneykslaður.
„Situr liðþjálfinn á sumbli?! Hefur hann engum skyldum að gegna þegar ástandið er svona,“ spurði hann.
„Það er ósköp lítið sem hann getur gert,“ sagði Freyr. „Nema láta undirsáta vera í viðbragðsstöðu og drekka í sjálfan sig kjark.“
Sjómennirnir í hópnum urðu kvíðnir. Fleiri neðansjávarsprengjur voru ekki af hinu góða. Bátarnir þeirra ristu þó sjaldnast nógu djúpt til þess að þetta skipti máli en það kom þó alltaf af og til fyrir. Allir þekktu einhvern sem hafði farist á þennan voveiflega hátt.
„Ég hef nú meiri áhyggjur af því að Goðafoss sé í hættu núna, “ sagði Sævar.
„Ef hann fylgir sömu hnitum og hann fékk í upphafi, ætti hann að vera öruggur. Herinn hefur varla sett stein í götu hans, þeir í höfuðustöðvum sjóherins hafa allar fyrirhugaðar leiðir dulkóðaðar og sjá til þess að þær séu látnar í friði,“ sagði Gylfi.
„Þess vegna held ég að ef Goðafoss muni hafa það að komast norður fyrir Garðskaga þá sé hann hólpinn,“ sagði Gylfi. „Það er næstum engar líkur á að kafbátarnir hætti sér inn fyrir Faxaflóa. Þar hafa þeir heldur ekki lagt nein tundurdufl.“
„Við verðum bara að vona hið besta,“ sagði Freyr.
Sævar sagði ekki orð. Hann kipraði saman varirnar og fylgtist með. Hann þorði ekki að vona neitt.
Við sólarlag var Goðafoss kominn fram hjá Garðskagavita. Þetta hafði verið spennuþrungin bið en nú gátu menn andað léttar.
„Er hann hólpinn?“ spurði einhver.
Engin sagði neitt. Sævar leit á Gylfa. Gylfi þagði.
Loks mátti heyra einhvern í hópnum hvísla: „hann er hólpinn,“ eins og hann væri meira að reyna telja sjálfum sér trú um það, frekar en að geta vitað það fyrir víst. Mennirnir gripu þessa staðhæfingu á lofti.
„Hann er hólpinn!“ kallaði einhver hátt. Fólk fagnaði. Menn klöppuðu og blístruðu.
Það var eins og steini væri létt af Sævari. Hann kastaði af sér drunganum og þaut til Freyrs. Hann var búin að reikna út að Goðafoss myndi leggjast við norðubryggjuna í Reykjavíkurhöfn um miðnætti. Hann yrði að drífa sig ef hann ætlaði að ná að taka á móti bróðir sínum.
„Freyr, gamli félagi! Þú býrð svo vel að eiga vörubíl. Skutlaðu mér nú til Reykjavíkur og eftir að ég sæki Nonna bróður skulum við fara á kránna og fá okkur ærlega að drekka! Til þess er tilefni,“ sagði Sævar.
Freyr var mjög til í svoleiðis ævintýri.
„Komdu þá bara með mér út á Flankastaði, þar bíður bíllinn. Ég er til í allt svo lengi sem vegurinn er fær,“ sagði Freyr.
„Auðvitað maður. Það er víst nýbúið að troða Reykjanesbrautin á ný og moka möl í hana. Við verðum komnir þangað á mettíma, enda eins gott, ekki nema fjórir tímar til stefnu,“ sagði Sævar.
Þeir lögðu tafarlaust í hann.

1. hluti
2. hluti
3. hluti