Hún hrökk upp við pípið í helvítis símanum. Hnipraði sig saman undir sænginni en teygði sig svo yfir borðið í köldu herberginu til að slökkva á honum. Djöfull var leiðinlegt að vera á morgunvakt á veturna og þurfa að vakna í myrkri og kulda. Hún leit yfir á Ragnheiði sem lá steinsofandi í hinu rúminu. Á gólfinu lágu hinar tvær eldhússtelpurnar lengst inni í draumheimi hins áhyggjulausa lífs. Af hverju virtist hún vera sú eina sem vaknaði við verkjaraklukkuna á morgnana? Hún potaði í Ragnheiði sem rumskaði. ,,Koma svo!” sagði hún hvetjandi til þess að reyna að koma henni á fætur. Loks opnuðust augu Ragnheiðar og þær flýttu sér á fætur og klæddu sig skjálfandi í vinnufötin.
Þær voru fyrstar til að vakna í húsinu. Allt var slökkt svo þær þurftu að þreifa sig áfram niður stigann í myrkrinu. Innan úr salnum sáu þær að það var kveikt í eldhúsinu. Skrýtið. Kannski höfðu þær gleymt að slökkva í gærkvöldi.
Þegar þær opnuðu hurðina inn í eldhús blasti hinsvegar við þeim furðuleg sjón. Allt var kveikt, meira að segja ljósið fyrir ofan þvottavélina sem þær slökktu alltaf um leið og þær voru búnar að vaska upp eftir kvöldmatinn. Uppþvottavélin var í gangi. Tómir þvottabakkar lágu í röðum þar sem skítugu bakkarnir voru venjulega, eins og einhver hefði gleymt að setja leirtauið í þá og ætlað að setja þá tóma í vélina. Uppþvottavélin var sérstaklega hönnuð fyrir stór eldhús og var því einungis um mínútu að þvo hvern bakka. Þar sem vélin hélt áfram í frekar langan tíma eftir að þær voru komnar inn í eldhúsið hefðu þær átt að heyra í þeim sem setti hana í gang, allaveganna í hurðinni að skellast á eftir honum eða bílnum að keyra í burtu. Vandamálið var bara að allt heimilisfólkið var sofandi uppi og allir bílarnir stóðu óræstir fyrir utan. Hver hafði eiginlega sett vélina í gang?
Allt í einu hætti vélin. Hún leit á Ragnheiði og gekk svo hikandi að vélinni og opnaði hana. Bakkinn í henni var tómur. Hver í helvítinu raðar upp bökkum á vaskborðið og setur þá tóma í vélina?
Hún minntist atburða gærdagsins. Þær höfðu setið frammi í sal með opið inn í eldhús og verið að spila. Ragnheiður hafði setið þannig að hún hafði séð beint inn í eldhús með góða yfirsýn yfir eldavélina. Þegar þær hættu að spila og ætluðu að fara að ganga frá eftir kaffið gátu þær ekki kveikt á uppþvottavélinni. Eftir nánari athugun kom í ljós að tvær hellurnar á eldavélinni voru stilltar á mesta hita og rafmagninu á heimilistækjunum hafði slegið út. Þær höfðu ekki verið að nota eldavélina og því útilokað að þær hefðu gleymt að slökkva. Hvað var eiginlega í gangi?
Allt í einu var eins og henni væri hrint frá uppþvottavélinni. Hún datt aftur fyrir sig og lenti með skelli á gólfinu. Ragnheiður rak upp lágt óp fyrir aftan hana. Hún leit í átt að þvottavélinni rétt í því sem bakkinn rann af sjálfsdáðum út úr vélinni og flaug niður í bakkahilluna. Síðan tók bakkinn næst vélinni skítugu megin að renna rólega inn í vélina og svo var eins og henni væri lokað með skelli af ósýnilegri hendi.
Þetta var nóg fyrir stelpurnar. Þær þutu út úr eldhúsinu í átt að útidyrahurðinni. Ragnheiður tók í húninn og ætlaði að opna en hún var læst. Áður en hún hafði færi á að teygja sig í lykilinn sem hékk á veggnum heyrðu þær öryggið smella af á rafmagnstöflunni við hliðina á hurðinni og allt varð dimmt.