Um leið og klukkan sló tólf heyrðist hátt öskur. Upptökin voru í glæsivillu Hr. Heinz Lichtenstein. Hr. Heinz var nýkominn heim til Þýskalands úr langferð um Afríku. Og hann hafði verið rændur! Hann, Hr. Heinz Lichtenstein sjálfur! Óásættanlegt, ef þú spyrð hann sjálfan. Og ekki hafði þjófurinn aðeins tekið nokkur málverk og látið sér þau nægja, heldur varð hann að leggja hendur á dýrmætasta hlut Hr. Heinz, blóðrauðan Stradivarius frá 18. öldinni. Ef þjófurinn sem stal þessum mikla grip kæmi honum á markað myndi sá hinn sami lifa í vellystingum það sem eftir væri lífsins, því eins og þú veist sennilega eru blóðrauðir Stradivariusar einkar dýrmætir.
Hr. Heinz strunsaði beint inn í stássstofu án þess að fara úr yfirhöfninni og greip hann þar Henry Hirsch, dyggan einkaþjón sinn. “Henry! Hvernig gastu látið þetta gerast! Mér væri skapi næst að reka þig úr starfi fyrir kæruleysi sem þetta!”, hrópaði hann ævarreiður á hræddan þjón sinn. “Herra minn herra minn fyrirgefðu mér! Ég var hér aleinn á laugardagskveldinu, kokkurinn og þernan voru farin heim. Og ég man ekki eftir mér fyrr en ég vaknaði á gólfinu í eldhúsinu með kúlu á höfðinu. Og er ég svipaðist um fann ég ummerki um innbrot í bakhúsinu, brotinn glugga og mold yfir öll gólf. Fyrirgefðu mér herra!” Lauk hann máli sínu sorgmæddur.
Við þessi orð varð svipur Hr. Heinz mildari. “Nei, fyrirgefðu mér, Henry. Ég mun að sjálfsögðu ekki reka þig, en ég vil að þú hringir tafarlaust á lögregluna og fáir hana til að rannsaka öll merki um innbrot hérna, og að sjálfsögðu vil ég fá minn heittelskaða Stradivarius aftur! En ég er líka þreyttur. Ég ætla að halla mér, vektu mig seinnipartinn.” Henry játti því og flýtti sér sem mest hann gat að næsta síma. Hr. Heinz gekk upp mikilfenglegan marmarastigann, kom á aðra hæð þar sem svefnherbergi hans var.
Inni í svefnherberginu var allt eins og hann hafði skilið við það þegar hann hafði lagt upp í Afríkuför sína tveimur mánuðum áður. Dökkt parketið, Marmarasúlurnar og stóru, ljósu gluggatjöldin sem bylgjuðust í golunni af opnum glugganum. Hann gekk út á svalir og andvarpaði. Ó, hversu gott var það að vera kominn heim. Að vísu var kaldara í Þýskalandi en í Afríku, en ó hvað hann hafði saknað trjánna í stóra herragarðinum sínum, að horfa af svölunum í svefnherberginu sínu yfir stórfenglegan herragarðinn með öllum sínum blómstrandi blómum og runnum og tjörn. Paradís.
Þó þjófnaðurinn hefði sett sitt strik í reikninginn var Hr. Heinz mjög ánægður að vera kominn heim. Um þetta allt hugsaði hann þegar hann lagðist til svefns í hlýja rúminu sínu. Og sofnaði hann með bros á vör.
Ó hve gott það er að vera kominn heim.
—
Þetta var íslenskuverkefni einhvern tíma, að skrifa sögu við setningu “þegar kl sló 12 heyrðist hátt öskur”
Njótið