Það var langur laugardagur í byrjun nóvember og hún hafði ætlað að vera voðalega sniðug og klára jólagjafakaupin. Hún fann hinsvegar aðeins eina gjöf og það var fyrir aldraða móður hennar sem sat inni á elliheimili og kvartaði yfir hversu illa væri komið fram við hana. Fáir voru á ferðinni, rigningin var ekki freistandi til að vera úti í svo hún hlakkaði til að komast heim. En eins og auðvitað fór bíldruslan ekki í gang.
,,Ég tek bara strætó,” hugsaði hún.
Maðurinn út á sjó og ekki vildi hún hringja í slúðurberandi tengdafaðirinn sem þó var bílvélavirki. Líkaði aldrei við manninn. Hún gekk niður á Lækjartorg þar sem hún fékk þær upplýsingar að hún gæti ekki tekið vagninn þar vegna gatnamótaframkvæmda. Hún afþakkaði leiðbeiningunum, sagðist rata ágætlega um miðbæinn. Hún vissi samt að það voru óra mörg ár síðan hún hafði þurft að rata eitthvað af viti í bænum. Ekkert virtist ganga að finna strætóskýlið og hún var við það að hringja í tengdó. Ákvað að hvíla sig inni í einu skotinu og fá sér smók. En eins og auðvitað þá var hún sami klaufinn og alltaf og missti kveikjarann svo hann brotnaði.
,,Árans,” hugsaði hún upphátt. Sparkaði í það sem eftir var af bleika bensínstöðvarkveikjaranum svo hann skoppaði inn á milli húsanna. Það var þá fyrst sem hún fattaði hvar hún var.
Þarna inn á milli ruslafatanna sá hún glytta í stíginn að hvíta húsinu með bláu gluggunum sem hafði verið henni svo kært. Húsið hennar ömmu.
Hún kom fyrst í bæinn eftir að móðir hennar dó. Átti engann að nema faðirinn sem eyddi öllum sínum stundum í vinnunni. Ákveðið var að senda stúlkuna í bæinn til ömmu gömlu. Himininn grét, allt var svo grátt en samt felldi hún ekki tár. Hún hafði alltaf verið svona hörð, hún vissi það frá unga aldri að móðir hennar mundi ekki lifa að sjá hana fermast. Þegar hún gekk á milli húsanna við götuna, að húsinu fyrir aftan, var samt eins og allt væri öðruvísi. Trén virtust vera svo þétt að engin rigning náði niður á grasið, sem hún gerði þó. Eina sem heyrðist var þögnin og róandi hljóðið í dropunum þegar þeir skullu á laufblöðunum. Og í dyrunum stóð amma. Hún róaðist í sálinni knúsaði ömmu og grét.
Fyrstu vikurnar voru auðvitað erfiðar.
En eftir vorið kemur sumarið og ilmurinn í garðinum var eins og maður ímyndar sér í útlenskri bíómynd. Hún eignaðist fljótt vini, kannski vegna þess hve öllum þótti vænt um ömmu hennar. Hún var eins og amma allra í götunni. Líka unglingarnir sem drukku sig fulla um helgar og gáfu skít í allt og alla brostu til ömmu á leiðinni í búðina.
Hún mundi sérstaklega vel eftir sumarkvöldunum þegar grasið var svo mjúkt og íslenska nóttin var eins og annar dagur. Hlaupandi í grasinu, berfætt og finna grasið stingast upp á milli tánna. Eins og létt kítl.
Árin liðu með pönnukökum á sunnudögum og rúsínubrauði á jólunum þar til að það fór að nálgast vetri í lífi ömmu. Hún talaði oft um það við hana að nú væri hún að fara frá henni, en svarið sem amma fékk var alltaf: ,,Nei amma mín, hvaða bull.” Og svo var alltaf létt glott á eftir. En ekkert varir að eilífu og rétt eftir að hún kláraði skólann dó amma. Hún grét ekki, hún ætlaði sér að vera hörð. Hún flutti aftur til föður síns, sem hún hafði hitt einstöku sinnum síðan hún kvaddi hann þegar hún steig upp í rútuna. Hann var giftur aftur og átti son.
Hún flutti ung að heiman og giftist ung.
Hún komst aftur til sjálfs síns og hristi hausinn.
,,Ekki gera sjálfri þér þetta.” hugsaði hún, minningarnar voru svo sterkar. Hún gæti farið að gráta. Hún sem var svo hörð.
Hún hljóp af stað þegar hún sá að hún var að missa af strætó. Bílstjórinn stoppaði fyrir henni og hleypti henni inn.
,,Kannski maður fari niður í kirkjugarð fyrir jólin, hugsaði hún með sér, amma á það víst inni hjá mér.”
Síðan byrjaði jólamánuðurinn með öllu ysinu og þysinu, skrifa á jólakort og baka, þó svo að ekki væri von á gestum yfir hátíðirnar. Nema kannski tengdó, eða móðir hennar. Í öllu brasinu við að gera lífið yfir jólin bærilegt gleymdi hún loforðinu.
Krossin stóð óskreyttur og án kertis yfir hátíðirnar. Og lengur en það.