Við horfum á hvort annað. Við störum eiginlega á hvort annað. Við vitum bæði nákvæmlega hvað er að fara að gerast. Samt sem áður óttumst við það líka bæði. Óttumst eiginlega hvort annað jafn mikið. Ég veit svosem líka að það gerist ekkert slæmt þó að mér mistakist…verður bara pínu kjánalegt.
Mig langar samt þvílíkt.
Ég stelst til að líta upp og sjá alla í kringum mig…og átta mig á því að ég er einn eftir. Sá eini sem á eftir að gera það sem ég þarf að gera. Þetta verður bara alltaf vandræðalegra og vandræðalegra. Spurning um að drífa í þessu? Svona eitt skipti fyrir öll. Ég guggna samt akkúrat þegar ég ætla að leggja af stað í verkið.
Allt í einu fyllist ég efasemda um að ég eigi einhvertímann eftir að geta þetta? Er ég kannski bara hreint og beint lélegri en aðrir? Ég veit ekki af hverju ég hræðist þetta svona.
Ég ákveð samt að drífa bara í þessu. Ég horfi aðeins lengur en safna svo kjarki. Anda djúpt og ræðst síðan til verks. Ég stend upp og labba af stað…ég er búinn að bíða eftir þessari stund frá því ég man eftir mér. Ég heyri í gólfinu braka undan hverju skrefi sem ég tek. Kaffilyktin magnast upp eftir því sem ég kem nær. Hægt en örugglega nálgast ég. Þetta virðist vera það erfiðasta sem ég hef nokkur tíman gert - virðist vera það erfiðasta sem ég á nokkur tíman eftir að gera.
Þegar ég er loksins kominn kemst ég að því að gangan hingað var það léttasta. Ég stend og horfi beint í augun á afgreiðslukonunni sem spyr hvort hún geti aðstoðað mig eitthvað. Héðan verður ekki aftur snúið. Ég hika, en segi síðan ,,Ætli ég fái ekki kökuna þarna, þessa sem ég er búinn að stara á síðan ég kom inn".