og samningur hans við djöfulinn.
Smásaga eftir vamanos.
(Athugið: Persónur og atburðir í þessari sögu eru uppspuni frá rótum og eiga sér enga hliðstæðu í raunveruleikanum.)
Eitt sinn var maður sem hét Bill Gates. Saga hans hefst á áttunda áratugnum. Hann var það sem við í dag köllum “nörd”. Hann var ekki vinsæll í skóla, missti sveindóminn 27 ára gamall og stundaði áhugamál sem á upphafsdögum þessarar sögu þótti nördalegt með meiru. Þetta áhugamál var tölvur og forritun þeirra. Bill var svo niðursokkinn í þetta áhugamál sitt að hann ákvað að stofna í kringum það fyrirtæki.
En eitthvað var að. Fyrirtækinu hans gekk ekki vel. Hann var við það að fara á hausinn þegar hann hitti djöfulinn á bar einum. Eftir að Bill hafði rakið fyrir djöflinum allt sem á bjátaði hjá honum ákvað djöfullinn að bjóða Bill samning á kostakjörum. Ákvæði samningsins voru svohljóðandi:
“Djöfullinn ábyrgist að fyrirtæki Bill Gates muni vegna vel í framtíðinni. Einnig mun djöfullinn gera Bill Gates að einum af ríkari mönnum veraldar, ofan garðs sem neðan.”
En sitthvað setti djöfullinn í samninginn til að fá nú eitthvað fyrir sinn snúð.
“Gegn því að uppfylla ofantalin skilyrði, áskilur djöfullinn sér eftirtalin réttindi:
1. Allar vörur sem fyrirtæki Bill Gates sendir frá sér skulu vera gallaðar á einhvern hátt, og með göllum sínum gera Bill Gates að einum af óvinsælari mönnum veraldar.
2. Djöfullinn gerir tilkall til sálar Bill Gates og allra niðja hans fram á 4. árþúsund.”
Bill Gates las samninginn yfir og lét glepjast af fyrstu klausunni og virti hinar vart viðlits. Eina sem hann gerði var að spyrja djöfulinn að því hvar hann ætti að skrifa undir, með peningaglampa í augunum.
Árin liðu, og fyrirtæki Bill óx ört. Einkatölvubyltingin hófst og Bill hagnaðist vel á DOS kerfi sínu. Enn var ekkert farið að bóla á göllum þeim sem djöfullinn hafði sett í samninginn.
Dag nokkurn, er Bill var að pota með kústskafti í gluggaþvottamann sem var að þvo gluggann á skrifstofu hans, datt honum snjallræði í hug. Hann hófst þegar handa ásamt helstu hugbúnaðarhönnuðum sínum og afraksturinn var: “Örmjúkt gluggar” (Microsoft Windows). Með þessu kerfi má segja að klausur djöfulsins hafi byrjað að rætast. Með hverri útgáfunni sem kom út urðu gallarnir alvarlegri og Bill Gates og fyrirtæki hans urðu óvinsælli.
Þegar leið á síðasta áratug aldarinnar leist Bill kallinum ekkert orðið á blikuna. Hann sá að peningar voru í raun ekki allt sem þurfti til að öðlast hamingju og nú horfði hann upp á börn sín vaxa úr grasi og breytast í litlar eftirlíkingar af honum sjálfum.
Bill ákvað að láta djöfulinn ekki leika sig svo grátt. Hann ákvað að þegar að dauða hans kæmi skyldi hann gefa allan auð sinn til góðgerðastarfsemi, í stað þess að erfa börn sín að honum. Með þessum aðgerðum vonaðist Bill til að gera að engu tilkall djöfulsins til niðja hans.
Svo bjó Bill þannig um hnútana að fyrirtæki hans tapaði ýmsum málaferlum sem í gangi voru vegna meintrar einokunarstefnu þess. Hann vonaðist til að þær aðgerðir hefðu í för með sér breytt álit almennings á honum og fyrirtæki hans.
En hvernig fór fyrir Bill? Aðeins tíminn leiðir það í ljós.
Endir.