Ég skildi ekki alveg hvað var í gangi hjá honum. Ég sá breytingu, sá að eitthvað gerjaðist innra með honum, en hann eins og hann var, og ég eins og var, við hvorki spurðum né sögðum neitt. Ég átti að sjá það, ég átti að gera eitthvað en ekkert var gert, og því fór sem fór.
Og nú, er ég stend yfir gröfinni, moldin enn mjúk og minningarnar þrúgandi, reyni ég að skilja. En hvernig skil ég það sem ég þekki ekki, hvernig dæmi ég það sem ég þekki ekki?
Hann var mér alltaf nærri en nú skil ég að hann var í raun og veru aldrei raunverulega hjá mér og ég þekkti hann aldrei almennilega. Að lifa tvöföldu lífi, ein persóna fyrir framan þennan hóp, önnur fyrir framan hinn. Hvor þeirra er þá raunveruleg, sú sem hann vildi vera fyrir þá sem hann elskaði, eða þau sem sáu hann í myrkrinu?
Ég þykist samt hafa þekkt hjarta hans, og það var bjart, fallegt en brothætt. Kannski að það hafi verið ein af ástæðunum fyrir því að hann faldi sig í myrkrinu, hver veit?
Ungur maður með fullt af getu og möguleikarnir endalausir, en á svipstundu er öllu svipt frá honum. En er lífið ekki þannig? Eina stundina hefurðu það en þá næstu er farið, allt er háð breytingum, hrokinn hans var að búast við því allt yrði eins áfram og endalaust.
En hann stóð aldrei upp aftur, ekki alla leið. Og því fór sem fór og nú er hann farinn. Það er margt hægt að læra af sögu hans og ég vona að hún verði einhverjum til góðs.
Og tár hennar féll á mjúka moldina þaðan sem fullkomið blóm reis sem hafði þann einn tilgang að gleðja lítið hjarta sem heimsótti bróður sinn af og til.